Opið alla daga nema mánudaga frá 14 til 18. Til 30. maí. ÞORRI Hringsson sýnir í báðum sölum Listasafns ASÍ, tólf málverk í efri sal og sex í Gryfju. Á myndunum birtast dúkuð borð sem svigna undan litríkum krásum, og andlitsmyndir sem geisla af æsku, yndisþokka og gleði. Lífsnautn og munúð er allsráðandi. Þó eru myndirnar undarlega gamaldags og þurrar.

Augnakonfekt

MYNDLIST

Listasafn ASÍ

MÁLVERK

ÞORRI HRINGSSON

Opið alla daga nema mánudaga frá 14 til 18. Til 30. maí.

ÞORRI Hringsson sýnir í báðum sölum Listasafns ASÍ, tólf málverk í efri sal og sex í Gryfju. Á myndunum birtast dúkuð borð sem svigna undan litríkum krásum, og andlitsmyndir sem geisla af æsku, yndisþokka og gleði. Lífsnautn og munúð er allsráðandi. Þó eru myndirnar undarlega gamaldags og þurrar. Ástæðan fyrir því er að Þorri notar gamlar matreiðslumyndir sem tilheyra Betty Crocker-kúltúr eftirstríðsáranna, og andlitsmyndir úr glanstímaritum sem fyrirmyndir að málverkum sínum. Hvers vegna að mála myndir af öðrum myndum? Ýmsir forverar Þorra hafa farið svipaða leið, og Erró kemur náttúrlega upp í hugann. Maður gæti látið sér detta í hug að hér væri á ferðinni afturhvarf til popp-listar, en ég held þó ekki. Málverkin vekja upp spurningar um í hverju aðdráttarafl mynda sé fólgið og hvað felist í því að njóta myndar. Sá sem skoðar matreiðslubók og hrífst af myndunum, skoðar myndirnar vegna matreiðslunnar, og myndin gerir matreiðsluna girnilega: smakkað er á matnum í gegnum sjónskynið.

Það mætti ætlað að Þorri sé að benda á að þessu sé svipað farið í myndlistinni. Að sjálfsögðu skoðar enginn myndir Þorra eins og matreiðslubók. Enda eru þetta ekki myndir af matreiðslu, heldur myndir af matreiðslumyndum. Myndefni Þorra er hinn upphafni heimur matreiðslumyndanna, þar sem allt er eins og best verður á kosið, þar sem allir finna eitthvað við sitt hæfi, og allir geta fundið eitthvað sem þá langar í. Matreiðslubækur og myndir þeirra gefa fyrirheit um sælustund. Ég skil það svo, að það sem Þorri er að fást við, og fær hann til að taka upp þetta sérkennilega myndefni, er þessi hugmynd um myndina sem fyrirheit um fullkomna sælu og uppfyllingu óska. Einu sinni gegndi myndlist því hlutverki að vera hvort tveggja fyrirmynd og fyrirheit. Hún gat gert óskir, þrár og drauma sýnilega og trúverðuga. Nú hafa glanstímarit og matreiðslubækur tekið við því hlutverki, að uppfræða okkur um hvernig fyrirmyndarlíf lítur út og sýna okkur, að með því að fylgja einfaldri forskrift mataruppskriftarinnar (eða nota rétta sjampúið), þá er líf í sælureit innan seilingar. Matreiðslumyndir gegna því tvíþætta hlutverki að vera eftirmyndir af matreiðslu, en jafnframt fyrirmyndir til að keppa að og tileinka sér. Þorri passar sig á því að gera ekki matinn of girnilegan og raunsannan, því myndir hans eru málverk, ekki matreiðslumyndir. Hann er heldur ekki að keppa við hollensku kyrralífsmálara 17. aldar, því hann er ekki að sýna heiminn eins og augað sér hann. Ástæðan fyrir því að Þorri notar gamlar myndir frekar en nýjar er kannski sú, að gömlu myndirnar gefa okkur ákveðna fjarlægð á matinn og andlitin, þau eru gamaldags og snerta okkur ekki lengur, en skilaboð þeirra eru skýr. Auk þess var prenttækni ekki eins góð og litir áttu til að vera ýktir og óraunverulegir. Þorri notfærir sér þetta og bætir við sjálfur, eins og sést í myndinni "Konfekt með glassúr", þar sem litadýrðin er óhófleg og dísæt. Andlitsmyndirnar gefa enn frekari vísbendingu um að það sem Þorra er hugleikið er frekar ímynd fegurðar í myndum sem nokkurs konar fyrirmynd. Þær eru almennt ekki eins spennandi myndlist, en koma þó vel út í þessu samhengi. Það er hægt að skoða myndir Þorra út frá tveimur sjónarmiðum. Annars vegar út frá hinni táknrænu þýðingu myndefnisins og hvernig hann nálgast hana. Úlfhildur Dagsdóttir fer þessa leið í áhugaverðri og skemmtilega skrifaðri grein í sýningarskrá, "Matur er mannsins megin?". Hins vegar er hægt að líta á myndirnar út frá myndrænum þáttum, eins og litum og myndbyggingu. Mér sýnist að síðarnefnda sjónarmiðið skipti ekki síður máli, og þau útiloka ekki hvort annað. Tvær myndir sem hanga hlið við hlið, "Núðluhringir með kjúkling" og "Kartöflulaxabaka" eru byggðar upp á mjög svipaðan hátt, eins og tilbrigði við sama mótív. Smekkleg uppröðunin á borðdúknum í "Sumarhlaðborð", þar sem allt er í röð og reglu, án þess að vera stirðbusalegt, byggir á fagurfræði sem á sér hliðstæðu í málaralistinni: óþvinguð og frjáls regla. Svo eru líka ákveðin tæknileg atriði sem Þorri er að fást við og reyna að leysa. Ef "Sissý terta" frá 97, er borin saman við þær sem eru málaðar 98 og 99, t.d. "Jólakonfekt" og "Snjóboltar", þá má sjá að hann hefur tekið umtalsverðum framförum í tæknilegri útfærslu, sem skiptir talsvert miklu máli með myndir af þessu tagi. Hér á ég ekki við smásmyglislegt raunsæi, heldur fágun og samkvæmni yfir heildina. Málverk Þorra eru skemmtilega margræðar ásamt því að bjóða upp á safaríka myndlist. Sýningin í heild kemur mjög vel út og staðfestir að hann er greinilega vaxandi myndlistarmaður og sýningin listrænn áfangasigur. Gunnar J. Árnason "SUMARHLAÐBORÐ", málverk eftir Þorra Hringsson, 1997.