GREINILEGT er að mikið lífsmark er með gamla stórveldinu KR í Vesturbænum. Á 100 ára afmælisári félagsins hefur afsprengi þess, KR-Sport, fjárfest í þremur veitingastöðum við Eiðistorg á Seltjarnarnesi. Markmið hlutafélagsins KR-Sport er að sjá um rekstur knattspyrnudeildar félagsins en samkvæmt samþykktum þess getur hlutafélagið einnig fjárfest á sviði lista, menningar og afþreyingariðnaðar.


GREINILEGT er að mikið lífsmark er með gamla stórveldinu KR í Vesturbænum. Á 100 ára afmælisári félagsins hefur afsprengi þess, KR-Sport, fjárfest í þremur veitingastöðum við Eiðistorg á Seltjarnarnesi. Markmið hlutafélagsins KR-Sport er að sjá um rekstur knattspyrnudeildar félagsins en samkvæmt samþykktum þess getur hlutafélagið einnig fjárfest á sviði lista, menningar og afþreyingariðnaðar. Ekki kæmi á óvart að frekari fjárfestingar fylgi í kjölfarið.

Með þessu skrefi eru KR-ingar að fara inn á sömu brautir og knattspyrnufélög erlendis. Mörg hver hafa miklar tekjur af annarri starfsemi en knattspyrnunni sjálfri, s.s. afþreyingariðnaði margs konar, veitingarekstri og minjagripasölu. Víkverji spáir því að innan fárra ára hafi allt umhverfi knattspyrnunnar hér á landi breyst stórkostlega og KR-ingar séu að stíga fyrstu skrefin í þá átt.

ÁNÆGJULEG er sú breyting sem orðið hefur á hegðun 10. bekkinga grunnskóla að loknum samræmdu prófunum. Um margra ára skeið var það svo að allir kviðu þessum degi því í kjölfar prófloka fylgdi hópfyllerí með tilheyrandi vandræðum. Foreldrar, skólayfirvöld og forystumenn tóku loks í taumana og byrjuðu að skipuleggja svokallaðar óvissuferðir fyrir unglingana. Afleiðingin er sú að allt annar og ánægjulegri bragur er yfir þessum próflokadegi en áður var.

VÍKVERJI gerðist áskrifandi að sjónvarpsstöðinni Sýn fljótlega eftir að hún tók til starfa. Ástæðan var fyrst og fremst sú stefna stöðvarinnar að bjóða upp á íþróttaþætti en það er efni sem höfðar til Víkverja. Til að byrja með var úrvalið fremur fábreytt en smám saman hefur stöðin batnað og Víkverji telur hana nú vera afbragðs góða. Mestur fengur er í beinum útsendingum frá knattspyrnu, hnefaleikum og golfi. Gott sjónvarpsefni og hæfileikaríkir íþróttaþulir gera Sýn að stöð sem Víkverji vill ekki vera án.

NYTSEMI Netsins er ótvíræð í nútíma þjóðfélagi. En Netið hefur sínar dökku hliðar eins og lesa má í Lögmannablaðinu. Um nokkurra ára skeið hafa dómar verið kveðnir upp í Hæstarétti síðdegis á fimmtudögum og hefur dómsuppsagan verið eina tilefni lögmanna við réttinn til að hittast í Hæstarétti.

Í ársbyrjun byrjaði Hæstiréttur að birta dóma á heimasíðu sinni á Netinu. Brá þá svo við að þeim lögmönnum fækkaði verulega sem mættu í réttinn á fimmtudögum, jafnvel þótt þeir hafi átt mál sem verið var að kveða upp dóm í. "Þetta þykir Hæstarétti miður og einnig þeim lögmönnum, sem fastheldnir eru á hefðir. Þykir því rétt að beina því til hæstaréttarlögmanna að vera viðstaddir dómsuppsögu og þá jafnframt, í samræmi við hefð, að skrýðast skikkju á meðan dómar eru kvaddir upp," segir orðrétt í Lögmannablaðinu.