SKÓLASTJÓRAR Langholtsskóla og Vogaskóla og formenn foreldraráða og foreldrafélaga skólanna hafa skrifað borgaryfirvöldum og tjáð áhyggjur sínar af fyrirsjáanlegri aukningu á umferð í þessum skólahverfum sem verður með tilkomu Sundabrautar. Er þess óskað að borgaryfirvöld kynni sérstaklega fyrir íbúum hverfanna hugmyndir sínar um Sundabraut.
Umferðarhópur Voga- og Langholtsskóla um Sundabraut Áhyggjur vegna aukinnar umferðar um hverfin

SKÓLASTJÓRAR Langholtsskóla og Vogaskóla og formenn foreldraráða og foreldrafélaga skólanna hafa skrifað borgaryfirvöldum og tjáð áhyggjur sínar af fyrirsjáanlegri aukningu á umferð í þessum skólahverfum sem verður með tilkomu Sundabrautar. Er þess óskað að borgaryfirvöld kynni sérstaklega fyrir íbúum hverfanna hugmyndir sínar um Sundabraut.

Árni Geirsson, formaður foreldraráðs Vogaskóla, segir að íbúar Voga- og Langholtshverfa hafi áður bent borgaryfirvöldum á að gegnumumferð um hverfin sé orðin óþægilega mikil, þeir sem komi frá hafnarsvæðinu og ætli til dæmis í Skeifuna eða Fenin aki gjarnan Skeiðarvog, Holtaveg eða Álfheima. "Við sjáum fyrir okkur að hluti umferðarinnar um Vesturlandsveg sem kæmi af Sundabraut lendi í hverfinu, það liggur beint við ef ekki verða gerðar sérstakar ráðstafanir til að stemma stigu við því og það erum við að benda á í bréfinu," segir Árni Geirsson.

Í bréfi fulltrúa skólanna, sem kallar sig umferðarhópinn, kemur fram að undanfarið hafi farið fram vissar úrbætur til að draga úr umferðarhraða við skólana, götur þrengdar, settar upp hraðahindranir og gangbrautir lagaðar. Umferðarhópurinn segir að stefna beri að því að gegnumakstur í Voga- og Langholtshverfum minnki frá því sem nú er. "Hópurinn treystir því að unnt verði að finna lausn á umferðarmálum borgarinnar án þess að það komi niður á íbúum umræddra hverfa, ungum sem öldnum."