Jóhanna Sigríður Jónína Helgadóttir Elsku amma. Langri ferð þinni sem þú hófst fyrir rúmum níutíu árum er lokið. Nú ferðast þú á nýrri grund, nýtt ævintýri er hafið. Þegar komið er kveðjustund lít ég um öxl og fram streyma minningar allt frá barnæsku og þar til nú fyrir örfáum dögum. Minningarnar eru margar bæði góðar og ánægjulegar, þú varst sannkölluð amma og þú varðveittir barnið í sjálfri þér ótrúlega lengi og vel. Alla tíð hefur þú verið samofin lífi mínu og gast ávallt tekið þátt í gleði og sorg og gafst svo mikið af þér. Það var alltaf hægt að ræða alla hluti við þig og fróðleiksmolarnir margir sem þú miðlaðir til okkar allra. Amma lærði kvenfatasaum, fyrst hjá Hólmfríði systur sinni á Sauðárkróki, þá aðeins sautján ára gömul, en síðar í Reykjavík og varð hún eftirsótt saumakona. Um fimmtán ára skeið hélt hún saumanámskeið í sveitum Skagafjarðar, oftast hálfsmánaðar löng og á hinum ýmsu bæjum, þar sem aðstaða var til þess. Kynntist hún því miklum fjölda fólks og eignaðist fjölda vina og kunningja. En hún var þó fyrst og fremst móðir og húsmóðir og má jafnvel segja að hún hafi bæði verið bóndinn og húsfreyjan því að afi stundaði mikið vinnu utan heimilis, einkum akstur. Margir fallegir hlutir urðu til við saumavélina og verð ég þar að nefna íslenska þjóðbúninginn. Fyrsta búninginn saumaði hún á sig sjálfa fyrir alþingishátíðina á Þingvöllum 1930 en eftir það urðu þeir nokkuð margir og árið sem hún varð áttræð saumaði hún átján upphluti.

Þú varst mannglögg og ættfróð og fylgdist vel með öllum þínum afkomendum og var það með eindæmum hve hugur þinn var skýr allt til hinstu stundar.

Nú eruð þið afi sameinuð á ný og hafið fengið hvíldina og friðinn. Ég verð þér ævinlega þakklát fyrir alla þá ást og blíðu sem þú hefur gefið mér í gegnum tíðina. Með þessum fátæklegu orðum kveð ég þig í hinsta sinn.

Megi Guð geyma þig og varðveita.

Drottinn vakir, Drottinn vakir

daga og nætur yfir þér.

Blíðlynd eins og besta móðir

ber hann þig í faðmi sér.

Allir þótt þér aðrir bregðist,

aldrei hann á burtu fer.

Drottinn elskar, ­ Drottinn vakir

daga og nætur yfir þér.

(S.Kr. Pétursson.) Þín

Sigríður Stefánsd.