ÍSLENSK-sænska verslunarráðið hélt aðalfund sinn í Stokkhólmi 18. maí sl. í húsakynnum Verslunarráðs Stokkhólms. Auk venjulegra aðalfundarstarfa voru rafræn viðskipti til sérstakrar umfjöllunar á fundinum, og kynntu þeir Skúli Mogensen frá OZ og Henrik Bergquist frá Ericsson samstarfsverkefni þeirra "iPulse", sem tengir saman ólíka samskiptamiðla eins og síma, tölvur og Netið.
ÐAðalfundur Íslensk-sænska verslunarráðsins í Stokkhólmi

Rafræn viðskipti til sérstakrar umfjöllunar

ÍSLENSK-sænska verslunarráðið hélt aðalfund sinn í Stokkhólmi 18. maí sl. í húsakynnum Verslunarráðs Stokkhólms. Auk venjulegra aðalfundarstarfa voru rafræn viðskipti til sérstakrar umfjöllunar á fundinum, og kynntu þeir Skúli Mogensen frá OZ og Henrik Bergquist frá Ericsson samstarfsverkefni þeirra "iPulse", sem tengir saman ólíka samskiptamiðla eins og síma, tölvur og Netið. Þá kynnti Johan Brenner starfsemi Etrade Nordic, sem í dag er annað stærsta fyrirtækið í heiminum í verðbréfaviðskiptaþjónustu á Netinu. Etrade hefur gert sérstakan samning við Verðbréfastofuna á Íslandi um miðlun þjónustunnar hérlendis. Í framhaldi af fundinum var farið í heimsókn til Ericsson í Stokkhólmi.

Íslensk-sænska verslunarráðið var stofnað í júní 1997 og telur nú tæplega 60 meðlimi, mest íslensk fyrirtæki. Í fréttatilkynningu frá Verslunarráði Íslands kemur fram að gert sé ráð fyrir að umfang starfseminnar í Svíþjóð eigi eftir að aukast á næstunni og fleiri sænsk fyrirtæki gangi í ráðið. Framkvæmdastjórn ráðsins er í höndum Verslunarráðs Íslands, en það á einnig gott samstarf við sænska sendiráðið á Íslandi og íslenska sendiráðið í Stokkhólmi.

Í stjórn Íslensk-sænska verslunarráðsins voru kjörnir: Bergþór Konráðsson, Sindrastáli, formaður, Geir Zoëga, Ísaga, Pétur J. Eiríksson, Flugleiðum, Gunnar Jóakimsson, SÍF, Skúli Mogensen, OZ, Hjörtur Hjartar, Eimskipi í Svíþjóð, Hans-Åke Pehrsson, DFDS Transport, Yngve Redling, Ericsson, og Janne Lundbladh, Comvision.

FUNDUR Íslensk-sænska verslunarráðsins í Stokkhólmi: Gert er ráð fyrir að umfang starfseminnar í Svíþjóð eigi eftir aukast á næstunni.