FISKISTOFA hefur ekki upplýsingar um umfang viðskipta með varanlegar aflahlutdeildir, en tilflutningur þeirra jókst mikið á síðasta fiskveiðiári. Þannig voru færslubeiðnir vegna aflahlutdeilda 693 talsins. Samtals voru til dæmis 31,3% af heildarkvótanum í þorski, eða um 70 þúsund tonn miðað við óslægt, færð á milli skipa á fiskveiðiárinu 1997/98 en 11,8% árið áður, samkvæmt upplýsingum Fiskistofu.
Fiskistofa hefur ekki upplýsingar um umfang viðskipta með aflahlutdeildir 31,3% þorskkvótans flutt

milli skipa á einu ári

FISKISTOFA hefur ekki upplýsingar um umfang viðskipta með varanlegar aflahlutdeildir, en tilflutningur þeirra jókst mikið á síðasta fiskveiðiári. Þannig voru færslubeiðnir vegna aflahlutdeilda 693 talsins. Samtals voru til dæmis 31,3% af heildarkvótanum í þorski, eða um 70 þúsund tonn miðað við óslægt, færð á milli skipa á fiskveiðiárinu 1997/98 en 11,8% árið áður, samkvæmt upplýsingum Fiskistofu.

Sama gildir um aðrar tegundir, að veruleg aukning varð á tilflutningi aflahlutdeilda á síðasta fiskveiðiári samanborið við árið áður, en á því ári var tilflutningurinn minni en fiskveiðiárið 1995/96. Þannig jókst tilflutningur aflahlutdeilda í ýsu úr 11,2% í 27,9%, í karfa úr 5,9% í 30,6% og loðnu úr 3,8% í 20%. Um veltutölur er að ræða, þannig að ein og sama aflahlutdeildin getur verið talin oftar en einu sinni.

Ekki í okkar verkahring

Þessi tilflutningur endurspeglar ekki umfang viðskipta með varanlegar aflahlutdeildir, þar sem inn í þessum tölum er tilflutningur aflahlutdeilda milli skipa í eigu sömu útgerðar, auk tilflutnings vegna endurnýjunar skipastólsins, eigendaskipta skipa o.fl. Guðmundur Kristmundsson, deildarstjóri á Fiskistofu, sagði í samtali við Morgunblaðið, að stofnunin legði ekki mat á það hvenær um viðskipti milli óskyldra aðila væri að ræða og hvenær ekki. "Það hefur ekki verið gerð nein samantekt af okkar hálfu hvað af þessu er viðskipti og ekki í okkar verkahring," sagði Guðmundur.

Þegar um tilflutning aflamarks er að ræða, þ.e. aflaheimilda yfirstandandi fiskveiðiárs, greinir Fiskistofa hins vegar á milli þess hvort heimildir eru færðar á milli skipa í eigu sömu útgerða, í gegnum Kvótaþing eða hvort um jöfn skipti er að ræða. Guðmundur segir að ástæðan fyrir því séu þær reglur sem gildi um flutninginn. Ólíkar reglur gildi í þessum efnum hvað aflahlutdeildir varðar. Þegar menn sæki um flutning aflahlutdeilda þurfi þeir ekki að skilgreina hvers eðlis flutningurinn sé, eins og gera þurfi þegar aflamark sé flutt milli skipa.

Í nýútkominni skýrslu Þjóðhagsstofnunar um þróun sjávarútvegs, kvótakerfið, auðlindagjald og almenna hagstjórn kemur fram að stofnunin áætlar verðmæti fluttra aflahlutdeilda á síðasta fiskveiðiári rúman 51 milljarð króna en það var um 20 milljarðar króna tvö fiskveiðiárin þar á undan. Þar af er verðmæti fluttra aflahlutdeilda í þorski áætlað 24,5 milljarðar en var 9,2 milljarðar árið á undan. Segir stofnunin að þessar tölur sýni áætlað verðmæti allra flutninga á aflahlutdeildum á milli skipa, en ekki eingöngu þeirra aflahlutdeilda sem skiptu um eigendur. Segir stofnunin aukninguna í flutningi aflahlutdeilda eftirtektarverða, en þar komi væntanlega fram viðbrögð útgerðarmanna við breytingum á lögum um stjórn fiskveiða, sem komu til framkvæmda síðastliðið haust með nýju fiskveiðiári, einkum lögum um Kvótaþing, 50% veiðiskyldu og afnámi réttar til að afskrifa verðmæti keyptra aflahlutdeilda.