TUTTUGU og sex ára gamall Bandaríkjamaður, eiginmaður íslenskrar konu, lést í Bristol í Pennsylvaníu-fylki í fyrradag af völdum áverka sem hann fékk í kjölfar átaka á laugardagskvöld. Maðurinn skilur eftir sig einn son, rúmlega eins árs gamlan, sem hann á ásamt íslenskri konu sinni. Hann starfaði sem tónlistarmaður.
Eiginmaður íslenskrar konu í Bandaríkjunum

Ráðinn bani með hamri

TUTTUGU og sex ára gamall Bandaríkjamaður, eiginmaður íslenskrar konu, lést í Bristol í Pennsylvaníu-fylki í fyrradag af völdum áverka sem hann fékk í kjölfar átaka á laugardagskvöld.

Maðurinn skilur eftir sig einn son, rúmlega eins árs gamlan, sem hann á ásamt íslenskri konu sinni. Hann starfaði sem tónlistarmaður.

Samkvæmt fréttum í dagblaðinu The Inquirer í Pennsylvaníu var maðurinn á heimleið í bifreið sinni ásamt tveimur meðlimum rokkhljómsveitar sinnar eftir æfingu á laugardagskvöld, þegar tvær bifreiðar tóku að elta þá og ók önnur þeirra þétt upp að afturhluta bifreiðar þeirra. Þegar bifreið þremenninganna nam staðar gerðu hinar bifreiðarnar slíkt hið sama og upphófst orðaskak á milli mannanna þriggja og þeirra sjö sem voru í hinum bifreiðunum. Mögnuðust orðaskipti mannanna þar til slagsmál brutust út og var hnefum og bareflum beitt.

Árásarmaðurinn í varðhaldi

Einn mannanna, nítján ára gamall piltur frá sömu borg, sótti klaufhamar í bifreiðina og sló eiginmann íslensku konunnar í höfuðið með fyrrgreindum afleiðingum. Árásarmaðurinn var handtekinn í kjölfarið og játaði á sig verknaðinn. Hann var kærður fyrir líkamsárás en honum sleppt eftir að hann hafði greitt 10%, eða rúmlega 3,6 milljónir króna, af 500 þúsund dollara tryggingafé. Hann hefur nú verið kærður fyrir manndráp og var handtekinn fyrir þá sök síðdegis á þriðjudag. Þar var 500 þúsund dollurum bætt við tryggingafé og var árásarmaðurinn hnepptur í fangelsi í kjölfarið, þar sem hann reyndist ekki geta greitt tíund þeirrar upphæðar. Málið er enn í rannsókn.