ÞEGAR VIÐ horfum á kvikmynd upplifum við lífið þótt hvíta tjaldið sé dauður hlutur. Það sem við sjáum erum við sjálf; ótti okkar, vonir og tilfinningar," segir Finninn Pekka Mäkipää, forsprakki þeirrar tegundar listmeðferðar sem nefnist hreyfimyndaþerapía, en hann kynnti aðferðina í fyrsta sinn utan Finnlands með námskeiði við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands.

Viðbrögð

við hvíta tjaldinu

ÞEGAR VIÐ horfum á kvikmynd upplifum við lífið þótt hvíta tjaldið sé dauður hlutur. Það sem við sjáum erum við sjálf; ótti okkar, vonir og tilfinningar," segir Finninn Pekka Mäkipää, forsprakki þeirrar tegundar listmeðferðar sem nefnist hreyfimyndaþerapía, en hann kynnti aðferðina í fyrsta sinn utan Finnlands með námskeiði við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands.

Listgreinar á borð við dans, myndlist og tónlist hafa löngum þótt henta við meðferð og örvun þeirra sem af einhverjum orsökum eiga bágt með hefðbundna tjáningu. Færri hafa hins vegar heyrt getið um hreyfimyndameðferð og kannski ekki á öðru von þar sem greinin varð til í höndunum á Mäkipää. Hann er geðhjúkrunarfræðingur að mennt og hefur að eigin sögn verið "bíófrík" frá tólf ára aldri. Seint á 8. áratugnum hóf hann að nota kvikmyndir í meðferðarskyni og byggði á reynslu sinni af annars konar listmeðferðum. "Við fórum í bíó, tókum um 8 millimetra myndir og hófum svo gerð heimamynda þegar myndbandsupptökuvélarnar komu til sögunnar," rifjar hann upp. Aðferðin þróaðist með árunum og árið 1996 skrifaði Mäkipää um hana bók, auk þess sem hann hefur haldið fyrirlestra víðsvegar um Finnland.

"Kvikmyndir auðvelda fólki að læra á sinn innri mann, ekki síst dökku hliðarnar sem við reynum öll að bæla í daglegu lífi. Kvikmyndir eru þeirrar náttúru að þær vekja gjarnan sterk viðbrögð áhorfenda - þess vegna henta þær til þess að vinna með tilfinningar," segir Mäkipää. "Ef ungur drengur horfir á spennumynd sem vekur ótta eða hrylling fær hann færi á að takast við óttann í öruggu umhverfi. Að myndinni lokinni er sjálfstraust hans sterkara en áður því hann veit að hann getur sigrast á óttanum."

Heimamyndbönd gagnast ekki síður við hvers kyns meðferð, enda er nauðsynlegt að geta skoðað eigin hegðun utan frá. "Ef ég er til dæmis smeykur við að umgangast fólk get ég lært það með því að horfa á myndbandsupptökur af sjálfum mér. Þar sé ég nefnilega sjálfan mig eins og aðrir sjá mig," útskýrir Mäkipää.

"Hreyfimyndaskjárinn hefur tvenns konar virkni. Annars vegar er hann spegill sem sýnir okkur hug okkar á sama hátt og við sjáum andlit okkar í spegli. Hins vegar er skjárinn gluggi því hann gerir okkur kleift að horfa út í heiminn og skoða hvernig annað fólk hagar sér og leysir úr vandamálum."

Mäkipää bendir á að hreyfimyndir séu helsta upplýsingaveita nútímamannsins um umheiminn. "Sjálfur hef ég til dæmis aðeins séð Jimi Hendrix á skjá en mér finnst ég samt hafa séð hann. Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir áhrifamætti hreyfimynda nema það reyni að ímynda sér hvernig heimurinn væri án sjónvarps, kvikmynda og tölvuskerma. Hvernig mynd hefðum við þá af heiminum?"

Morgunblaðið/Halldór Í SAMRÁÐI við Finnsku málstöðina bjó Mäkipää til finnska hugtakið "elokuvaterapia" sem þýðir bókstaflega "meðferð með lifandi myndum".