ÞRÍR framtakssamir ungir menn úr Breiðholtinu eru að gefa út nýtt íslenskt tónlistarblað sem heitir Sánd. Blaðið kemur út á morgun, föstudaginn 30. apríl, og verður dreift ókeypis í 2.500 eintökum í verslunum, félagsmiðstöðvum, söluturnum og víðar.
Útgáfa tónlistarblaðsins Sánd

Tónlistarblað fyrir ungt

fólk - unnið af ungu fólki

ÞRÍR framtakssamir ungir menn úr Breiðholtinu eru að gefa út nýtt íslenskt tónlistarblað sem heitir Sánd . Blaðið kemur út á morgun, föstudaginn 30. apríl, og verður dreift ókeypis í 2.500 eintökum í verslunum, félagsmiðstöðvum, söluturnum og víðar. Efni blaðsins er mjög fjölbreytt og má þar nefna viðtöl við þekktar íslenskar hljómsveitir, fréttir úr tónlistarheiminum, plötudóma, plaköt, snjóbretti og margt fleira. Athygli vekur að blaðamennirnir ungu eru á aldrinum 11-15 ára og heita Ingiberg Þór og Helgi Steinar Þorsteinssynir og Ari Már Gunnarsson. Þeir félagar eru þó ekki ókunnir blaðamennskunni því á síðasta ári gáfu þeir ásamt öðrum út tvö tölublöð af Prodigy Blaðinu.

"Prodigy Blaðið fjallaði bara um þá einu hljómsveit," segir ritstjórinn Ingiberg. "Sánd er allt öðruvísi, í því er fjallað um það sem er að gerast í tónlistarheiminum í dag og efnið því mun fjölbreyttara. Við vinnum allt blaðið sjálfir, skrifum greinar, tökum myndir og hönnum blaðið. Við gerum líka flestar auglýsingarnar sjálfir en blaðið er fjármagnað með auglýsingum. Það var mikil vinna að ganga í fyrirtæki og fá auglýsingar því þetta er nýtt blað og þess vegna þurftum við að sýna útprentaðar greinar og svoleiðis. Þetta hefur verið erfitt en líka mjög skemmtilegt."

­ Hefur þessi vinna ekkert komið niður á skólanámi ykkar?

"Jú, reyndar ... við erum búnir að vinna að blaðinu í níu mánuði. Byrjuðum í ágúst í fyrra en svo hófst skólinn og við fórum að læra á fullu. En við byrjuðum ekki að safna efni þá, annars væri það orðið þokkalega úrelt núna!"

­ Verður framhald á útgáfunni?

"Við stefnum að því að gefa blaðið út á tveggja mánaða fresti til að byrja með þannig að næsta blað ætti að koma í byrjun júní. Það verður miklu auðveldara því þá höfum við það fyrsta til að sýna."

­ Þið sögðuð í fyrra að Prodigy væri uppáhalds hljómsveitin ykkar. Er hún það ennþá?

"Jú, ætli það ekki. Við erum þó komnir með miklu víðari tónlistarsmekk núna heldur en þegar við vorum í Prodigy Blaðinu. En þá vorum við náttúrulega yngri."

­ Verður gróði af blaðinu?

"Það er nú ekki vaninn hjá okkur að tala mikið um gróðamál opinberlega. Það er eiginlega trúnaðarmál."

­ En af hverju eruð þið að þessu?

"Sumir krakkar gera ekkert annað en að skemmta sér og sitja fyrir framan tölvur í skotleikjum. Við viljum gera eitthvað annað, eitthvað sem okkur þykir skemmtilegt. Við höfum áhuga á öllu sem við erum að fjalla um í blaðinu. Okkur finnst skemmtilegra að gera blað heldur en að sitja á "irkinu" í marga klukkutíma."

Hvað ætlið þið að verða þegar þið verðir stórir?

"Þegar við verðum stórir?! Ég vil ekki tjá mig mikið um stærð, því ég er ekkert sérstaklega hár, en það væri gaman að taka sér blaðamennskuna fyrir hendur þegar maður verður eldri . En blaðamennska er ekki fyrir alla, maður þarf að kunna að skrifa greinar og hafa næmni fyrir hönnun. En fyrst og fremst verður maður auðvitað að hafa áhuga. Best er að prófa sig áfram á ýmsum sviðum áður en tekin er ákvörðun um hvað maður vill verða," segir Ingiberg að lokum.

Morgunblaðið/Ásdís HELGI Steinar, Ingiberg Þór og Ari Már eru blaðamenn framtíðarinnar.

FORSÍÐA fyrsta tölublaðs Sánds.