Sigríður Pétursdóttir Fyrst þegar ég sá Sigríði var það hjá sonardóttur minni, sem bjó í Marklandi 6. Hún hjálpaði henni við húsverkin og fannst mér alveg einstakt að sjá hvað henni fórst það vel. Hún var velvirk og enginn hávaði og gauragangur, en allt glansandi hreint þegar hún fór. Ég spurði hana hvort hún væri til í að hjálpa mér hálfsmánaðarlega og var það sjálfsagt. Síðan eru sex ár og kom hún til mín á fimmtudögum og rækti sitt starf mikið vel. Síðasta fimmtudag, sem var sumardagurinn fyrsti, kom hún. Ég hafði það nú á orði við hana, að hún gæti látið það bíða til næsta fimmtudags, en hún taldi enga ástæðu til þess. Svo rann upp fyrsti sumardagurinn, bjartur og hlýr. Og hún kom. Við borðuðum góðan mat eins og venjulega, þegar hún kom til mín, við ráðgerðum margt, t.d. ætluðum við að fara einhvern daginn í Mjódd, við höfðum gert það áður. Svo ætluðum við í Bústaðakirkju á uppstigningardag. Og sjá sýningu á handavinnu, sem er afrakstur vetrarstarfs hjá eldra fólkinu, sem er bæði duglegt og myndarlegt, en ég og fleiri spilum. Um páskana komu þær til mín í heimsókn hún og dóttir hennar, sem býr í Ameríku, og hafði ég mikið gaman af að þær heimsóttu mig, þrátt fyrir stuttan stans hjá henni, og hún hafði náttúrulega mörgu að sinna.

Mennirnir áforma, en Guð ræður. Á sumardaginn fyrsta fór hún frá mér um miðjan dag og ætlaði að vera komin heim áður en Leiðarljós byrjaði, því við vorum báðar dyggir áhorfendur. En um kvöldmat hringir svo Lóa dóttir hennar til mín og segir mér að hún sé dáin. Hún kvaddi með reisn. Innilega samhryggist ég börnum hennar og sérstaklega syni hennar, sem átti heimili hjá henni. Góð og vönduð kona er kvödd hinstu kveðju.

Hjartans þakkir Sigríður mín fyrir alla þína velvild og vináttu. Guð blessi þig.

Marta Tómasdóttir.