Myndlista- og handíðaskóli Íslands hefur lokið störfum fyrir fullt og allt, 60 árum eftir að hann var stofnaður. Það verður BRAGA ÁSGEIRSSYNI tilefni til að líta til baka, hann var bæði tengdur skólanum sem einn aðalkennari hans um 40 ára skeið 1956­1996, og hálf öld er síðan hann var í hópi útskriftarnema skólans.

AÐ LEIÐARLOKUM

Myndlista- og handíðaskóli Íslands hefur lokið störfum fyrir fullt og allt, 60 árum eftir að hann var stofnaður. Það verður BRAGA ÁSGEIRSSYNI tilefni til að líta til baka, hann var bæði tengdur skólanum sem einn aðalkennari hans um 40 ára skeið 1956­1996, og hálf öld er síðan hann var í hópi útskriftarnema skólans.

ÞEGAR hinn merki skólafrömuður Lúðvíg Guðmundsson stofnaði Handíða- og myndlistaskólann 1939, var skólinn fyrst til húsa í fjórum kjallarastofum við Hverfisgötu 57. Og fyrir margt er þróunarferill skólans táknrænn fyrir landlægt, gegnumgangandi vanmat á skapandi grunnmenntun í handverki, listiðnaði, hönnun og myndlist. Táknrænt, að fátt mun frábrugðið um umhverfi frá fyrstu árum nema fjölmennið, stærðin og víðátturnar, þá litið er til síðustu ára og vinnuvettvangs myndlistardeilda á jarðhæð ófullgerðrar sláturhúsbyggingar, af sumum nefnt ruslgámurinn. Stefnumörk skólans fóru að mati stofnanda hans eftir brýnustu þörfum tímanna um skapandi mynd- og handmenntir. Voru í þrem liðum; að veita kennurum og kennaraefnum staðgóða sérmenntun í ýmsum greinum skólahandavinnu, að gefa almenningi kost á að nema þar ýmsar verklegar námsgreinar, svo sem bókband, trésmíði, létta málmsmíði, teikningu o.fl., að halda uppi kennslu í verklegum greinum fyrir atvinnulaus ungmenni. Kreppan var þá vel að merkja enn á fullu og landinn hafði alla tíð að mestu verið háður innfluttum iðnvarningi.

Haustið 1939 hófst kennsla með tveim námskeiðum í leikfangagerð og viðgerð leikfanga fyrir skáta, pilta og stúlkur. Við upphaf fyrra námskeiðsins ávarpaði yfirkennarinn, Kurt Zier, nemendur, og lét sig ekki muna um að gera það á íslenzku þá nýkominn til landsins. Sagði meðal annars: Við getum búið til ýmislegt, sem er skemmtilegra og frumlegra en það, sem kaupa má í búðum fyrir mikla peninga. Og þið munuð finna upp alveg ný leikföng, sem hvergi er hægt að fá keypt. En sá sem ætlar að smíða leikföng má ekki hafa gleymt að leika sér sjálfur. Því bið ég ykkur að safna alls konar hlutum, spýtum, smálistum, tréhnöppum, litlum krossviðarplötum, eldspýtustokkum, bútum af sívölum tréstöngum, tvinnakeflum ..."

Þetta má kalla að koma miklum hlutum í einfaldan búning, því hér er hreyft við sjálfum frumkjarna sköpunargleðinnar, að ljá því líf sem viðkomandi hefur handa á milli hverju sinni. Í raun ævaforn sannleikur og staðfestur af nýsköpurum aldarinnar í skapandi og háleitum athöfnum; ekkert efni er svo ómerkilegt að ekki sé hægt að ljá því líf með brögðum listar.

Hér voru miklar hugsjónir í fyrirrúmi, því til skólans var stofnað af litlum efnum, eins og Lúðvíg Guðmundsson orðaði það í viðtali við Mbl. Um leið sagði hann: Í bókstaflegum skilningi hef ég orðið við kröfum tímans um að fara niður stigann og hef því komið skólanum fyrir í fjórum kjallarastofum.

­ Þetta, að fara niður stigann, hefur verið hlutskipti skólans alla tíð, litið á hann sem afgangsstærð í menntakerfinu, því þrátt fyrir ýmsar hugmyndir hefur aldrei verið byggt yfir skólann og samkvæmt þeim sérkröfum sem gerðar eru til vinnuaðstöðu í svipuðum stofnunum erlendis, ný lög um hann í biðstöðu og þvælingi milli nefnda um áratugaskeið.

Varla er skrifari hér veruleikafirrtur ef litið er til þess, að á þessu tímaskeiði hafa verið byggð mörg vegleg skólahús yfir ímyndaðar þarfir og eldfornar hugmyndir danska embættismannaþjóðfélagsins, sem nú standa auð og hefði hvert eitt þeirra dugað sérskóla yfir myndlist, hönnun, skapandi verkmennt og handíðir, og það giska vel. Hefði getað fært þjóðarbúinu margfalda þá peninga sem skólahúsin kostuðu auk jarðbundinnar og safaríkrar lífsfyllingar til handa íbúum landsins. Má hér enn einu sinni vísa til þess, að slíkum stofnunum hefur um nær þriggja alda skeið verið skipaður veglegur sess í menntakerfi sjálfstæðra Evrópuþjóða, við hlið mál- og raunvísinda, og getur hver sem vill sannfærst um það er hann sækir heim höfuðborgir þeirra. Þær eru nefnilega í beinu sjónmáli í miðju þeirra margra, engu til sparað í stærð og húsagerðarlist. Er hér nærtækast að nefna konunglegu akademíuna við Kóngsins Nýjatorg í Kaupmannahöfn, sem var höfuðborg landsins í meira en fimm aldir. Akademían hýsti einnig arkitektaskólann, eða allt fram á síðustu ár og þar fyrir utan var og er vegleg bygging yfir listiðnað og hönnun annars staðar í borginni. Mikil spurning hví við sóttum ekki hér fyrirmyndir er við byggðum upp menntakerfi okkar eins augljós og þörfin má hafa verið, því það er ofar allri kröfu að rækta metnað og sjálfstæða hugsun meðal þegna fólks í landi á leið til sjálfstæðis. Hér voru menn afar glámskyggnir á gildi sjón- og fagurmennta og orsakanna er ekki að leita til legu landsins né einangrunar, því þannig mun þessu engan veginn hafa verið farið fyrir siðaskipti. Landsmenn virðast hins vegar hafa verið lengur en aðrar Evrópuþjóðir að vaxa frá því niðurrifi, vanmati og skeytingarleysi um háleitar sjónmenntir og arf fyrri kynslóða er siðaskiptunum fylgdu. Á höfuðborgarsvæðinu hefur hvorki skort fé til að byggja veglegar kirkjur né hús yfir gamalmenni og skal ekki lastað, en þegar byggja skal yfir skapandi athafnir, sjálft lífið, æskuna, framtíðina og blóðstreymið erum við allt í einu orðnir svo smáir og vanmegandi. Táknrænt er svo, að ekki má reisa hús yfir listir án þess að fara að huga að nytsömum tilgangi til hliðar til að réttlæta það, svo sem ráðstefnuhalda (!), og í hvaða landi öðru í Evrópu er sérbyggt húsnæði borgarlistasafns tekið undir almennar kosningar?

Handíða- og myndlistaskólinn var fljótur að sanna tilverugrundvöll sinn og þegar í upphafi komust færri nemendur en vildu í hinar ýmsu deildir hans og er fram liðu stundir til mikilla muna færri. Þegar flutt var í húsnæðið á Grundarstíg 2 árið 1941, sem næstu árin dugði skólanum vel, þótt sumar deildir störfuðu áfram í kjallaranum við Hverfisgötu, var myndlistardeild stofnuð. Innritaðist strax um tugur nemenda í hana, sumir landskunnir í dag. Hér var líka í fyrsta skipti í sögu þjóðarinnar og á markaðan hátt hugað að ýmsum þeim þáttum list- og verkmenntunar sem fyrir siðaskipti höfðu verið í hávegum. Þessi snöggu umskipti munu til marks um að mörgum ráðamanninum hefur verið ljós þýðing skólans fyrir menntakerfið, enda streymdu nú handgerðir hlutir úr deildum hans, allt frá hlutum notagildis til myndverka sem sá stað á ýmsum sýningum. Engin dæmi voru til þessa áður og vöktu hlutirnir óskipta athygli og aðdáun almennings. Þá setti Kurt Zier upp leikbrúðusýningu, forleik og þrjá þætti úr Fást eftir Goethe 1941, og hafði hann sjálfur smíðað brúðurnar og leiksviðið, en nemendur kennaradeildar aðstoðuðu við málun þeirra og leiktjaldanna.

Hér var um gríðalegt stökk að ræða til nútíma menningarþjóðfélags og undarlegt að ekki skyldi fljótlega hafist handa um varanlegt húsnæði yfir starfsemina, en hér mun í og með hafa ráðið árekstrar við Kennaraskólann, embættis- og bóknámsliðið. Það mikilsverða við skólann var að bæði var hugað að þjóðlegum arfi sem nútímalist, tvinnað saman nútíð og fortíð og hefði sá hugsunarháttur frumkvöðlanna betur verið varðveittur alla tíð. Þannig var tekin sú stefna að ráða framsæknustu listamenn þjóðarinnar til myndlistardeildar og byrjað á Þorvaldi Skúlasyni. Það bar þann árangur að aðeins fjórum árum seinna var námið viðurkennt af listakademíunni í Kaupmannahöfn sem fullgilt til inngöngu í hana próflaust. Var um svokallaða gestanemendur að ræða, hospidanter, og gátu menn orðið fullgildir nemendur eftir fyrsta árið, ef þeir stóðu sig vel og kærðu sig um. Var þetta drjúgur og ómetanlegur áfangi til að koma íslenzkum listaspírum á framfæri erlendis og til vitnis um að hér voru hlutaðeigandi með á nótunum, óhræddir við að hugsa stórt. Nám í kennara- og myndlistardeildum tók hið skemmsta tvö ár, en það var samfellt nám og árangur síst lakari verklega séð en fjögurra ára í dag, og hvað fríhendisteikningu snertir hafði það í ýmsum tilvikum vinninginn. Áhuginn var svo mikill að menn voru sínir eigin kennarar í listasögu og um árangurinn af því sjálfsnámi eru þó nokkrir nemendur myndlistardeilda til vitnis enn í dag. Skólinn fékk viðbótarhúsnæði á efstu hæð nýbyggingar Egils Vilhjálmssonar á Laugavegi 118 árið 1947 og hófst þá mikilvægur kafli í sögu hans, sem greinilega sá stað á tíu ára afmælissýningu hans í Listamannaskálanum gamla við Kirkjustræti vorið 1949. Nú mátti ætla að skólinn hefði rótfest sig, en þrengingatímabili hans var þó ekki lokið og á tímabili var það slíkt að kennt var í íbúð Lúðvígs Guðmundssonar, og lá við að skólinn legðist niður um miðbik sjötta áratugarins. En með nýjum lögum um listiðnaðardeildirnar tók allt skólastarfið nýjan fjörkipp 1956, fengið var á leigu nýtt og rúmgott húsnæði í Skipholti 1, þar sem sumar deildir hans eru enn starfandi. Upphaflega 400 fermetrar á annarri hæð en með tímanum hverja hæðina á fætur annarri, loks allt húsið auk tveggja viðbygginga hvorrar til sinnar handar og loks viðbótarhúsnæði í Skipholti 25. Fyrstu lög yfir skólann voru samþykkt á Alþingi 1965 og var þá nafni hans breytt í Myndlista- og handíðaskóli Íslands, en þau voru því miður af furðulegri skammsýni samin. Nú var sú stefna tekin að fjölga deildum allt hvað tók á kostnað þess að treysta þær og jarðtengja sem fyrir voru, jafnframt bæta réttarstöðu kennara við skólann og vinnuaðstöðu innan hans. Þeim atgangi lauk ekki fyrr en kennarar sem þá rétt fylltu tuginn voru orðnir 105 fyrir nokkrum árum, en einungis einn skipaður ásamt skólastjóra, en ekki meira um þá öfugþróun hér.

­ Eftir stendur, sextíu árum eftir stofnun hans, að hér var um stolt en vanmetið óskabarn þjóðarinnar að ræða, sem átti sína hörðu andstæðinga og úrtölumenn innan kerfisins. Og það sem þeir sem báru hitann og þungann af kennslunni um áratuga skeið sáu í hillingum var fótum troðið af þeim öflum sem vilja steypa allt kennslukerfið í eitt mót. Þá kom menntamálaráðuneytið ekki til skólans heldur skólinn til ráðuneytisins, sem eru mestu mistökin í allri sögu skólans, skerti sjálfstæði hans og sérstöðu sem þakið á allri samanlagðri myndlistarfræðslu í landinu. Það er ámóta vanhugsað og hin vinsæla og margþvælda tugga stjórnmálamanna, að vinnan eigi að koma til fólksins, því það er fólkið sem á að koma til vinnunnar. Og í öllum greinum lista er meginveigurinn sá að kenna fólki að vinna, því listin er ekki nema fimm prósent náttúrugáfa en níutíu og fimm prósent vinna.LÚÐVÍG Guðmundsson, fyrsti skólastjóri Handíða- og myndlistaskólans.HANDÍðASKÓLINN hóf starfsemi sína í kjallara hússins að Hverfisgötu 57.FYRSTI árgangur myndlistardeildar 1941-42. Fremri röð: María H. Ólafsdóttir listmálari lengstum búsett í Kaupmannahöfn. Látin. Kennararnir Kurt Zier og Þorvaldur Skúlason listmálari. Látnir. Þórunn Guðmundsdóttir. Aftari röð: Kristinn Guðsteinsson fatakaupmaður, Karl Kvaran listmálari. Látinn. Hörður Ágústsson listmálari og á tímabili skólastjóri MHÍ, Helga Einarsdóttir, Jóhann Pálsson og Einar G. Baldvinsson listmálari.HLUTI af dagdeild skólans 1948 og '49. Fremri röð f.v. Guðmunda Andrésdóttir, kenndi teikningu við Laugarnesskóla, myndlistarmaður, Guðrún Þórhallsdóttir, kenndi við barna- og gagnfræðaskólann á Siglufirði og Öldutúnskóla í Hafnarfirði, Svava Jónsdóttir var í myndlistardeild. Lést ung. Valgerður Hafstað myndlistarmaður, lengst af búið í París og New York. Þuríður Einarsdóttir var í myndlistardeild. Starfar nú sem leiðbeinandi í handmennt hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar. Aftari röð: Þórir Laxdal Sigurðsson, kenndi við Laugarnesskóla. Var námsstjóri í mynd- og handmennt. Kurt Zier, yfirkennari 1939­49 og skólastjóri 1961­68. Látinn. Bragi Ásgeirsson, kenndi við skólann 1956­96, myndlistarmaður og listrýnir Morgunblaðsins.

Hörður Ingólfsson, kenndi myndmennt og íþróttir við grunnskólana í Kópavogi. Látinn. Allt úskriftarnemar 1949 nema Svava og Þuríður sem voru á fyrra ári.FYRSTI hópur útskrifaðra handavinnukennara ásamt kennurum sínum, Kurt Zier, Elínborgu Aðalbjarnardóttur, Sigríði Arnlaugsdóttur og Valgerði Briem; Aftari röð f.v.: Anna Þorsteinsdóttir, kenndi handmennt við Húsmæðraskólann að Laugum.°Látin. Gerður Sigurðardóttir, kenndi handmennt m.a. á Stokkseyri og í Keflavík. Þorbjörg Eldjárn, kenndi handmennt við Húsmæðraskóla Suðurlands á Laugarvatni og Námsflokka Reykjavíkur. Herborg Kristjánsdóttir, kenndi handmennt við Laugarnesskóla. Látin. Indíana Guðlaugsdóttir, kenndi handmennt m.a. við verknámsdeild Lindargötuskóla og Húsmæðraskóla Suðurlands á Laugarvatni. Hólmfríður Ingjaldsdóttir, kenndi handmennt við Gagnfræðaskóla Austurbæjar. Rannveig Sigurðardóttir, kenndi handmennt við Gagnfræðaskóla Vesturbæjar, Gagnfræðaskóla verknáms, Ármúlaskóla og Hagaskóla. Erna H. Kolbeins, kenndi handmennt m.a. við Gagnfræðaskólann í Vestmannaeyjum, Réttarholtsskóla, Vogaskóla og Ölduselsskóla. Vigdís Pálsdóttir, kenndi við handavinnukennaradeildir K.Í. og K.H.Í. Lektor þar. Guðfinna Guðbrandsdóttir, kenndi m.a. við Andakílsskóla og Barna- og miðskólann í Hveragerði. Látin. Ólína Jónsdóttir, kenndi á eigin handavinnunámskeiðum í Reykjavík um margra ára skeið. Látin. Soffía Þórarinsdóttir, kenndi við Gagnfræðaskóla verknáms, Ármúlaskóla og og handavinnukennaradeildir K.Í. og K.H.Í. Lektor þar. Guðný Helgadóttir, kenndi handmennt við gagnfræðadeildir Laugarnesskóla, Vogaskóla og þjálfunarskóla ríkisins í Stjörnugróf. Þórveig Sigurðardóttir, kenndi handmennt m.a. við Barnaskólann á Hellissandi, Gagnfræðaskólann í Vestmannaeyjum, Héraðsskólann í Reykholti, Barna og gagnfræðaskólann í Keflavík og grunnskólana á Svalbarðs- strönd og í Gaulverjabæ. Ástrún Valdimarsdóttir, kenndi handmennt við Héraðsskólann og Húsmæðraskólann á Laugarvatni, Námsflokka Reykjavíkur, Gagnfræðaskóla Vesturbæjar, Gagnfræðaskóla verknáms Ármúlaskóla og í Hagaskóla. Á myndina vantar Auði Halldórsdóttur og Jónu Kristínu Brynjólfsdóttur. Þetta allt er talið upp til marks um hvað þessi fríði útskriftarhópur 1949 hefur lagt af mörkum til verkmenntunar á landi hér.SMÍÐAKENNARAR útskrifaðir 1949. Frá vinstri Gunnar Guðmundsson, fyrrverandi skólastjóri við Kársnesskóla, Kópavogi. Látinn. Jóhannes F. Jónsson, smíða- og íþróttakennari, kenndi fyrst á Siglufirði og síðan við Öldutúnskóla í Hafnarfirði. Látinn. Halldór Sigurðsson, smíðakennari við Eiðaskóla, þekktur handlistamaður. Látinn. Snorri Jónsson, smíða- og íþróttakennari. Kenndi smíðar við Skógaskóla. Fyrir framan þá situr Gunnar Klængsson, aðalkennari í tré og málmsmíðum, kenndi síðast við smíðakennaradeild K.H.Í. Lektor þar. Látinn.