Kristján Rögnvaldsson Enn lifir minningin um þá örlagaríku atburði þegar Elliði sökk. Þá varð mér ljóst að ég ætti frænda sem héti Kristján Rögnvaldsson. Lítill gutti á níunda ári gerði sér engan veginn grein fyrir hver alvara var á ferðum, en tók óhjákvæmilega eftir því að fullorðna fólkinu var brugðið. Ótti og spenna lá í loftinu og síðan léttir þegar fréttist að mönnunum hafði verið bjargað. Löngu seinna, þegar ég hafði sjálfur kynnst sjósókn og íslensku vetrarveðrunum, leituðu þessir atburðir oft á hugann. Aðra eins prófraun er vart hægt að leggja á nokkra menn. Það er illviðri og vetrarmyrkur, þeir eru einskipa langt út af landi og óstöðvandi leki kemur að skipinu. Hjálp er á leiðinni en enginn veit hvort hún berst í tæka tíð. Enginn veit hvort þeir yfirleitt finnast þarna úti í myrkrinu. Það þarf mikinn styrk og mikla trú til að bíða við þessar aðstæður, halda áhöfninni saman og sannfæra um að hjálpin komi.

Bjarni á Júpiter vann það afrek að finna Elliða og komast að þeim og á síðustu stundu, bókstaflega, bjarga mönnunum sem biðu. Skipbrotsmenninrnir komu heim og sögðu frá og frásagnir þeirra öðluðust líf og lifðu áfram. Löngu síðar heyrði ég frá Siglfirðingum sagnir af þessum atburðum. Þær áttu allar sameiginlegan þráð: Aðdáun og virðingu þeirra manna sem áttu líf sitt undir því að skipstjórinn þeirra brygðist ekki á örlagastundu.

Unglingur kynntist ég Kristjáni í eigin persónu. Fyrst stóð mér ógn af þessum harðleita togarajaxli, frá honum geislaði kraftur og vald. Unglingurinn fann til vanmáttar síns og skildi ekki alveg hvers vegna kvenfólkið í fjölskyldunni talaði svona hlýlega um hann og til hans. Sá skilningur kom þó fljótt við nánari kynni af manni sem átti ríkar tilfinningar og var hlýr og mjúkur undir hrjúfu yfirborðinu. Hann var í rauninni rétt eins og amma mín og hin systkinin, markaður af erfiðri lífsbaráttu frá blautu barnsbeini, alinn upp í bjargfastri trú á hin æðstu gildi lífsins.

Kristján var ekki aðeins togarajaxl, hann var framfarasinnaður og lét sér ekki nægja að bíða þess að aðrir hrintu verkum í framkvæmd. Hann var einn forgöngumanna um að kaupa til landsins fyrsta skuttogarann, Dagnýju SI, og var skipstjóri á því skipi. Þannig ruddi hann veginn ef þess þurfti.

Það var á því skipi sem harðasta áfallið reið yfir, Páll sonur hans féll fyrir borð og fórst. Harmur Kristjáns hefur verið stór þá, en hann tók þessu áfalli með reisn. Nú kvaddi Kristján sjálfur og þótt hann væri kominn í land fyrir mörgum árum, þá var fráfall hans óvænt eins og þegar menn farast á sjó. Við erum ekki undir það búin. Kallið kom fyrirvaralaust og snöggt. Eftir er minningin um mikinn mann. Kristján Rögnvaldsson gat sér góðan orðstír sem deyr aldregi.

Ég bið fjölskyldu hans blessunar í sorg sinni.

Þórhallur Jósepsson.