ÞEGAR styttist til kosninga gripu brezkir íhaldsmenn til vopna. En í stað þess að berja á óvininum réðust þeir hver gegn öðrum í vígamóð. William Hague, formaður flokksins, reyndi í ræðum í fyrrakvöld að bera klæði á vopnin; hann sagðist ekki vera orðinn afhuga arfleifðinni frá Margaret Thatcher,

William Hague reynir að

bera klæði á vopnin

London. Morgunblaðið. ÞEGAR styttist til kosninga gripu brezkir íhaldsmenn til vopna. En í stað þess að berja á óvininum réðust þeir hver gegn öðrum í vígamóð. William Hague, formaður flokksins, reyndi í ræðum í fyrrakvöld að bera klæði á vopnin; hann sagðist ekki vera orðinn afhuga arfleifðinni frá Margaret Thatcher, en hann ætlar heldur ekki að draga í land í þeirri viðleitni að bæta ímynd flokksins í augum almennings og þvo af honum einkavæðingarstimpilinn í heilbrigðis- og menntamálum. Eftir stormasama viku í skuggaráðuneytinu virtist William Hague hafa þar töglin og hagldirnar aftur í fyrradag, þegar meðlimir þess skipuðu sér allir að baki honum og stefnu hans. En óánægjan kraumaði áfram í hópi óbreyttra þingmanna og frá þeim bárust þau skilaboð, að þar risu sjóir svo hátt, að mönnum yrði ekki skotaskuld úr því að safna þeim 24 undirskriftum, sem nægja til þess að fram fari kosning um vantrauststillögu á formann flokksins. Það var á þeirra fund, sem formaðurinn hélt í fyrrakvöld til þess að lægja öldurnar Í ræðunni neitaði Hague því, að hann væri að hverfa frá arfleifðinni frá Thatcher, sem hann nefndi "einn af mikilhæfustu leiðtogum flokksins", eða frjálshyggjunni, sem væri flokknum "stöðugur innblástur og hugmyndasmiðja". Hins vegar neitaði hann að hverfa frá þeirri stefnu að breyta ímynd íhaldsflokksins frá einkavæðingu á hverju strái í heilbrigðis- og menntamálum og lagði áherzlu á þau takmörk, sem einkavæðingu væru sett á þessum sviðum. Og tónninn frá John F. Kennedy var auðheyrilegur í orðum Hagues: "Ég mun fara í gegn um öll rök, kappræða við hvern sem er, þola alla gagnrýni og gera allt sem þarf til þess að koma til skila þessari afstöðu til heilbrigðis- og menntamála, sem er samkvæm eðli og grundvallarstefnu flokks okkar." Hague viðurkenndi í ræðu sinni, að það hefi mátt halda mun betur á málum innan flokksins, þegar ákvarðanir um þessa nýju stefnumörkun voru teknar og kynntar og lofaði hann að hann myndi hlusta betur á þingmenn í framtíðinni og sjá til þess, að þeir fengju að fylgjast betur með gangi mála. Af fréttum að dæma var máli Hague ekki illa tekið og beztar undirtektir fékk hann við þeim orðum, að takmark íhaldsmanna væri að ná stjórnartaumunum aftur, en ekki að leggjast í heimspekilegar vangaveltur um sérhvert smáatriði í stefnunni. Síðar um kvöldið flutti Hague aðra ræðu í fjáröflunarkvöldverði og endurtók þá m.a. hrós sitt í garð Margaret Thatcher. Hann sagðist hafa gengið í íhaldsflokkinn hennar vegna. "Ef menn segja, að við séum að snúa baki við Margaret Thatcher og frjálsa markaðnum, þá segi ég á móti: Við munum ávallt vera stolt af Margaret Thatcher og við munum alltaf vera boðberar hins frjálsa markaðar. En við trúum því líka, eins og ríkisstjórnir flokksins gerðu, að skólar og spítalar, sem kostaðir eru af almannafé, eigi að standa öllum opnir." Þótt William Hague hafi tekizt að friða flokksmenn sína í bili, hefur flokknum blætt svo í þessum átökum að vandséð er um gengi hans og þá ekki síður formannsins. Í skoðanakönnun, sem gerð var fyrir The Times og birt í gærmorgun, eru íhaldsmenn með 25% atkvæða, verkamannaflokkurinn með 56 og Frjálslyndir demókratar 13%. Verði úrslit kosninganna eitthvað þessu lík mun óánægjan brjótast út í aukinni gagnrýni á William Hague, sem sjálfur stendur mjög illa í augum kjósenda, ef marka má fyrrgreinda skoðanakönnun, en aðeins 10% telja hann hæfan flokksleiðtoga. Og mánuði frá sveitarstjórnarkonsingunum og heimastjórnarkosningunum í Skotlandi og Wales ganga Bretar enn að kjörborðinu og kjósa til Evrópuþings. Í þeim málaflokki eru líka harðar deilur innan Íhaldsflokksins. Það verður því skammt stórra högga á milli í pólitísku lífi Williams Hagues. Og það er hreint ekki víst, að þótt hann hafi sigrað í orustunni núna, þá eigi hann eftir að vinna stríðið. Reuters

WILLIAM Hague neitar að hverfa frá þeirri stefnu að breyta ímynd íhaldsflokksins.