Með markvissri uppbyggingu vísindaaðstöðu við Mývatn, segir Árni Einarsson, má auðveldlega gera Mývatnssveit ennþá eftirsóknarverðari og styrkja þar með byggðina þar.
Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn Mývatnsrannsóknir Með markvissri uppbyggingu vísindaaðstöðu við Mývatn, segir Árni Einarsson , má auðveldlega gera Mývatnssveit ennþá eftirsóknarverðari og styrkja þar með byggðina þar. NÁTTÚRURANNSÓKNASTÖÐIN við Mývatn heyrir undir umhverfisráðuneytið og var stofnuð með samkomulagi við heimamenn, sem staðfest var með lögum nr. 36/1974 um verndun Mývatns og Laxár. Rannsóknastöðin hefur aðsetur og lögheimili á Skútustöðum við Mývatn. Í húsakynnum hennar fer fram fjölbreytt rannsóknastarfsemi, einkum í vistfræði. Er hún í höndum sérfræðinga frá ýmsum rannsóknastofnunum og háskólum. Rannsóknir á vettvangi fara einkum fram að sumarlagi, og eru vísindamenn þá búsettir þar. Lífríki Mývatns er að miklu leyti í dvala á veturna og tíminn er þá notaður til að vinna úr efniviðnum. Fer sú vinna fram á mörgum rannsóknastofnunum, og hefur eini fasti starfsmaður stöðvarinnar þá m.a. aðsetur við Háskóla Íslands þar sem hópur vísindamanna starfar saman að úrvinnslu gagnanna. Hlutverk Náttúrurannsóknastöðvarinnar í þessu samstarfi er m.a. að tryggja samfellu í rannsóknagögnum, útvega aðstöðu á vettvangi, sjá til þess að gerðar séu þær rannsóknir sem eru nauðsynlegur grundvöllur verndunar og leggja grunn að veiðiráðgjöf til silungsbænda. Þá stuðlar hún að útgáfu og kynningu rannsóknaniðurstaðna í innlendum og erlendum fagtímaritum, ritum fyrir almenning, með fyrirlestrahaldi, sýningarhaldi fyrir ferðamenn, kvikmyndagerð og með vefsíðum. Stjórn rannsóknastöðvarinnar annast ráðgjöf í umhverfismálum. Árið 1994 var gerður samningur milli rannsóknastöðvarinnar og Líffræðistofnunar Háskólans um gagnkvæma aðstöðu. Starfsmenn stöðvarinnar hafa aðgang að rannsóknaaðstöðu í húsum Líffræðistofnunar, en starfsmenn Háskólans notfæra sér vinnu- og gistiaðstöðuna á Skútustöðum. Þessar tvær stofnanir hafa nána samvinnu um rannsóknir á fuglum og mýi og krabbadýrum. Samvinna er einnig við Veiðimálastofnun um rannsóknir á silungi í Mývatni, og annast stofnunin ráðgjöf til Veiðifélags Mývatns. Einnig má geta þess, að Veðurstofan rekur sjálfvirka veðurstöð að Syðri-Neslöndum við Mývatn í samvinnu við rannsóknastöðina. Mývatn er eftirsóttur vettvangur til ýmissa náttúrufræðirannsókna og þeim mun eftirsóttari sem meira er vitað um svæðið og gagnagrunnur um lífríkið stækkar. Mývatnsrannsóknir þurfa á mun meiri sérþekkingu að halda en nokkurn tíma mun rúmast innan einnar stofnunar. Auk fyrrgreindra stofnana er leitað eftir sérfræðiaðstoð frá Orkustofnun, Náttúrufræðistofnun, Raunvísindastofnun, Hafrannsóknastofnun, Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Vegagerðinni, auk þess sem verkfræðistofur hafa lagt rannsóknunum lið (Vatnaskil sf., Línuhönnun hf.). Eru þá ótaldir háskólar í Þýskalandi, Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Bretlandi, Bandaríkjunum og Kanada. Mikið af rannsóknastarfi við Mývatn byggist á persónulegum áhuga vísindamanna, sem eru reiðubúnir að leggja verulegan hluta af tíma sínum og rannsóknafé í þessa vinnu. Eins er algengt að háskólanemar vinni rannsóknaverkefni sín við Mývatn. Með markvissri uppbyggingu vísindaaðstöðu við Mývatn með föstu starfsliði, en ekki bara einum föstum starfsmanni eins og nú er, má auðveldlega gera Mývatnssveit ennþá eftirsóknarverðari og styrkja þar með byggðina þar. Höfundur er forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn. Árni Einarsson