LÆKNADEILD Tryggingastofnunar ríkisins (TR) hefur útbúið nýjan mælikvarða fyrir örorkumat í samræmi við nýsamþykktar breytingar á lögum um almannatryggingar sem taka eiga gildi hinn 1. september nk.
Nýtt örorkumat tekur gildi á hausti komanda LÆKNADEILD Tryggingastofnunar ríkisins (TR) hefur útbúið nýjan mælikvarða fyrir örorkumat í samræmi við nýsamþykktar breytingar á lögum um almannatryggingar sem taka eiga gildi hinn 1. september nk. Nýju örorkumati er ætlað að byggja alfarið á læknisfræðilegum forsendum en með því munu þeir sem læknisfræðilega teljast öryrkjar á háu stigi fá örorkuskírteini og þau réttindi sem því fylgja, óháð því hvort þeir stunda vinnu eða ekki.

Hingað til hafa þeir sem stundað hafa vinnu, þrátt fyrir erfiða sjúkdóma eða fötlun, ekki fengið örorkuskírteini. Þar með hafa þeir misst þau réttindi sem skírteininu fylgja, svo sem lægri greiðslu fyrir læknisþjónustu, lyf og sjúkra-, iðju- og talþjálfun. Helgi Seljan, framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands, telur að þessar breytingar á örorkumati séu spor í rétta átt og geti leitt til góðs. Hann bendir á að Öryrkjabandalagið hafi fylgst með umræddri lagasetningu og mælt með samþykki hennar.

"Þeir sem hafa verið örorkulífeyrisþegar í mörg ár og býðst vinna missa örorkulífeyrinn ef tekjur fara yfir ákveðið mark," segir í athugasemdum við umræddar breytingar á almannatryggingalögunum. "Við næsta endurmat á örorku er jafnframt hugsanlegt að þeir missi örorkuskírteinið, þ.e. örorka er þá metin 65%, 50% eða jafnvel minni en 50% án þess að sjúkdómsástand eða fötlun hafi nokkuð batnað. Þetta getur haft í för með sér verulega aukinn kostnað vegna læknisþjónustu, lyfja og þjálfunar. Þau störf sem öryrkjum bjóðast eru yfirleitt lágt launuð. Það er hins vegar sorglegt að einstaklingur, sem vill komast út í lífið og nýta krafta sína til að auka tekjurnar, getur lækkað í tekjum vegna tekjutenginga, auk þess sem viðkomandi missir þau hlunnindi sem örorkuskírteinið veitir."

Getur leitt til góðs

Helgi Seljan, framkvæmdastjóri Öryrkjabandalags Íslands, telur að þessar breytingar á örorkumati geti leitt til góðs svo framarlega sem mælikvarðinn eða staðallinn sem miða á við verði rétt nýttur, þ.e. nýttur eins og lögin geri ráð fyrir. Aðalávinningurinn sé sá að þeir sem stundi vinnu geti áfram fengið niðurgreidda ýmsa þjónustu gegn framvísun örorkuskírteinis.

Lífeyristryggingadeild Tryggingastofnunar mun áfram fylgjast með tekjum örorkuþega og greiða örorkubætur í samræmi við þær. "En þeir [öryrkjar] missa ekki sín réttindi [svo sem niðurgreiðslu á læknisþjónustu] sem getur haft mikla þýðingu fyrir marga þessara manna, sem þrátt fyrir vinnu eru mjög illa á sig komnir sem öryrkjar," segir Helgi.

Nýi mælikvarðinn eða staðallinn, sem felst m.a. í ákveðnum spurningum til að meta líkamlega færni og geðræn vandamál, er byggður á breskri fyrirmynd. Tryggingaráð hefur staðfest staðalinn og gert er ráð fyrir því að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra muni birta hann innan skamms í reglugerð. Haraldur Jóhannsson, tryggingalæknir hjá TR, segir að nýja örorkumatið sé sanngjarnara en hið fyrra, til að mynda vegna þess að með því verði örorka metin án þess að miða við tekjur. Í athugasemdum við frumvarpið að umræddum breytingum kemur fram að breytingarnar muni hafa um 35 til 50 milljóna króna kostnaðarauka í för með sér fyrstu árin og um 10 til 20 m. kr. á ári eftir það. "Kostnaðurinn verður eitthvað meiri í upphafi vegna aukinna útgjalda í sjúkratryggingum þar sem fleiri öryrkjar munu njóta afsláttarkjara í lyfja-, læknis- og þjálfunarkostnaði."