KOSNINGABARÁTTAN í Skotlandi vaknaði til lífsins í gær þegar birt var ný skoðanakönnun sem sýndi að Skoski þjóðarflokkurinn (SNP) hefur saxað nokkuð á forskot Verkamannaflokksins í baráttunni um fylgi kjósenda fyrir kosningar á nýtt heimastjórnarþing sem fram eiga að fara næstkomandi fimmtudag.
Fylgi skoskra þjóðernissinna eykst að nýju samkvæmt skoðanakönnunum

Kosningabaráttan

vaknar aftur til lífsins Edinborg. Morgunblaðið. KOSNINGABARÁTTAN í Skotlandi vaknaði til lífsins í gær þegar birt var ný skoðanakönnun sem sýndi að Skoski þjóðarflokkurinn (SNP) hefur saxað nokkuð á forskot Verkamannaflokksins í baráttunni um fylgi kjósenda fyrir kosningar á nýtt heimastjórnarþing sem fram eiga að fara næstkomandi fimmtudag. Könnun dagblaðsins The Glasgow Herald sýndi að Verkamannaflokkurinn fengi um 44% atkvæða, sem ætti að tryggja þeim 55 þingsæti af 128, SNP fengi 33% og 48 þingsæti, Frjálslyndir demókratar 10% og 15 þingsæti og íhaldsmenn fengju einnig 10% atkvæða en hins vegar aðeins 11 þingsæti. Þessar niðurstöður komu bæði stjórnmálamönnum og fréttaskýrendum í opna skjöldu í gær enda gaf skoðanakönnun The Glasgow Herald um síðustu helgi til kynna að fylgi SNP dvínaði stöðugt og munaði þá allt að tuttugu prósentum á fylgi flokkanna tveggja. Talsmenn SNP sögðu að þessi tíðindi væru til marks um að Verkamannaflokkurinn væri upp á sitt besta alltof snemma í baráttunni, enn væri nægur tími fyrir SNP að tryggja sér sigur. Gordon Brown, fjármálaráðherra bresku ríkisstjórnarinnar, sem nokkuð hefur beitt sér í kosningabaráttu Verkamannaflokksins í Skotlandi, sagði hins vegar við fréttamenn að þar á bæ veltu menn sér ekkert upp úr skoðanakönnunum, það eina sem máli skipti væri sú niðurstaða sem fengist á kjördag. "Ótrúleg fylgissveifla" Peter MacMahon, aðstoðarritstjóri og helsti fréttaskýrandi dagblaðsins The Scotsman , sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að vissulega kæmu niðurstöður könnunar samkeppnisaðilanna á The Glasgow Herald sér á óvart en benti á að kannanir The Scotsman væru yfirleitt öruggari enda væri þar beitt aðferðum við gerð kannananna sem ekki sýndu jafnmiklar, og jafn ótrúlegar, fylgissveiflur. "Það er mín tilfinning að þessi könnun sýni of mikla fylgissveiflu, ég á við að það sýnist fjarska ótrúlegt að svo mikil sveifla geti átt sér stað á svo stuttum tíma. En það var reyndar einnig skoðun mín að könnun The Glasgow Herald um síðustu helgi sýndi fylgistap SNP meira en það raunverulega var." MacMahon sagði útilokað að stuðningur leikarans Seans Connerys, sem kom fram á fundi SNP á mánudag, hefði getað haft slík áhrif og benti reyndar á að leiðtogum SNP til mikillar armæðu vakti sú uppákoma ekki eins mikla eftirtekt og þeir vonuðust eftir, enda þakti umfjöllun um morðið á bresku sjónvarpskonunni Jill Dando þann sama daga forsíður flestra dagblaða á kostnað ræðunnar sem Connery hélt. Hitt lægi alveg ljóst fyrir að bæði heimsókn Connerys, sem SNP-menn hafa álitið eitt sitt helsta tromp, og könnunin í gær gæfi flokknum aukinn kraft og vilja og hefði því örugglega áhrif á baráttuhug þeirra hér eftir. MacMahon sagði að samt sem áður væri næsta víst að niðurstaðan yrði þrátt fyrir allt að Verkamannaflokkurinn kæmi út úr kosningunum sem stærsti flokkurinn í Skotlandi, og að við tæki samsteypustjórn Verkamannaflokksins og Frjálslyndra demókrata. "En þessar kosningar marka tímamót hér í Skotlandi fyrir svo margar sakir, og það eru svo margir nýir og óreyndir þættir sem spila inn í, eins og t.d. sú staðreynd að nú er notast við hlutfallskosningakerfi í fyrsta sinn. Hvað veit ég nema úrslitin komi að lokum til með að láta okkur spámennina líta út sem hálfgerða kjána!" Mislukkað herbragð Verkamannaflokksins Könnunin í gær kom í kjölfar heldur slakrar frammistöðu Verkamannaflokksins á miðvikudag, eftir að flokkurinn hefur haft nánast stanslausan byr í seglin undanfarnar vikur. Mistókst þá herbragð þeirra er þeir hugðust koma höggi á Alex Salmond, leiðtoga SNP, vegna ummæla sem hann lét hafa eftir sér á þriðjudagskvöld. Salmond upplýsti þá að næði SNP hreinum meirihluta á þinginu skoska myndi flokkurinn þegar hefja viðræður við bresk stjórnvöld um aðskilnað landanna, og að þeim yrði lokið innan sex mánaða. Verkamannaflokkurinn í Skotlandi hugðist sýna fram á að þessi ummæli mörkuðu svik af hálfu SNP við það loforð að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um aðskilnað. Aðspurðir neyddust talsmenn Verkamannaflokksins hins vegar til að játa að færi svo að SNP ynni hreinan meirihluta í þingkosningunum þá mætti í raun túlka þau úrslit sem umboð fyrir flokkinn til að hefja "samræður" við bresk stjórnvöld um aðskilnað, ef ekki formlegar "viðræður". Talsmenn SNP bentu aukinheldur á að þrátt fyrir að slíkar viðræður færu fram þá stæði, eftir sem áður, loforð þeirra um að boðað yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu innan fjögurra ára. Þetta karp flokkanna virðist að vísu heldur marklaust í ljósi þess að heldur ólíklegt er að SNP nái að tryggja sér hreinan meirihluta á þinginu.