Shiseido-snyrtivörurnar frá Japan hafa haldið innreið sína á íslenskan markað. Sögu fyrirtækisins má rekja til fyrsta apóteksins með vestrænu sniði sem lyfjafræðingurinn Yushin Fukuhara setti á laggirnar í Tókýó árið 1872.
VERK:: SAFN'FÖSTUDAGSBLAD DAGS.:: 990430 \: SLÖGG:: avöxtur hefða ur aus STOFNANDI:: VJON \: \: SNYRTIVÖRUR

Ávöxtur

hefða úr austri

og vísinda úr vestri

Shiseido-snyrtivörurnar frá Japan hafa haldið innreið sína á íslenskan markað. Sögu fyrirtækisins má rekja til fyrsta apóteksins með vestrænu sniði sem lyfjafræðingurinn Yushin Fukuhara setti á laggirnar í Tókýó árið 1872.

AUSTRÆNAR hefðir og heimspeki í bland við vestræn vísindi og viðskiptahætti lögðu grunninn að japanska snyrtivörufyrirtækinu Shiseido, sem er stærst sinnar tegundar í heimalandinu og fjórða stærsta í heiminum. Ársveltan er 336 milljarðar íslenskra króna, 73% utan Asíu, þar af 15% í Evrópu. Shiseido- snyrtivörur eru seldar í níu þúsund verslunum út um allan heim; í Bandaríkjunum, Asíu, Eyjaálfu, Miðausturlöndum og 27 Evrópulöndum, en Ísland er lokaáfangi í sókn fyrirtækisins á erlenda markaði í bili a.m.k.

Innreið Shiseido á íslenskan snyrtivörumarkað, sem talinn er velta 1,2 milljörðum króna á ári, þótti ekki einungis tíðindum sæta í viðskiptalífinu hérlendis. Hinn 1. desember sl. greindi Financial Times frá fyrirætlaninni í tveggja dálka frétt þar sem umboðsaðilinn, heildverslun Halldórs Jónssonar, er tilgreindur og þess jafnframt getið að hérlendis hafi sala húðsnyrtivara, sem er sérgrein Shiseido, aukist um 7% á ári.

Hús hamingjunnar

Frumkvöðull Shiseido var Yushin Fukuhara, sem árið 1872 opnaði fyrsta japanska apótekið með vestrænu sniði í Ginza-hverfinu í Tókýó. Í þá daga var kínversk læknisfræði í hávegum höfð í Japan, en Fukuhara, sem áður var yfirlyfjafræðingur hersins, hafði kynnst og hrifist af vestrænum læknavísindum í háskólanum í Tókýó. Þekking Fukuhara byggðist því bæði á austrænum og vestrænum grunni, sem hann nýtti sér með góðum árangri. Nafnið Shiseido, eða "shi" og "shei", sem á rætur að rekja til myndleturtákna í boðskap kínverska heimspekingsins Konfúsíusar, gæti útlagst á þann veg að hver og einn eigi að bera lotningu fyrir jörðinni, sem næri og auðgi lífið. Aðrar útskýringar eru: Hús hamingjunnar eða þúsund góðar óskir. Hvernig sem nafninu er snúið á aðrar tungur er inntakið alltaf hamingja og vellíðan, hugtök sem talsmenn Shiseido segja lýsandi fyrir markmið fyrirtækisins fyrr og síðar.

Undir handleiðslu Fukuhara óx fjölskyldufyrirtækið og dafnaði. Í apótekinu voru lyf búin til úr innfluttu hráefni frá Vesturlöndum, síðar var boðið upp á innflutt vítamín og viðskiptavinir kunnu vel að meta að innanbúðar var læknir sem gaf góð ráð. Þar sem reksturinn miðaði að því að bæta vellíðan fólks kappkostaði fjölskyldan að innleiða nýjungar, eitthvað "aukreitis sem gerði gæfumuninn". Gosdrykkjavél var komið upp, boðið upp á te, viðskiptavinir fengu skriflegar ráðleggingar og til augnayndis var blómabúð sett upp í anddyrinu.

Tannkrem, snyrtivörur og menning

Upphafið að viðskiptaveldi Shiseido má rekja til tannkrems, sem fyrirtækið framleiddi og sett var á markað árið 1888, og ilmvökvans Eudermine níu árum síðar. Vökvinn, sem enn er á markaðnum, var fyrsta japanska snyrtivaran sem framleidd var samkvæmt vísindalegri formúlu. Í kjölfarið kom andlitspúður árið 1907 og upp frá því hafa alls konar húðsnyrtivörur, ilmvötn og förðunarvörur komið fram á sjónarsviðið og haslað sér völl innanlands og utan.

Árið 1915 tók sonur Fukuhara, Shinzo, við stjórnartaumunum og lagði höfuðáherslu á framleiðslu snyrtivara. Hann hafði numið lyfjafræði í Bandaríkjunum og dvalist síðan um um eins árs skeið í Evrópu þar sem hann hreifst af listum og ljósmyndun. Allt frá þeim tíma hefur listin tengst Shiseido með beinum og óbeinum hætti, t.d. hefur fyrirtækið verið bakhjarl ýmissa listviðburða, stutt upprennandi listamenn og sett upp söfn og gallerí. Shinzo kom upp sérstakri hönnunardeild og réð hæfileikaríka listamenn til að skapa ímynd og ásjónu fyrirtækisins. Barnabarn stofnandans og frændi Shinzo, Yoshiharu Fukuhara, sem nú er stjórnarformaður, sagði í blaðaviðtali að sem framleiðendur fegrunarvara væri þeim bæði ljúft og skylt að styðja við listsköpun.

Út um allan heim

Fyrsta skrefið í alþjóðaviðskiptum var stigið árið 1957 þegar Shiseido-vörurnar fóru á markað í Taiwan, síðar Singapúr og Hong Kong. Markviss útþenslustefna hófst hins vegar árið 1965 þegar fyrirtækið hóf að framleiða vörur gagngert fyrir erlenda markaði.

Núna eru starfsmenn fyrirtækisins um 24 þúsund, þar af 4.500 á Vesturlöndum. Alþjóðlegar bækistöðvar eru í Tókýó, París og New York. Utan Japans eru 18 dótturfyrirtæki, 28 umboðsaðilar, tíu verksmiðjur og fimm rannsóknarstofur. Sölustaðir í Japan eru tuttugu þúsund auk þess sem Shiseido á 40 hár- og snyrtistofur, líkamsræktarstöðvar, snyrtiskóla, þrjá svokallaðra snyrtigarða, þar sem hægt er að kynna sér og prófa allar framleiðsluvörur Shiseido, tíu veitingahús og 44 keðjur tískuvöruverslana. Í eigu Shiseido eru líka fjögur söfn og gallerí og útgáfufyrirtækið Kyuryudo, sem stofnað var árið 1987 og sérhæfir sig í útgáfu listaverkabóka.

"Fyrirtækið er ávöxtur vestrænna vísinda og tækni og austrænna hefða og heimspeki," segja talsmenn Shiseido. Velgengnina þakka þeir að miklu leyti því að tekist hefur að halda í heiðri heimspeki Japana, sem byggist á að líkaminn sé spegill sálarinnar. Sú speki gengur út á að fegurðin endurspeglist í raunverulegu jafnvægi líkama og sálar.

FYRSTA FRAMLEIÐSLAN ­ Ilmvökvinn Eudermine var fyrsta japanska snyrtivaran sem framleidd var eftir vísindalegri formúlu árið 1897. Níu árum síðar kom andlitspúður frá Shiseido á markað.

FJÖLSKYLDUFYRIRTÆKIÐ ­ F.v. frumkvöðullinn Yushin Fukuhara, sonur hans Shinzo Fukuhara og barnabarn Ysihin, Yoshiharu Fukuhara, sem nú er stjórnarformaður.

ÍMYNDIN ­ Shinzo Fukuhara, sem var mikill listunnandi og einn fremsti ljósmyndari Japans, fór ótroðnar slóðir þegar hann setti á laggirnar hönnunardeild árið 1916 og fékk listamenn til að skapa ímynd fyrirtækisins. Eins og sjá má hefur ásjónan breyst í áranna rás. Sjálfur teiknaði Shinzo kamilíublómið, sem varð "lógó" fyrirtækisins.

1925

1936

1955

1964

1978

1991

RANNSÓKNARMIÐSTÖÐ OG FRAMLEIÐSLAN ­ Árið 1939 voru rannsóknir á vegum Shiseido settar undir einn hatt með stofnun rannsóknarmiðstöðvar. Núna starfa um eitt þúsund rannsóknarmenn við uppfinningar, þróunarstörf og prófanir á rannsóknarstofum fyrirtækisins innanlands og utan. Ein nýjasta framleiðsluvaran er Benefiance-húðsnyrtivörur, ætlaðar konum yfir þrítugt, og hefur eins og aðrar vörur fyrirtækisins staðist margra ára prófanir sérfræðinga. "Vísindi í umbúðum listarinnar" segja talsmenn fyrirtækisins.