Richard Björgvins Richard Björgvinsson er látinn eftir langvarandi veikindi.

Hann var eina barn Björgvins bróður míns en móðir hans var Elín Samúelsdóttir. Hún var áður gift og átti með fyrri manni sínum fjögur börn, þrjá syni, sem allir eru látnir og eina dóttur, Þuríði, sem býr í Kópavogi, háöldruð. Þuríður var alltaf á heimili móður sinnar eftir að þær mæðgur fluttust til Ísafjarðar og síðar í Reykjavík. Eftir lát Elínar hélt Þuríður heimili með Björgvin þangað til hann lést. Þuríður er mikil sæmdarkona sem ávallt vildi láta gott af sér leiða enda vinsæl og virt af öllum þeim sem hún átti samleið með.

Richard frændi minn og vinur hafði mikinn áhuga á félagsmálum og vann mikið og gott starf fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Kópavogi. Hann var þar í bæjarstjórn í mörg ár og endurskoðandi bæjarreikninga í níu ár áður en hann var kjörinn bæjarfulltrúi. Hann var samviskusamur og sérlega vandvirkur í öllum sínum störfum.

Síðustu árin var hann starfsmaður Alþingis og átti mjög gott samstarf við þingmenn og starfsfólk. Richard var mildur maður og tók öllu mótlæti með æðruleysi. Hann átti sérlega gott með að umgangast fólk. Ég átti mjög gott samstarf við Richard og var hann alltaf ljúfur að rétta mér hjálparhönd þegar ég þurfti á að halda.

Kona hans, Jónína Júlíusdóttir, reyndist manni sínum traustur lífsförunautur og stóð með honum í blíðu og stríðu. Hún tók mikinn þátt í starfi fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þakkirnar fyrir óeigingjarnt starf voru með þeim hætti að Richard var sparkað úr framboði fyrir flokkinn í Kópavogi. Eftir það drógu hann og kona hans sig út úr stjórnmálastarfi. Aldrei sagði hann mér frá þessu fyrr en ég spurði hann hvort þetta væri rétt. Þá játti hann því en sagði ekki eitt orð um það fólk sem að þessu stóð. Ég hef oft velt fyrir mér hvernig Richard gat tekið þessu en það var ekki sótt til föður sem örugglega hefði tekið á móti þessum gerðum með hörku. Þeir feðgar voru ólíkir í skapi. Faðir hans var harðastur allra og lét ekki troða á sér eins og nokkrir í þeirri ætt eru þekktir fyrir.

Richard starfaði í mörg ár með föður sínum sem rak rækjuverksmiðju í Súðavík og söluframleiðslu fiskafurða, aðallega til Bretlands.

Þegar maður lítur yfir farinn veg eru margir farnir til annars heims. Öll eru systkini mín og makar þeirra horfin og nú er elsta barnabarn foreldra minna látið fyrir aldur fram. Vinirnir hverfa hver á fætur öðrum.

En það er huggun harmi gegn að ylja sér í hugljúfum minningum um Richard.

Við Kristín og fjölskyldur okkar sendum samúðarkveðjur til Jónínu konu Richards, barna, tengdabarna, barnabarna og annarra skyldmenna. Síðast en ekki síst til Þuríðar systur hans sem hann reyndist með fádæmum góður, ekki síður en hún reyndist honum alla hans ævi.

Guð blessi minningu Richards Björgvinssonar og gefi vandamönnum öllum styrk í sorg þeirra.

Matthías Bjarnason.