FJÁRÖFLUN verður um helgina á vegum Götusmiðjunnar-Virkisins sem rekið hefur meðferðarheimili fyrir unglinga á aldrinum 16 til 20 ára sem hafa átt í erfiðleikum vegna fíkniefnaneyslu frá því í júní 1998. Virkið fær fjögurra milljóna króna framlag frá ríkissjóði í ár og því þarf að grípa til almennrar fjársöfnunar til að endar nái saman en rekstur þess kostar á ári kringum 28 milljónir króna.
Söfnunarherferð fyrir Virkið

Rekstur kost ar 28 milljónir

FJÁRÖFLUN verður um helgina á vegum Götusmiðjunnar-Virkisins sem rekið hefur meðferðarheimili fyrir unglinga á aldrinum 16 til 20 ára sem hafa átt í erfiðleikum vegna fíkniefnaneyslu frá því í júní 1998. Virkið fær fjögurra milljóna króna framlag frá ríkissjóði í ár og því þarf að grípa til almennrar fjársöfnunar til að endar nái saman en rekstur þess kostar á ári kringum 28 milljónir króna.

Anna Helgadóttir og Jónína Jónasdóttir, talsmenn foreldrahóps Virkisins, tjáðu Morgunblaðinu að rekstur heimilisins væri erfiður fjárhagslega og ljóst væri að það gæti vart starfað mikið lengur nema það fái umtalsvert meiri stuðning frá hinu opinbera. Með átakinu um helgina á að afla fjár til rekstrarins á þessu ári en sem fyrr segir fékk Virkið fjórar milljónir á fjárlögum ársins og fékk svipaða upphæð á fjáraukalögum í fyrra.

Tólf unglingar í meðferð í senn

Tólf unglingar geta verið í meðferð í Virkinu í senn og segja Anna og Jónína drauminn að flytja heimilið í stærra húsnæði til að geta tekið fleiri í meðferð enda sé þetta eini staðurinn með sérhæfða meðferð fyrir 16 til 20 ára unglinga og biðlistinn er langur, allt að ársbið. Auk meðferðarinnar hafa á þessu tæpa ári sem Virkið hefur starfað verið veitt um 1.300 ráðgefandi símtöl. "Meðferðin er sniðin að þörfum hvers og eins og getur varað frá tveimur mánuðum og allt upp í ár en meðal meðferðartíminn eru þrír til fjórir mánuðir," segir Anna. "Þetta eru ungir krakkar og þeir þurfa langan tíma til að ná sér uppúr þessu. Þarna er unnið mjög gott starf, bæði unnið af hugsjón og þekkingu. Við vitum öll að mikil þörf er á slíkum meðferðarúrræðum. Unglingarnir eru yfirleitt tveir í herbergi og fá að koma með hljómflutningstæki og persónulega muni og líta á þetta sem heimili sitt meðan á meðferðinni stendur. Einnig er unglingunum hjálpað út í lífið aftur meðan á meðferð stendur annaðhvort í skóla eða vinnu og geta stundað það frá heimilinu til að byrja með."

Anna og Jónína segja að þá sé mjög vel hlúð að foreldrum, haldnir fundir vikulega til að styðja foreldrana til að takast á við vandann með unglingunum og segja þær slíkt stuðningsstarf mjög mikilvægt foreldrunum. Mikilvægt sé að hlúa að foreldrum og byggja þá upp til að þeir geti hjálpað krökkunum.

Tveir meðferðarfulltrúar starfa í Virkinu auk sálfræðings og annars starfsfólks. Söfnunarátakið um helgina fer þannig fram að auglýstir verða söfnunarsímar sem hringja má í og tilkynna um framlög.