BJARNI Haukur situr fyrir framan stóran spegil og er að bera á sig andlitsfarða. Engin förðunardama sjáanleg og raunar engin sála í þessum stóra kjallara undir Gamla bíói, nema leikarinn. "Ég hélt að það væru alltaf útlærðir förðunarmeistarar í þessu," segir blaðamaðurinn og lítur spyrjandi í kringum sig. "Ég er útlærður förðunarmeistari," svarar Bjarni og heldur áfram að mála sig.
BAKSVIÐS MEÐ HELLISBÚANUM

Ég er ekki

aumingi!

Sýningar á Hellisbúanum eru nú orðnar tæplega 150 talsins, um 50 þúsund Íslendingar hafa séð verkið og virðist ekkert lát á aðsókn. Sveinn Guðjónsson brá sér baksviðs á einni sýningunni, spjallaði við Bjarna Hauk Þórsson og fylgdist með viðbrögðum áhorfenda.

BJARNI Haukur situr fyrir framan stóran spegil og er að bera á sig andlitsfarða. Engin förðunardama sjáanleg og raunar engin sála í þessum stóra kjallara undir Gamla bíói, nema leikarinn. "Ég hélt að það væru alltaf útlærðir förðunarmeistarar í þessu," segir blaðamaðurinn og lítur spyrjandi í kringum sig.

"Ég er útlærður förðunarmeistari," svarar Bjarni og heldur áfram að mála sig. "Í Ameríku sjá leikarar um þetta sjálfir og raunar er það hluti af leiklistarnáminu. Ég held líka að þetta sé ekkert óalgengt hér heima, Gísli Rúnar til dæmis, gerir þetta alltaf sjálfur eftir því sem ég best veit..."

Bjarni Haukur hleypti ungur heimdraganum og nam leiklistina í New York: "Ég fór beint í nám úti, sótti ekki einu sinni um leiklistarskólann hér heima," segir hann og gefur enga nánari skýringu á því.

­ Það er rólegt hérna baksviðs...?

"Já, enda er ég eini leikarinn í sýningunni. Þetta var nú samt ekki svona rólegt þegar við vorum með miðnætursýningar á eftir Carmen Negra í fyrra. Þá var æpandi fólk hlaupandi hér um allt, berar stelpur að fara í bað og mikið í gangi. Þú hefðir átt að koma þá..."

­ Þú virðist mjög afslappaður, og aðeins hálftími í sýningu. Ertu ekki með sviðsskrekk?

"Nei, ekki get ég nú sagt það. Ég veit nokkurn veginn að hverju ég geng."

Ef svo fer fram sem horfir stefnir í aðsóknarmet á Hellisbúann. Bjarni Haukur játar að hafa átt von á að verkinu yrði vel tekið, en aldrei látið sig dreyma um þvílíkar undirtektir. Aðspurður kveðst hann ekki vera orðinn leiður á rullunni, þótt sýningar á Hellisbúanum séu nú orðnar um 150 talsins:

"Að vísu kemur það stundum fyrir, þegar ég er á leiðinni hingað niður eftir, að mér finnst ég ekki vera í stuði, en svo kemur það allt af sjálfu sér þegar ég er kominn á sviðið. Þú getur rétt ímyndað þér. Alltaf fullt hús. Það eru auðvitað forréttindi að fá að taka þátt í þessu. Reyndar ætla ég að taka mér sumarfrí í júní, en svo hefjum við aftur sýningar í júlí."

­ Hver er skýringin á þessum miklu vinsældum að þínu mati?

"Ég held að það sé sannleikurinn sem verkið endurspeglar. Það er skrifað á svo hjartnæman og fyndinn hátt að fólk upplifir fjölmörg atriði, sem það þekkir úr sínu eigin lífi. Menn sjá hina skoplegu hlið á sjálfum sér, maka sínum og fólki sem það þekkir og þetta bara hittir svona í mark. Samt sem áður er ég alveg gáttaður á þessum gífurlegu vinsældum. Þetta er auðvitað ekki normalt..."

­ Nú hef ég ekki séð verkið ennþá, en hef heyrt að margir karlar telji að verið sé að pota dálítið í konur, og öfugt, að konum finnist að verið sé að gera lítið úr körlum?

"Í rauninni er verið að gera stólpagrín að báðum kynjum í þessu verki og þeim er ekki mismunað á neinn hátt hvað það varðar. Það er bara verið að benda á að munurinn er talsverður á konum og körlum, ekki bara líffræðilegur heldur einnig í hugsunarhætti. Og boðskapurinn er í stórum dráttum sá, að bæði kynin viðurkenni þennan mun, sætti sig við hann og taki tillit hvort til annars í ljósi þess."

Eru karlmenn ömurlegir?

Nú hringja bjöllur og leikaranum er ekki til setunnar boðið. Blaðamaður og ljósmyndari koma sér fyrir á hliðarsvölum, með gott útsýni yfir bæði svið og sal. Og það er í rauninni ekki síður skondið að fylgjast með viðbrögðum áhorfenda úti í sal en sjálfum Hellisbúanum á sviðinu. Þarna má sjá fólk á öllum aldri, konur og karla, gefa hvort öðru olnbogaskot þegar Hellisbúinn segir eitthvað sem því finnst eiga sérstaklega vel við hitt. Stundum eru það konurnar sem taka bakföll af hlátri á meðan karlarnir láta sér nægja að brosa út í annað og öfugt. Oftast hlæja þó bæði kynin í samhljóma kór.

Reyndar er upphaf verksins ekki sérlega uppörvandi fyrir karlmenn: "Karlmenn eru ömurlegir", er upphafsstefið og síðan stígur Hellisbúinn á svið og fer að verja kynbræður sína: "Ef við lítum á steinöldina þá sjáum við að á þeim tíma tíðkaðist eitthvað sem hét verkaskipting. Konur sáu um heimilið og karlarnir voru veiðimenn. Það er því ekkert skrítið að við höfum þróast með mismunandi eiginleika. Núna erum við að gera alveg sömu hlutina, bara á nútímalegri hátt."

Þannig spinnur Hellisbúinn sig í gegnum verkið og sem karlmanni finnst blaðamanni, að þarna sé gerð heiðarleg tilraun, með bráðskemmtilegu ívafi, til að útskýra af hverju við karlar gerum hlutina svona en ekki hinsegin og af hverju við hugsum og sjáum heiminn með dálítið öðrum augum en konur. Undirrituðum finnst, í sannleika sagt, dálítið hafa hallað á karlmenn í samskiptum kynjanna á undanförnum árum. Margir karlmenn eru farnir að trúa því í alvöru að "þeir séu ömurlegir" og verði að breyta sínum lífsstíl og hugsunarhætti til samræmis við konurnar. Auðvitað má taka undir ýmislegt í málflutningi kvenna hvað varðar umgengni á heimilinu og nauðsyn þess að taka meiri þátt í heimilisstörfunum. Um það er ekki deilt. En fyrr má nú rota en dauðrota!

Nei, þeir eru ekki svo slæmir

Hellisbúinn túlkar karlmanninn vissulega í spaugilegu ljósi og þar kemur margt fram sem er verðugt umhugsunarefni fyrir okkur strákana. En konur þurfa einnig að hugsa sinn gang í ljósi þess sem Hellisbúinn dregur þarna fram. Hann segir til dæmis að konur hafi 7000 orða kvóta á dag, en karlar aðeins um 2000 orð. Þegar karlinn kemur heim úr vinnunni er hann oftast búinn með sinn kvóta, en konan á þá kannski eftir 5000 orð. Þess vegna talar hún stanslaust á meðan þau horfa saman á sjónvarpið og verður fúl þegar hann svarar ekki. Annað, sem konur verða að skilja, er að karlar geta yfirleitt ekki einbeitt sér nema að einu verkefni í einu. Þess vegna er það út í hött af konum að ætlast til að karlinn geti tekið þátt í samræðum á meðan hann horfir á fótbolta í sjónvarpinu. Það gengur einfaldlega ekki upp. Konur skilja það heldur ekki að tveir karlmenn geta þagað saman heilt kvöld, og liðið vel í návist hvors annars, á meðan hver tuska skrafar á þeim sjálfum í sófanum við hliðina.

Á meðan á sýningu stendur getur undirritaður ekki varist þeirri hugsun að boðskapur Hellisbúans hljóti að hafa jákvæð áhrif á samskipti kynjanna. Reyndar hefur hann heyrt sögu af því að verkið hafi bjargað hjónabandi, hvað svo sem hæft er í því. Það er þó alls ekki óhugsandi. Um leið og bæði kynin átta sig á að þau eru ólík á mörgum sviðum, og að því verður ekki breytt, hlýtur það að leiða til aukins umburðarlyndis gagnvart ólíkum þörfum og hegðun hvors annars. Eða maður skyldi ætla það.

Hvað sem því líður endar verkið á mun jákvæðari nótum fyrir karlmanninn en upphafið gefur til kynna. Hellisbúinn kemst sem sagt að þeirri niðurstöðu að karlmenn séu ekki svo slæmir þegar allt kemur til alls. Þeir eru bara öðruvísi. Og lokaorð Hellisbúans segja allt sem segja þarf: "Ég er ekki aumingi."

HELLISBÚINN kveður áhorfendur að lokinni velheppnaðri sýningu.

Morgunblaðið/Halldór "ÉG er útlærður förðunarmeistari..."

BJARNI Haukur Þórsson afslappaður að tjaldabaki fyrir sýningu.

"ÞAÐ eru auðvitað forréttindi að fá að taka þátt í þessu..."