Sturla Pétursson Oft varst þú búinn að tala um það að þú yrðir sá eini af þínum systkinum sem næðir því að verða áttræður, einnig ætlaðir þú að fara síðastur, og viti menn, þetta stóðst þú við eins og þín var von og vísa, og nú við andlát þitt lokast systkinahringurinn ykkar.

Ég veit að síðastliðið ár var erfitt hjá þér, þar sem þú horfðir á eftir tveimur af þínum yngri systrum, mömmu minni og þremur vikum seinna Helgu. Lengi höfðuð þið aðeins verið þrjú eftir af ykkar stóra systkinahópi. Öll voruð þið kölluð burt á stuttum tíma.

Þú og pabbi áttuð gott ár saman á Hrafnistu. Þið voruð eins og tvíburar og nutuð þess að fá félagsskapinn hvor frá öðrum.

Í fjölskyldum ykkar fenguð þið gælunöfnin Knoll og Tott, og voruð þið alveg einstakir saman.

Eftir að pabbi fluttist á Vesturgötuna varst þú einmana á Hrafnistu og fannst lífið ekkert skemmtilegt, talaðir um það að það væri bara leiðinlegt að vera gamall.

Ég veit að núna hefur þú það miklu betra þar sem þú ert innan um alla þína. Kæri Sturla minn, þú varst ekki bara ættarhöfðinginn, heldur varst þú móðurbróðir minn og pabbi "fóstursystur" minnar Dóru sem var alin upp hjá okkur í Efstasundinu.

Þegar ég lít til baka rifjast upp fyrir mér afmæli mömmu þegar hún varð sjötug, þá voruð þið þrjú enn með okkur. Við áttum yndislegar stundir þennan dag. Einnig rifjast upp fyrir mér afmæli systurdóttur þinnar, Jöru Hafsteins, sem varð fimmtug, en þá voru þær báðar farnar, mamma og Helga, en þú enn hér og að sjálfsögðu í afmælinu sem fulltrúi þinna systkina. Í báðum þessum veislum lékst þú á als oddi og varst hrókur alls fagnaðar. Þar sem Hrafnista er í göngufæri frá heimili mínu í Skipasundi kom það oft fyrir að lítill snáði, Sváfnir, gerði sér ferð í heimsókn til þín og þróaðist á milli ykkar mikil og trygg vinátta.

Sváfnir biður mig að koma til þín kveðju og þakklæti fyrir allar ykkar yndislegu samverustundir.

Elsku Sturla, ég kveð þig úr þessum heimi og vona að annar heimur taki við. (Nú held ég að þið getið tekið saman eina bertu, ekki satt?)

Far þú í guðs friði.

Þín systurdóttir

Guðrún Antonsdóttir.