HALDIÐ verður á morgun málþing um sambúðarform og fjölskyldugerðir. Fer það fram í Kirkjuhvoli í Garðabæ og hefst klukkan 13.30, en það er Kjalarnesprófastsdæmi sem stendur fyrir málþinginu. Fyrirlesarar verða dr. Sigrún Júlíusdóttir félagsráðgjafi og dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson guðfræðingur.
Málþing um sambúð og fjölskyldur

HALDIÐ verður á morgun málþing um sambúðarform og fjölskyldugerðir. Fer það fram í Kirkjuhvoli í Garðabæ og hefst klukkan 13.30, en það er Kjalarnesprófastsdæmi sem stendur fyrir málþinginu. Fyrirlesarar verða dr. Sigrún Júlíusdóttir félagsráðgjafi og dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson guðfræðingur.

Í frétt frá Kjalarnesprófastsdæmi segir að málþinginu sé ætlað að varpa ljósi á fjölskylduna með tvennum hætti, annars vegar með því að líta á hefðbundinn skilning kirkjunnar á hjónabandi og fjölskyldu og hins vegar með því að líta á breytingar á sambúðarformi og fjölskyldugerðum sem átt hafa sér stað á síðustu árum og áratugum. Áhugafólk um fjölskyldustefnu kirkjunnar er hvatt til að taka þátt í málþinginu.

Einnig segir í frétt frá prófastsdæminu að margir gangi í gegnum fleiri en eina sambúð á lífsleiðinni, þær séu mislangar og ýmist staðfestar eða óstaðfestar. Margir aðilar gegni foreldrahlutverki í lífi barnanna til langs eða skamms tíma og samkynhneigðir myndi einnig margs konar fjölskyldugerðir.