HUGMYNDAFRÆÐI er ekki í tísku. Margir tengja nú eitthvað ógeðfellt við orðið, t.d. einstrengingshátt og þras að ekki sé talað um glæpaverk alræðisflokkanna. Tuttugasta öldin skilur eftir sig arf í því tilliti með öllum hryðjuverkunum sem voru framin í nafni tvíburanna, nasisma og kommúnisma.
Fræði sem sigruðu

"Gott dæmi um vandræðaganginn er þriðja leiðin svonefnda milli markaðshyggju og jafnaðarstefnu; þegar hún er rannsökuð og nuddaður af henni farðinn kemur í ljós að boðuð er sígild hægristefna."HUGMYNDAFRÆÐI er ekki í tísku. Margir tengja nú eitthvað ógeðfellt við orðið, t.d. einstrengingshátt og þras að ekki sé talað um glæpaverk alræðisflokkanna. Tuttugasta öldin skilur eftir sig arf í því tilliti með öllum hryðjuverkunum sem voru framin í nafni tvíburanna, nasisma og kommúnisma.

Lenínismi, stalínismi, maóismi; framleiðslan á ismum hefur verið óþrjótandi og eins gott að nöfn forkólfanna voru ekki of löng og óþjál. En sannir hægrimenn hafa fremur viljað trúa því að þeir þyrftu ekki slíka leiðsögn, þeir hafa haft vantrú á rígbundnum kenningasmíðum úr akademíunni. Mestu skiptir að nota heilbrigða skynsemi, sögðu þeir og hlógu að endalausum túlkunartilraunum og innbyrðis rifrildi andstæðinganna.

En er þetta svona? Markaðshyggja og frjálslyndi byggjast ekki bara á einhverri heilbrigðri skynsemi okkar allra. Sumir höfðu einfaldlega meira til málanna að leggja en aðrir. Hugmyndafræðingar hægrimanna, menn eins og John Stuart Mill og Adam Smith, lögðu kannski ekki fram forskrift að gallalausu samfélagi eins og höfundar alræðis öreiganna en svo sannarlega betur ígrundaðar hugmyndir en aðrir höfðu gert. Af hverju ekki að kannast við það og sættast á að til séu ólíkar gerðir hugmyndafræði, misjafnlega altækar og misjafnlega ofbeldisfullar?

Og hvernig er það, erum við endilega laus við hugmyndafræði þótt við séum ekki sýknt og heilagt að vitna í einhverja skeggjaða spámenn frá síðustu öld? Lifi ég í tómarúmi, hefur ekkert af því sem aðrir segja eða gera mótað skoðanir mínar meira en eitthvað annað? Er ég ósnortinn af tíðarandanum og hef ég hjálparlaust skilið að markaðshyggja er, þrátt fyrir gallana, langskásti kosturinn?

Ef ég segist vilja lýðræði og frjálsa samkeppni er ég um leið að tjá skoðun mína á þeirri hugmyndafræði sem býr að baki, hvort sem ég er vel að mér um fræðin eða allsendis áhugalaus um þau. Strangt til tekið er það auðvitað líka hugmyndafræði að segjast vera á móti öllu slíku. "Enginn sannleikur er til" er fullyrðing sem oft er nefnd sem hliðstætt dæmi í heimspekiritum. Er fullyrðingin þá sjálf ósönn eða sjálfur stóri sannleikurinn ­ sem er þá til?

Rökstudd hugmyndafræði er þegar vel tekst til aðferð til að koma skipulagi á hugsanir sínar og tilfinningar, skilgreina forsendur, velja ákveðin gildi og reyna að segja fyrir um framtíðina. Síðan koma einhverjir og gera verkáætlun og það er þá sem allt fer aflaga ef menn líta ekki á hugmyndafræðina sem tæki heldur guðlega opinberun, síðasta orðið. En ætlum við að hætta að hugsa skipulega þegar stjórnmál eru annars vegar?

Varla. Sumir segja að stjórnmálin séu að visna eins og gamalt tré vegna þess að með auknu frjálsræði skipti pólitíkusarnir og allt þeirra stjórnlyndi okkur minna máli. Vonandi er eitthvað til í því, nóg gera þeir af því að sýna mátt sinn og megin en varla er nú búið að segja síðasta orðið þótt nær allir viðurkenni, ljóst eða leynt, yfirburði markaðshyggjunnar vegna reynslunnar af tilraunum sósíalista. Það gæti samt hugsast að umræður á Alþingi eigi eftir að snúast meira um grundvallaratriði laga og minna um skattfé til mismunandi brýnna hagsmunamála.

Þegar við spáum dauða hugmyndafræðinnar erum við sennilega að tjá mjög mannlega þrá. Við erum að óska þess að fólk lendi ekki oftar í skotgröfum kennisetninga, hætti að berjast jafn hatramlega um hugmyndir og gert hefur verið á öldinni. Og reyni að ræða saman.

En ekki má gleyma því að í reiptogi sigrar oftast annað liðið, svona í bili. Markaðurinn vann ­ en það geta vinstrimenn ekki sagt það vegna þess að þá væru þeir að viðurkenna að hafa haft rangt fyrir sér. Þá er skárra að segja að öll hugmyndafræði sé dauð, líka andstæðinganna. Auðveldara að halda andlitinu. Gott dæmi um vandræðaganginn er þriðja leiðin svonefnda milli markaðshyggju og jafnaðarstefnu; þegar hún er rannsökuð og nuddaður af henni farðinn kemur í ljós að boðuð er sígild hægristefna. Geta hægrimenn beðið um betri einkunn? Ekki einhver taumlaus oftrú á markaðinn heldur viðurkenning á því að deilurnar um skipulag framleiðslunnar, gildi einkarekstrar og þess háttar eru í aðalatriðum leystar.

Ef við lítum á stjórnmálaflokkana hér fer ekkert milli mála að þeir eru allir markaðshyggjuflokkar, jafnvel Vinstrigrænir sem verða þó að flagga gömlu hugsjónunum út á við af tillitssemi við gamla og trygga sósíalista. Sannfæringin er ekki mikil að baki. Blæbrigðamunur er á útfærslunni, oft vegna einhverra dulinna hagsmuna í byggðamálum eða enn þrengri hagsmuna en niðurstaðan er að hugmyndafræði allra er sú sem hægrisinnar hafa haft í stefnuskrám sínum í meira en öld. Eina viðbótin er velferðarkerfið sem enginn ætlar að leggja niður en sumir vilja lagfæra.

Ein hugmyndafræði er sem stendur allsráðandi en nýjar hugmyndir eiga eftir að kvikna. Menn hættu ekki að hugsa um stjörnufræði þótt gamlar ranghugmyndir um að jörðin væri flöt dyttu upp fyrir, menn hætta heldur ekki að hafa ólíkar lífsskoðanir þótt sósíalisminn sé jarðsunginn. Andlát hugmyndafræðinnar er áreiðanlega ýkt.

VIÐHORF Eftir Kristján Jónsson