Ívar Níelsson Hjartans faðir minn. Nú förum við víst ekki fleiri ferðir upp á heiði til að vitja um fisk eða fanga fugl. Nú á ég þess ekki lengur kost að fræðast af þér um tíðaranda horfins tíma þegar sveitir landsins stóðu í blómlegri byggð, margt var í heimili og búskapur féll og stóð með fólkinu á bænum en ekki endilega tækninni. Nú rökræðum við ekki oftar kosti og galla nýjustu tækni og vísinda.

Orð duga skammt til að lýsa hversu mjög mér þótti vænt um þig. Við vorum ekki alltaf sammála um alla hluti en ýmsar dyggðir kenndir þú mér að meta, s.s. heiðarleika, samviskusemi og snyrtimennsku. Það hefur vísast verið erfitt á stundum að ala upp þennan barnahóp sem við systkinin vorum og miklum dugnaði og fórnfýsi hafið þið mamma þurft að búa yfir. Það var enda gaman að fylgjast með ykkur reka þetta stóra heimili þar sem gat orðið býsna gestkvæmt, þá var skipulag og verkaskipting í hávegum höfð.

Einu mun ég aldrei gleyma, blikinu í auga þér í hvert sinn er við héldum til veiða "upp á heiði" sem kallað var. Sá glampi lýsti vel hve mjög þú unnir víðáttu og frelsi fjallanna og þeim gæðum sem íslensk náttúra hafði upp á að bjóða. Þú varst slyngur veiðimaður, stundum svo með ólíkindum þótti sæta og atorkan slík að þótt þú gengir oftast seinastur til hvílu varstu þó ávallt fyrstur upp að morgni. Mér er minnisstæður einn snemmsumarsmorgunn er við bræðurnir rumskuðum aðeins í veiðikofanum við það að þú gerðir þig kláran með veiðistöngina og gekkst niður að ármótunum til þess að reyna að setja í "þann stóra". Við bræðurnir héldum þó áfram að sofa, því sól var vart risin. Við hrukkum upp með andkvælum stundu síðar þegar þú vast þér inn í kofann, slengdir fullvaxinni heiðargæs á borðið og kvaðst við raust: "Ræs piltar, fariði nú að reyta!" Ekki vildir þú segja okkur hvernig þér hafði tekist að góma fuglinn, með veiðistöng að vopni. Vísast mun sá leyndardómur hafa fylgt þér allt á leiðarenda í þessu lífi.

Elsku pabbi, þú sem varst slíkur atorkumaður, iðinn og ósérhlífinn, slæmt þótti þér að missa þrek og heilsu seinustu árin. Megi þér því líða sem allra best þar sem þú dvelur nú. Þú átt það svo sannarlega skilið.

Sigurður Ívarsson.