FRAMBJÓÐENDUR fjögurra stjórnmálaflokka kynntu stefnu sinna flokka í málefnum ferðaþjónustunnar í upphafi fundarins í gær, en að honum loknum svöruðu þeir fjölmörgum fyrirspurnum frá fundargestum sem m.a. snerust um sambýli ferðaþjónustunnar við aðrar atvinnugreinar eins og til dæmis hvalveiðar og virkjanir.
Fundur Samtaka ferðaþjónustunnar með frambjóðendum stjórnmálaflokka Ferðaþjónustan orðin mjög mikilvæg atvinnugrein

Frambjóðendur fjögurra stjórnmálaflokka voru sammála um mikilvægi ferðaþjónustunnar á Íslandi á morgunverðarfundi sem samtök ferðaþjónustunnar boðuðu til í gærmorgun. Arna Schram fylgdist með umræðunum þar sem m.a. kom fram að vaxtarmöguleikar greinarinnar væru enn miklir.

FRAMBJÓÐENDUR fjögurra stjórnmálaflokka kynntu stefnu sinna flokka í málefnum ferðaþjónustunnar í upphafi fundarins í gær, en að honum loknum svöruðu þeir fjölmörgum fyrirspurnum frá fundargestum sem m.a. snerust um sambýli ferðaþjónustunnar við aðrar atvinnugreinar eins og til dæmis hvalveiðar og virkjanir.

Kristín Halldórsdóttir frambjóðandi Vinstrihreyfingarinnar ­ græns framboðs á Reykjanesi reið á vaðið og sagði m.a., eins og reyndar aðrir fundarmenn síðar, að efling ferðaþjónustunnar væri einkar vænlegur kostur í íslensku atvinnulífi. Vaxtarmöguleikar greinarinnar væru miklir. Hún lagði hins vegar áherslu á undirstöðu ferðaþjónustunnar, sem að hennar mati er náttúra landsins og sérstakt landslag, og sagði í því sambandi brýnt að efla náttúruvernd, tryggja góða umgengni um landið og sjá til þess að ferðamennskan valdi ekki tjóni á viðkvæmri náttúru þess.

Geir H. Haarde, frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, tók undir þau orð að ferðaþjónustan væri orðin mikilvæg atvinnugrein en lagði áherslu á að atvinnugreinum, ferðaþjónustu eða öðrum, yrði ekki mismunað í skattalögum. Í máli hans kom þó fram að bjóða ætti atvinnugreinum upp á sem hagstæðast starfsumhverfi og kvaðst hann þeirrar skoðunar að lækka ætti gjald á atvinnutækjum sem notuð væru í atvinnurekstri. Þar átti hann m.a. við hópferðabíla og leigubíla, sem notaðir væru í ferðaþjónustu.

Vaxtarmöguleikar miklir

Árni Þór Sigurðsson, frambjóðandi Samfylkingarinnar í Reykjavík, tók undir orð annarra frambjóðenda um vaxtarmöguleika ferðaþjónustunnar og bætti við að þá möguleika bæri að nýta til að auka fjölbreytni í atvinnulífi landsmanna og renna stoðum undir þróun byggða sem víðast á landinu. "Náttúra landsins er sú auðlind sem ferðaþjónustan á hvað mest undir og þess vegna er brýnt að tvinna saman hagsmuni ferðaþjónustunnar og umhverfisins," sagði hann meðal annars.

Frambjóðandi Framsóknarflokksins í Reykjavík, Ólafur Örn Haraldsson, tók fram í upphafi framsöguræðu sinnar að Framsóknarflokkurinn vildi ekki skattleggja eða leggja álögur á atvinnulífið. Síðar sagði hann: "Ég ætla ekki að orðlengja um þá sjálfsögðu kröfu að ferðaþjónustan á ekki aðeins að búa við svipuð rekstrarskilyrði og aðrar atvinnugreinar í þessu landi heldur á hún að hafa ef eitthvað er betri starfsskilyrði en samkeppnisaðilar í útlöndum."

Í máli Ólafs kom einnig fram sú skoðun að óhjákvæmilegt væri að þróa stóriðju sem og ferðaþjónustu í framtíðinni. "Það verður aldrei annaðhvort eða og ég hlusta af mikilli athygli á þær hugmyndir sem hafa komið einmitt úr þessum hópi að hér eigi þessar greinar að vinna saman og jafnvel að fjárfesta hvor í annarri. Ég held að þar séu miklir möguleikar," sagði hann.

Mismunandi skoðanir á hvalveiðum

Áhrif hugsanlegra hvalveiða á ferðaþjónustuna komu einnig til tals á fundinum og tók Ólafur Örn m.a. fram í framsögu sinni að fara þyrfti mjög varlega í þessum málum. "Ég var einn af þeim sem samþykktu þingsályktunartillögu á Alþingi um að hefja skuli hvalveiðar að nýju. En ég verð þó að viðurkenna að eftir því sem ég hef kynnst því máli betur, m.a. átt viðræður við fólk í þessum sal hér, hefur mér æ verr litist á einhvern gassagang eða frumhlaup í þeim efnum. Ég tel að við eigum að fara afar varlega og hefðum ekki mátt ganga lengra en við gerðum á Alþingi."

Í þessu sambandi lagði Geir H. Haarde hins vegar áherslu á að tengja bæri ferðaþjónustuna við hvalveiðar ef út í þær yrði farið. "Hvalaskoðun er að sjálfsögðu merkileg viðbót við okkar ferðaþjónustu, ef við förum út í hrefnuveiðar, sem ekki er óhugsandi," Hann sagði ennfremur að hvalveiðar þyrftu ekki að vera "fjandsamlegar ferðaþjónustunni heldur gætu þær verið athyglisverðar fyrir menn að fá að sjá."

Geir sagði ennfremur að Íslendingar ættu að sameina ferðaþjónustuna við þá auðlindanýtingu sem þeir teldu henta. "Við eigum að virkja á Íslandi og við eigum að laða hingað erlend atvinnufyrirtæki sem nota þá orku. Ég tel að þetta geti vel farið saman," sagði hann og átti þá við ferðaþjónustuna og virkjanirnar.

Kristín taldi á hinn bóginn miður að tillaga um hvalveiðar skyldi hafa verið samþykkt á Alþingi og taldi að sú samþykkt hefði skapað "ákveðin vandræði í ferðaþjónustunni", eins og hún orðaði það. Taldi hún að með því að hefja hvalveiðar að nýju væri verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Árni Þór taldi þó að Íslendingar ættu að áskilja sér rétt til að nýta sér þessar auðlindir eins og aðrar. "Hins vegar verðum við að vega og meta heildarhagsmuni samfélagsins og mér er alveg ljóst að þetta getur haft skaðleg áhrif á ferðaþjónustuna. Þarna þarf því einfaldlega að fara fram mat á heildarhagsmunum okkar."

Vilja ekki færa Reykjavíkurflugvöll

Fjölmargar fyrirspurnir bárust á fundinum og voru frambjóðendur m.a. inntir álits á því hvort lækka ætti verð á bjór. Einnig voru þeir spurðir álits á þeirri nýjung sem kynnt hefði verið í Lögbirtingarblaðinu, að sögn eins fundarmanna, að ekki mætti birta myndir af ákveðnum stað á landinu. Frambjóðendurnir voru á einu máli um að það væri ekki forgangsatriði að lækka verð á bjór og sögðu sömuleiðis að það væri undarleg stefna að banna myndatökur. Þeir voru einnig spurðir að því hvort afnema ætti einkasölu á ostum og smjöri og sögðu þeir óhjákvæmilegt að þarna yrðu breytingar á. Flestir lögðu þó áherslu á að slíkar breytingar þyrftu að gerast hægt.

Um viðhorf sitt til tvöföldunar Reykjanesbrautarinnar benti Geir m.a. á að gert væri ráð fyrir þeirri framkvæmd á langtímavegaáætlun til ársins 2010. Hins vegar væri sjálfsagt að skoða nýjar hugmyndir um fjármögnun til þess að flýta fyrir breikkun brautarinnar. Frambjóðendur voru einnig spurðir um afstöðu til staðsetningar Reykjavíkurflugvallar og benti Geir á í því sambandi að það lægi ekki annað fyrir en að flugvöllurinn yrði á sínum stað næstu tíu til fimmtán árin. Árni Þór tók undir þau orð og sagði að flugvöllurinn væri þar sem hann væri á aðalskipulagi Reykjavíkur til ársins 2016. "Engin ákvörðun hefur verið tekin um að breyta því og þær framkvæmdir sem verið er að ráðast í eru óhjákvæmilegar."

Kristín kvaðst svo sannarlega ekki mundu beita sér fyrir því að stöðva framkvæmdirnar við Reykjavíkurflugvöll en vildi að dregið yrði úr þeirri gífurlegu flugumferð sem þar væri og átti þá fyrst og fremst við kennslu-, æfinga- og ferjuflug. Ólafur Örn kvaðst sömuleiðis á móti hugmyndum um að flytja Reykjavíkurflugvöll.Morgunblaðið/Jón Svavarsson ÓLAFUR Örn Haraldsson frambjóðandi Framsóknarflokksins í Reykjavík sagði m.a. á fundinum að fara þyrfti varlega í það að hefja hvalveiðar að nýju.