Richard Björgvinsson Árið 1992 var Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins lögð niður. Við það urðu hin gömlu rit Þjóðvinafélagsins, Andvari og Almanakið, munaðarlaus. Með tilstyrk góðra manna varð úr, að Sögufélag tæki við þessum ritum og héldi áfram útgáfu þeirra með stuðningi frá skrifstofu Alþingis, en Þjóðvinafélagið hefur ávallt verið nátengt þeirri stofnun. Umráðamaður af hálfu skrifstofunnar varð Richard Björgvinsson. Frá hausti 1992 og fram eftir síðasta ári hittumst við Richard reglulega út af málefnum Þjóðvinafélagsins og hann sýndi þeim frá byrjun sérstakan áhuga og velvild. Við ræddum auðvitað útgáfumál félagsins, en hitt var þó öllu skemmtilegra að ræða við Richard um landsins gagn og nauðsynjar. Þar var hann vel heima og var sama hvort rætt var um útgerð fyrir vestan fyrir daga kvóta, stormasöm stjórnmál í Kópavogi fyrr á tíð eða málefni líðandi dags. Það var gott að tala við Richard Björgvinsson, mér virtist hann maður frjálslyndis og ávallt líta á mál af sjónarhóli mannúðar og umburðarlyndis. Blessuð sé minning hans.

Heimir Þorleifsson.