Sálfræðingurinn hjólandi 62 ára bandarísk kona á 666 þúsund mílur að baki Djúpavogi-Þegar sálfræðingurinn dr. Joan Joesting var smástelpa í seinni heimsstyrjöldinni leiddist henni óskaplega að hjóla vegna þess að slöngur og dekk entust ekki deginum lengur og erfitt var um vik með viðgerðir.
Sálfræðingurinn hjólandi

62 ára bandarísk kona á 666 þúsund mílur að baki

Djúpavogi - Þegar sálfræðingurinn dr. Joan Joesting var smástelpa í seinni heimsstyrjöldinni leiddist henni óskaplega að hjóla vegna þess að slöngur og dekk entust ekki deginum lengur og erfitt var um vik með viðgerðir. En hlutirnir hafa breyst og nú hefur hún meðal annars hjólað um Ástralíu, Finnland, Danmörku og nú um Ísland.

Dr. Joesting er fædd í Texas í Bandaríkjunum árið 1937 og verður því 62 ára í haust. Foreldrar hennar og fjölskyldan öll voru drykkfelld og því þekkti hún ekkert annað fjölskyldumynstur en ofneyslu áfengis, enda lét hún ekki sitt eftir liggja í þeim efnum, að eigin sögn.

Líf hennar hefur verið stormasamt, en hún nam þó sálarfræði og ensku og hefur kennt þau fræði allan sinn starfsaldur, nú seinustu ár í Melbourne í Flórída þar sem hún býr með fjórða eiginmanni sínum og fimm köttum. Matthew, maður hennar, er 16 árum yngri en hún, en hvorugt þeirra hefur tekið eftir því, segir Joan.

Árið 1991 sagði hún áfengisneyslunni stríð á hendur og fór í meðferð. Hún segir að ein nautnin hafi tekið við af annarri og því fór hún að stunda hjólreiðar af kappi og síðar þríþraut. Hún hjólaði um Ástralíu, þar sem hún var búsett, það sama ár. Síðan dreif hún sig til Hollands árið 1996. Árið eftir endurtók hún Ástralíuförina og síðan lá leið hennar til Finnlands og Danmerkur og nú leggur hún Ísland "undir hjól". Er fréttaritari hitti hana á Djúpavogi var hún að leggja upp í næsta áfanga, til Breiðdalsvíkur, með vindinn í fangið.

Joan sagðist hafa heillast af Íslandi sem barn þegar hún las um landið. Hún segist hafa átt sér draum um að skoða hina margbrotnu náttúru frá sjónarhorni hjólreiðamannsins í mörg ár. Þrátt fyrir að Joan þyki vindurinn á Íslandi óvæginn, sé allt annað sem vegi upp á móti því. Joan er meðlimur í félagi hjólreiðamanna í Bandaríkjunum og hver hringferð sem hún hjólar er vandlega skráð. Hún leggur að jafnaði um 230 mílur að baki á viku. Á Djúpavogi sýndi mílumælir á hjólinu hennar 666 þúsund mílur. Og má búast við að þessi duglega bandaríska kona eigi eftir að bæta við nokkrum þúsundum mílna.

Morgunblaðið/Hafdís Bogadóttir