MAGNÚS Már Þórðarson, línumaður Aftureldingar, er eini nýliðinn í landsliðshópi Þorbjörns Jenssonar sem hann tilkynnti á blaðamannafundi hjá HSÍ í gær. Markvörðurinn Bergsveinn Bergsveinsson úr Aftureldingu kemur aftur inn í landsliðshópinn eftir tveggja ára fjarveru. Íslenska landsliðið tekur þátt í Norðurlandamótinu í Noregi um aðra helgi.


Þorbjörn Jensson hefur valið 20 leikmenn

til æfinga fyrir verkefnin framundan

Bergsveinnaftur í hópinn

MAGNÚS Már Þórðarson, línumaður Aftureldingar, er eini nýliðinn í landsliðshópi Þorbjörns Jenssonar sem hann tilkynnti á blaðamannafundi hjá HSÍ í gær. Markvörðurinn Bergsveinn Bergsveinsson úr Aftureldingu kemur aftur inn í landsliðshópinn eftir tveggja ára fjarveru. Íslenska landsliðið tekur þátt í Norðurlandamótinu í Noregi um aðra helgi.

Þorbjörn valdi alls 20 leikmenn til æfinga og undirbúnings fyrir verkefnin sem framundan eru. Liðið kemur saman til æfinga strax á mánudag og verður meira og minna saman allan mánuðinn. Fyrsta verkefnið er Norðurlandamótið sem fram er í Stavangri um aðra helgi. Þar verður leikið við Norðmenn laugardaginn 8. maí og daginn eftir annaðhvort við Svía eða Dani. Þorbjörn fer með 14 leikmenn til Noregs.

Helgina eftir verða tveir leikir við Kýpur í riðlakeppni Evrópumótsins og fara þeir báðir fram í íþróttahúsinu Kaplakrika í Hafnarfirði 15. og 16. maí. Þá verður farið í æfingaferð til Þýskalands 21. maí og verða 16 leikmenn í þeirri ferð. Frá Þýskalandi verður farið beint yfir til Sviss og leikið þar í riðlakeppni EM 27. maí. Loks er það síðari leikurinn við Sviss hér heima, í Kaplakrika, sunnudaginn 30. maí.

Þorbjörn sagði að þeir leikmenn sem leika erlendis yrðu flestir komnir heim til æfinga 6. maí. Það eru aðeins Julian Róbert Duranona og Geir Sveinsson, sem leika í Þýskalandi, sem koma ekki fyrr en 12. maí og missa því af Norðurlandamótinu.

Morgunblaðið/Brynjar Gauti Sveinsson BERGSVEINN Bergsveinsson og Bjarki Sigurðsson, eru í landsliðshópnum sem kallaður hefur verið saman.