VERÐ hlutabréfa á mörkuðum í Evrópu lækkaði nokkuð í gær þrátt fyrir hækkandi verð bréfa á Wall Street í kjölfar nýrra talna um hagstæða þróun launakostnaðar í Bandaríkjunum. Tölurnar gefa til kynna að laun hafi lítið hækkað í Bandaríkjunum það sem af er árinu og kemur það nokkuð á óvart þar sem allt eins hafði verið búist við talverðu launaskriði.
Peningamarkaður

Bjartar horfur í Bandaríkjunum

Minni launahækkanir þar en vænst hafði verið

VERÐ hlutabréfa á mörkuðum í Evrópu lækkaði nokkuð í gær þrátt fyrir hækkandi verð bréfa á Wall Street í kjölfar nýrra talna um hagstæða þróun launakostnaðar í Bandaríkjunum. Tölurnar gefa til kynna að laun hafi lítið hækkað í Bandaríkjunum það sem af er árinu og kemur það nokkuð á óvart þar sem allt eins hafði verið búist við talverðu launaskriði. Tölurnar valda einnig því að ekki er þörf fyrir aðgerðir Seðlabanka þar í landi í peningamálum að svo stöddu. Þegar kauphöllin í London lokaði í gær hafði Dow Jones Industrial vísitalan hækkað um u.þ.b. 30 punkta og spá margir áframhaldandi hækkun næstu daga.

Lyfjafyrirtækin Glaxo Wellcome og Astra Zeneca féllu nokkuð í verði í gær í kjölfar frétta af lækkandi verði á hlutabréfum í lyfjafyrirtækjum vestanhafs. Fjarskiptafyrirtæki lækkuðu einnig í verði á mörkuðum í Evrópu í gær, t.d. lækkaði British Telecom um 5 prósent, Alcatel um 2,35 prósent og France Telecom um 1 prósent. Lækkandi verði hlutabréfa í síðasttalda fyrirtækinu er talið standa í tengslum við samrunaáform Deutsche Telekom og Telecom Italia.

Dollar hélt styrkleika sínum gagnvart evru í gær og seldist evran á um 1,06 dollar eins og undanfarna daga. Fyrr um daginn féll evran lítillega tímabundið eftir að ljóst varð að vonir manna um hugsanlega lausn Kosovo-deilunnar höfðu brugðist og tilkynnt var að aðstoðarforsætisráðherra Jugóslavíu, Vuk Draskovic, hafði verið látinn fjúka.