FINNBOGI Ísakson, forseti færeyska Lögþingsins, segir að meirihluti sé fyrir því í þinginu að stefnt verði að því að Færeyjar verði fullvalda ríki en áfram með tengsl við Danmörku á sviði utanríkis- og efnahagsmála. Hann segir að mismunandi áherslur séu meðal stjórnmálaflokkanna um leiðir að þessu marki en allir eigi þeir sameiginlega þá sýn að breyting verði á sambandi Færeyja og Danmerkur.
Forseti Lögþings Færeyja í opinberri heimsókn Fullviss um lýðveldi innan tíu ára

FINNBOGI Ísakson, forseti færeyska Lögþingsins, segir að meirihluti sé fyrir því í þinginu að stefnt verði að því að Færeyjar verði fullvalda ríki en áfram með tengsl við Danmörku á sviði utanríkis- og efnahagsmála. Hann segir að mismunandi áherslur séu meðal stjórnmálaflokkanna um leiðir að þessu marki en allir eigi þeir sameiginlega þá sýn að breyting verði á sambandi Færeyja og Danmerkur.

"Ég er sjálfur fullviss um að innan tíu ára verði Færeyjar lýðveldi eins og Ísland. Reyndar eru skiptar skoðanir um þetta mál meðal landsmanna en þó hefur meirihluti verið fyrir því í flestum skoðanakönnunum," segir Finnbogi.

Síðasta skoðanakönnun var gerð í september síðastliðnum. Spurt var hvort Færeyingar ættu að stefna að fullveldi og var 52% aðspurðra sammála því. Einnig var spurningin sundurliðuð nánar. Hvort viðhalda ætti óbreyttu sambandi milli Færeyja og Danmerkur, stefna að fullveldi Færeyja eða að landið yrði á ný amt innan Danmörku. Niðurstöðurnar urðu þá allt aðrar.

"Aðeins 2% vildu að Færeyjar yrðu á ný amt, 13% vildu óbreytt ástand en aðrir, um 85%, vildu breytingar á sambandi Færeyja og Danmerkur. Ég er þeirrar skoðunar að efna eigi til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið því það er af þeirri stærðargráðu að vilji þjóðarinnar á að ráða. En áður þurfa að fara fram meiri umræður um málið og færeysk stjórnvöld ætla að leggja fram sín sjónarmið í svonefndri hvítbók sem verður gefin út innan tveggja mánaða," sagði Finnbogi.

Mikill kostnaður

Finnbogi segir að kostnaður samfara viðskilnaði við Danmörku yrði gífurlega mikill fyrir færeyskt þjóðfélag og að umræður í Færeyjum snúist um þann kostnað að miklum hluta. "Næstum allir Færeyingar óska sér sjálfstæðis en það er erfitt að ímynda sér efnahag þjóðarinnar ef skyndilega ætti að stöðva framlag Danmerkur til efnahagsins sem nemur 900 milljónum danskra króna á ári. Það er næstum þriðjungur af fjárlögum Færeyja. Gerðist það skyndilega yrði það Færeyingum mikið reiðarslag og þess vegna stefnum við að því að dregið verði smám saman úr stuðningi Dana. Sumir nefna að það eigi að gerast á fimm árum en aðrir hafa nefnt tíu ár. En staðan er sú að jafnvel þeir sem ekki eru sjálfstæðissinnar eru þeirrar skoðunar að draga beri úr fjárhagsstuðningi Danmerkur. Færeyingar óska þess allir að landið verði ekki öðrum háð í efnahagslegu tilliti," sagði Finnbogi.

Finnbogi Ísakson, forseti Lögþings Færeyja.