RANNSÓKNASTOFA í kvennafræðum við Háskóla Íslands, jafnréttisnefnd háskólaráðs og stjórn náms í kynjafræðum mótmæla þeirri ákvörðun Björns Bjarnasonar menntamálaráðherra að skipa tvo karlmenn sem aðalmenn í nýtt háskólaráð og tvo karlmenn sem varamenn. Hafa þessir þrír aðilar sent ráðherra bréf þar sem segir m.a.

Skipun karlmanna í háskólaráð mótmælt

RANNSÓKNASTOFA í kvennafræðum við Háskóla Íslands, jafnréttisnefnd háskólaráðs og stjórn náms í kynjafræðum mótmæla þeirri ákvörðun Björns Bjarnasonar menntamálaráðherra að skipa tvo karlmenn sem aðalmenn í nýtt háskólaráð og tvo karlmenn sem varamenn. Hafa þessir þrír aðilar sent ráðherra bréf þar sem segir m.a. að skipun karlmanna sam aðalmanna og varamanna í háskólaráð sé þvert á jafnréttisstefnu stjórnvalda og háskólans.

Björn Bjarnason skipaði fyrr í mánuðinum þá Hörð Sigurgestsson, forstjóra Eimskipafélags Íslands og dr. Ármann Höskuldsson forstöðumann Náttúrustofu Suðurlands sem aðalmenn í háskólaráði og þá Gunnar Jóhann Birgisson hrl. og dr. Eyjólf Árna Rafnsson sem varamenn.

Í fyrrnefndu bréfi til ráðherra segir m.a. að af fjórum fulltrúum fastráðinna kennara í nýju háskólaráði sé ein kona, fulltrúi samtaka háskólakennara sé kona sem og fulltrúar stúdenta. "Um þessa fulltrúa er kosið," segir í bréfinu. "Eini aðilinn sem skipar án kosninga í háskólaráð er menntamálaráðherra. Hann hefur valið að fara á skjön við greinilegan vilja þeirra er starfa innan háskólans um að yfirstjórn háskólans skuli vera jafnt í höndum kvenna og karla. Þessi vinnubrögð ráðherra valda miklum vonbrigðum og við hljótum að mótmæla því að menntamálaráðherra skuli endurtekið gera sig sekan um vinnubrögð af þessu tagi."