Opið alla daga frá kl. 12­18. Lokað þriðjudaga. Til 31. maí. Aðgangur 200 krónur í allt húsið. GUÐNÝ Hafsteinsdóttir sem heldur sína fyrstu einkasýningu í Sverrissal Hafnarborgar, er vel menntaður listamaður á sínu sérsviði. Hún er B.Ed frá Kennaraháskóla Íslands 1981 með handmennt og sögu sem sérgreinar.

Fylkingar

MYNDLIST

Sverrissalur

LISTIÐNAÐUR

GUÐNÝ HAFSTEINSDÓTTIR

Opið alla daga frá kl. 12­18. Lokað þriðjudaga. Til 31. maí. Aðgangur 200 krónur í allt húsið.

GUÐNÝ Hafsteinsdóttir sem heldur sína fyrstu einkasýningu í Sverrissal Hafnarborgar, er vel menntaður listamaður á sínu sérsviði. Hún er B.Ed frá Kennaraháskóla Íslands 1981 með handmennt og sögu sem sérgreinar. Húnn hefur verið á námskeiði í skóla fyrir handmenntir og hönnun í Danmörku 1991, setið í MHÍ 1991­95, og á tímabilinu tekið þátt í námskeiðum í Finnlandi og Ungverjalandi. Þrátt fyrir þátttöku á heilum 14 samsýningum heima og erlendis, að hún var bæjarlistamaður Kópavogs 1996, verið útnefnd til menningarverðlauna DV 1998 og fengið starfslaun í 6 mánuði 1998, er þetta sem sagt fyrsta sérsýning listakonunnar.

Það verður hins vegar ekki sagt að það sé neinn svipur frumraunar yfir gjörningnum, sem ákaflega vel er staðið að, ber vott um drjúga eðlisgáfu, góðan faglegan þroska og að auk djúpan ljóðrænan streng.

Listakonan hefur gefið sýningunni nafnið, Þá-Nú, sem vísar til þess að hún leitar fanga í fortíð en útfærir verkin á nútímavísu, sem er mjög í takt við það verðmætasta er fram hefur komið á sviði sjónlista hin síðari ár, allt frá frjálsri myndlist, yfir í listiðnað, hönnun og húsagerðarlist.

Guðný leitar þannig ekki frumleikans, heldur finnur hún hann í almennum hlutum notagildis, efniviðnum handa á milli og verklagni. Hún vinnur mikið í endurtekningum sem stigbreytast og nefnir framganginn, Fylkingar, og hér er klárleikinn í fyrirrúmi eins og getur strax að líta er inn í salinn er komið. Þá sandblæs hún ýmis glerform og gæðir þau nýju lífi, ósjaldan á einstaklega hreinan, nettan og kíminn hátt. Geta verið flöskur af margvíslegri gerð og til margra nota, þar sem tapparnir eru í mynd klerka, konunga og goða, og ef betur er að gáð sér í sandblásið mynstur á glerinu og í beinu samhengi við tappana.

Ekki einungis, að sýningin í heild hafi yfir sér svip upphafins hreinleika og látleysi, sem undirstrikað er með hvítum glerungi munanna, heldur skynjar skoðandinn eitthvað meira á bak við þessi einföldu form, eitthvað sagt en þó meira ósagt sem felur í sér safa og vaxtarmagn.

Og það er hinn mikli galdur . . .

Bragi Ásgeirsson

Ljósmynd/B.Á. SLÍÐUR, I-II-III.