Árleg fuglaskoðunarferð Ferðafélags Íslands og Hins íslenska náttúrufræðifélags var farin fyrir nokkru. Gerður Steindórsdóttir segir hér frá fuglaskoðun suður með sjó.
Margæsir á Bessastöðum

Árleg fuglaskoðunarferð Ferðafélags Íslands og Hins íslenska náttúrufræðifélags var farin fyrir nokkru. Gerður Steindórsdóttir segir hér frá fuglaskoðun suður með sjó.

FARARSTJÓRARNIR, Gunnlaugur Pétursson og Hallgrímur Gunnarsson, stóðu við rútu á BSÍ og héldu á þungum sjónaukum á þrífæti. Þetta var að morgni laugardagsins 8. maí sl. Klukkuna vantaði fáeinar mínútur í tíu en þá skyldi leggja af stað í árlega fuglaskoðunarferð Ferðafélags Íslands og Hins íslenska náttúrufræðifélags. Inni í rútunni sat hópur fólks, þar á meðal nokkrir útlendingar, á öllum aldri enda ferðin auglýst sem fjölskylduferð. Flestir höfðu sjónauka með sér af ýmsum stærðum og gerðum, svo og fuglaskoðunarbækur, eins og Fuglahandbókina eftir Þorstein Einarsson og Fuglana okkar eftir Stefán Aðalsteinsson og Grétar Eiríksson sem ætluð er börnum og unglingum. Veðrið var þungbúið en fararstjórarnir sögðu að það væri betra, þá kæmu litir fuglanna mun betur fram.

Leiðin lá um Bessastaði, Garðskaga, Sandgerði, Hafnir, Reykjanes og heim um Svartsengi. Á leiðinni að Bessastöðum sagði fararstjórinn að líklega hefðu slíkar ferðir verið farnar í þrjátíu og fimm ár þótt skráning fuglategunda hefði hafist fyrir þrjátíu árum. Allir fengu blað með lista yfir þá fugla sem sést hafa í þessum ferðum á árunum 1970­1998. Alls eru það sjötíu og sjö fuglategundir og merkt við hvenær sást til þeirra. Í fyrra var slegið met þegar sást til fimmtíu og níu fuglategunda. Alltof langt mál yrði að telja upp alla algenga fugla suður með sjó en nefna má fáeina, eins og máfa; svartbak, hettumáf, silfurmáf, sílamáf og ritu. Þá er mikið af æðarfugli, skúfönd og duggönd, svo og langvíu. Hafa þá eingöngu níu tegundir verið taldar.

Við Bessastaði sáum við stóra hópa af margæsum á beit, nýkomnar frá Kanada. Ekki þótti ráðlegt að styggja þær svo við skoðuðum gæsirnar í sjónauka úr rútunni og ýmsir flettu upp í fuglabókum til að afla sér nánari upplýsinga. Margæsir eru sótsvartar um höfuð, háls og bringu en hvítar á afturenda. Þær halda sig eingöngu við sjó eins og nafnið bendir til og fara aldrei lengra en um hundrað metra upp á land. Við Bessastaði var hópur fólks að undirbúa keppni á kajökum. En það er önnur saga.

Landsvala í kjól og hvítu

Ekið var gegnum Hafnarfjörð á leiðinni í Garðinn. Þar bar helst til tíðinda að einn glöggskyggn fuglaskoðandi taldi sig hafa séð lóm Í höfninni og var snúið við og hans leitað. Eftir alllanga bið kom lómurinn upp úr djúpinu og synti rólega ekki langt frá landi. Lómur er skyldur himbrima en minni. Hann er grábrúnn að lit, settur svörtum rákum um aftanverðan háls. Lómur hafði aðeins sést fjórum sinnum á þessum þrjátíu árum svo það var mikil ánægja fyrir flesta að geta merkt við hann á blaðinu.

"Garður er kjörinn til fuglaskoðunar vor og haust. Hann er á útkjálkanesi þar sem fuglar safnast gjarnan saman, þar er höfn og tjörn," sagði fararstjórinn í hljóðnemann. Við leituðum að skrofuhóp þar sem við stóðum á bryggjunni í Garði en sáum ekki. Við komum hins vegar auga á helsingja, sem var á leiðinni til varpstöðvanna á Grænlandi. Hann hafði aðeins sést fimm sinnum áður í þessum ferðum. Við borðuðum nesti við Garðskagavita en þá var komið langt fram yfir hádegi. Þar sem við sátum í fjörunni var athygli okkar vakin á einni landsvölu. Í sterkum sjónauka sást vel hvar hún sat í kjól og hvítu á gulu reipi.

Á vorin má sjá sanderlur hundruðum saman í Sandgerði eltandi útfallið en í mori þess eru krabbadýr sem eru aðalfæði þeirra. Þær eru grænlenskur varpfugl. Í þetta sinn voru þær ekki ógnarmargar í fjörunni en þær hlupu svo hratt að undrum sætti.

Á Hafnabergi

Vörðuð leið liggur að Hafnabergi og er um hálftíma gangur frá vegi. Hafnaberg er þverhnípt og allvogskorið, um þrjátíu metrar á hæð og á annan kílómetra að lengd. Af bjarginu mátti sjá langvíur svartar að ofan þar sem þær sátu á sjónum og létu öldurnar bera sig uppi. Þær verpa í bjarginu síðari hluta maí eða fyrri hluta júní. Sá tími var ekki enn kominn. En ritur sátu í berginu og horfðu mót opnu hafi. Athyglin beindist þó ekki að því augljósa heldur að þeim fuglategundum sem áður höfðu sést þarna.

"Við höfum aldrei farið héðan án þess að hafa séð stuttnefju," sagði annar fararstjórinn einbeittur. Nokkrum sterkum sjónaukum var beint til sjávar og að bjarginu. Þarna sást lundi á sjó, annar í bjargi. Og áður en við snerum við hafði sést til stuttnefju. Á leiðinni að bílnum sagði einn ferðafélagi mér að hann hefði verið þarna sem drengur og horft á föður sinn síga í bjargið til eggjatöku.

Að lokum lá leiðin til Grindavíkur og stansað við vík eina skammt frá golfvellinum. Ekki bættust þar við nýjar fuglategundir og var haldið heim á leið. Sést hafði til fimmtíu og fimm fuglategunda í ferðinni. Það er fyrir ofan meðallag svo við máttum vel við una. Við hölluðum okkur aftur í sætunum. Kvöldsólin skein þegar við renndum í bæinn. Kjörstaðir voru enn opnir.

Höfundur er ritari Ferðafélags Íslands.

Ljósm./KMB Fuglaskoðun á Hafnabergi.