Marseille er elsta borg Frakklands en tilurð hennar má rekja aftur til um 600 fyrir Krist. Allan hennar aldur hefur staðsetning borgarnnar skipt mestu fyrir sögu hennar. þetta er hafnarborg sem teygir sig 70 km eftir suðurströndinni, í vestur frá frönsku Rívíerunni.

MARSEILLE

EFTIR ÞRÖST GEIR ÁRNASON

ELSTA BORG FRAKKLANDS

2600 ÁRA GÖMULMarseille hefur einatt þurft að þjóna hlutverki móttökuandyris Frakklands í suðri. Þannig að borgin hefur þurft að taka við gríðarlegum holskeflum af flóttafólki af erlendum uppruna og finna því samastað innan sinna landamerkja. Þetta hefur valdið glundroða og oft menningarlegum árekstrum.

Marseille er elsta borg Frakklands en tilurð hennar má rekja aftur til um 600 fyrir Krist. Allan hennar aldur hefur staðsetning borgarnnar skipt mestu fyrir sögu hennar. þetta er hafnarborg sem teygir sig 70 km eftir suðurströndinni, í vestur frá frönsku Rívíerunni. Marseille er þriðja stærsta borg landsins (á eftir París og Lyon) og telur rétt rúmlega milljón íbúa. Hún er hluti hins sögufræga Provence-héraðs, í Suð-Austur Frakklandi, sem hefur löngum laðað að sér merka listamenn og verið uppspretta margra frægustu meistaraverka listasögunnar. Margir telja birtuna, og ýmis dulmögn henni tengd, vera orsök hins mikla aðdráttarafls sem Provence hafði á impressjónistanna og Van Gogh en sem dæmi um fleiri kunna bæi í Provence, og komið hafa við sögu listarinnar, má nefna Arles, Avignon og Aix-en-Provence.

Söguágrip

Forn-Grikkir fóru ekki varhluta af því hversu ákjósanlegt var að stunda sjósókn og verslun frá stað eins og Marseille og eru til margar goðsagnir af landnámi þeirra. Sú þekktasta byggir á hugmyndinni um elskendurna sem eru af ólíkum uppruna en með þeim takast ástir sem frekar eru af guðlegum uppruna heldur en mannlegum. Gyptis, dóttir Nann konungs, var í þann mund að velja sér brúðguma þegar Protis sjóliðsforingja bar þar að garði, fremstan í flokki grískra sæfara. Í þann tíma tíðkaðist að brúðurin valdi sér mann með því að afhenda honum bikarfylli af vatni til merkis um hug hennar til hans. Fyrir tilstilli guðanna afhendi hún Protisi bikarinn og þau gengu í hjónaband; upp frá því var talað um borgina Massalíu, sem síðar varð Marseille. Allar götur síðan hefur Marseille velkomnað sæfarendur og förumenn allra þjóðarbrota og er það auðsjáanlegt á fjölbreytilegu mannlífi borgarinnar nú, 2600 árum síðar. Borgin hefur sem sagt ávallt verið kjörinn vettvangur verslunar og sjávarútvegs en hvort tveggja hefur verið stundað þar nánast frá upphafi. Hún taldi snemma 20.000 íbúa og var á skömmum tíma mikilvægasta hafnar- og verslunarborg við Miðjarðarhaf.

Marseille-búum hefur löngum verið annt um sjálfstæði sitt og ávallt verið utanaðkomandi yfirboðurum óþægur ljár í þúfu. Frá því um 400 fyrir Kristsburð nutu Marseille- búar stuðnings Rómverja í hverjum þeim ófriði sem þeir áttu til að standa í við grannríki sín, t.d. Gallíu og Karþagó. Það bandalag tók hins vegar enda árið 49 f.Kr. er Sesar sagði Marseille-búum stríð á hendur og náði borginni á sitt vald eftir sjö mánaða umsátur. Næsta árþúsundið lýtur borgin stjórn Gota og síðar Franka, undir lok 7. aldar hafði hún sameinast Provence sem öðlaðist svo sjálfstæði árið 890 þegar leiðir skildu með Provence og Frankaríki. Höfuðborg Provence var þá Aix-en-Provence. Árið 1383 brýst út borgarastyrjöld í Provence, leiðir skiljast á ný með Marseille og Provence. Það er oft talað um lok 14. aldar og upphaf þeirrar fimmtándu sem tímabil sundrungar og glundroða á þessu landsvæði. Um miðbik 15. aldar tóku málin þó að skýrast og þakka menn oft stjórnarkænsku René nokkurs af Anjou (Roi René) og tilkomu verslunardóms á valdatíð hans að sættir nást í desember árið 1481. Mánuði síðar er Provence orðið hluti af Frakklandi.

Gamalt og nýtt

Tilkomumesta kennileiti Marseille-borgar er basilíka ein er byggð var á síðari hluta 19. aldar og nefnist Notre-Dame-de-la- Garde eða Frúarkirkjan á Varðbergi, ef við leyfum okkur að snara nafninu yfir á íslensku. Hún er staðsett rétt austan megin við elsta hluta borgarinnar, gömlu höfnina og miðbæinn, uppi á mikilli hæð sem nefnist La Garde eða Varðbergið. Þótt kirkjan hafi ekki verið byggð fyrr en á 19. öld hefur verið þarna bænastaður allt frá miðöldum. Kirkjan er hin glæsilegasta og var byggt til heiðurs sjómönnum, sem auðveldlega má sjá innan veggja hennar þar sem áletruð eru nöfn þeirra sjómanna sem farist hafa allt frá byggingu hennar og á annað borð gerðu út frá Marseille. Uppi á kirkjuturninum trónir tíu metra há gullstytta af Maríu mey haldandi á Jesúbarninu sem baðar út höndum til blessunar höfninni, borginni og öllum þeim sem til hennar koma. Útsýnið af hæðinni er stórkostlegt og vilji menn virða fyrir sér alla borgina í einu vetfangi er þetta ákjósanlegur staður, að ekki sé minnst á útsýnið á haf út. Borgin dregur einkennislit sinn af hafinu sem hjúfrar sig að henni líkt og þegar sæfarinn fann brúði sína forðum.

Úti á flóanum liggja fjórar eyjar og gerði Alexander Dumas eina þeirra, Isle d'If eða }viðareyju, fræga er hann lét Greifann af Monte Kristó dvelja þar í fangelsi í samnefndri skáldsögu. Fangelsið sjálft, Chateau d'If, er glæsilegt virki sem François fyrsti lét reisa árið 1524. Ef horft er í norðurátt af Varðbergi sér maður út yfir ystu mörk borgarinnar þar sem vígalegir fjallgarðar girða hana inni í rammgerðri klettajötu.

þrátt fyrir að borgin sé 2600 ára gömul hafa ekki fundist þar fornleifar eldri en frá 12. öld og er þar einungis um að ræða rústir sem byggt hefur verið ofan á. En hún er vissulega reist á fornum grunni og bæjarskipulagið í gamla miðbæjarkjarnanum og við gömlu höfnina, sem kalla má hjarta borgarinnar, er að mestu leyti það sama og það var í fyrndinni. Eitt af elstu minnismerkjunum er Saint-Viktor-klaustrið rétt við gömlu höfnina. Það er talið upphaflega hafa verið reist á 5. öld en elstu hlutar þess nú eru frá 14. öld. Svona má áfram telja, elsta kirkja borgarinnar, kirkja heilags Lárentíusar, er frá 12. öld og elsta íbúðarhúsið er frá þeirri sextándu. Loks ber að geta áhugaverðrar kirkju sem kennd er við kærleika og manngæsku, Vieille-Charité. Kirkjan var byggt um aldamótin 1700 og var sérstaklega ætluð vegleysingjum og undirmálsfólki er leitaði athvarfs í byggingum sem reistar voru umkringis sjálfa kirkjuna og mynda einskonar ferstrending. Byggingin er á þremur hæðum og að innanverðu eru svalir allan hringinn sem vísa inn í stórt og bjart portið á milli kirkjunnar og athvarfsins. Sagan segir að ekki hafi smælingjunun verið veittur aðgangur að kirjunni sjálfri og liggur því beinast við að ætla að þeir hafi hlýtt á messur úti á svölum eða niður í porti. Þeir sem voru af æðri stigum áttu að minnsta kosti ekki að þurfa að umgangast þá þótt þeir sæktu sömu messur og þeir.

Margir sýta það að ekki skuli vera til forn minnismerki í samhengi við langa sögu borgarinnar en aðrir segja þetta vera frekar í samhengi við þann þokka sem hún gefur af sér í dag; þ.e.a.s. hún er ekki öll þar sem hún er séð.

Mannlíf

þegar komið er til Marseille í fyrsta sinn virðist sem að þarna sé ekki eftir miklu að slæðast og raunar er hún óaðlaðandi við fyrstu sýn. Það er mörgum ofarlega í huga að um árabil hefur hún verið talin eina mesta glæpaborg Frakklands og að þar séu framin fleiri morð en í París.

Marseille hefur einatt þurft að þjóna hlutverki móttökuandyris Frakklands í suðri. Þannig að borgin hefur þurft að taka við gríðarlegum holskeflum af flóttafólki af erlendum uppruna og finna því samastað innan sinna landamerkja. Þetta hefur valdið glundroða og oft menningarlegum árekstrum. Frá árinu 1870 fram að síðari heimstyrjöld tvöfaldaðist íbúatala borgarinnar. Mest var umrótið þó á árunum 1880 til 1920. Í fyrstu var aðallega um að ræða flóttamenn frá Ítalíu og Spáni en um 1920 bættust við flóttamenn frá Armeníu og Alsír. Það eru þeir síðasttöldu sem setja hvað mestan svip á mannlífið. Þótt í pólitískum skilningi séu innflytjendur frá Alsír hvað næst því að teljast franskir þegnar, frekar en Spánverjar eða Ítalir, þá er vitanlega gífurlegur menningarlegur munur og þrátt fyrir allar pólitískar skilgreiningar gengur innflytjendum frá Norður-Afríku hvað verst að samlagast framandlegri menningu og lifa því í samfélögum sem eru lítið öðruvísi en í þeirra gamla heimalandi. Það eru því orð að sönnu þegar sagt er að til að þess að ferðast úr einum heimi í annan, í Marseille, þarf oft ekki meira til en að fara yfir eina götu. Þótt innflytjendurnir frá Norður-Afríku auki mjög á fjölbreytni mannlífsins er ýmislegt sem sameinar þá öðrum innflytjendum. Þeir eru í flestum tilvikum komnir úr sveitum og þekkja vel til jarðyrkju. Fæstir hafa til að bera einhverja sérþekkingu og hafa því ekki annað fram að bjóða en hendur tvær. Flestir gerast hafnarverkamenn en aðrir starfa við olíu- og sápuvinnslu, eða aðra verksmiðjuvinnu, sem og matvælaframleiðslu. Í þeim hverfum sem sumir kalla ,Arabahverfin" getur svo að líta fjölmargar verslanir sem bera mörg sérkenni þeirra verslana sem finna má í Arabalöndunum. Í slíkum verslunum er sjaldan tekið tillit til plássleysis heldur er vörum hlaðið upp um alla veggi í mörgum lögum þannig að vart gefst kostur fyrir viðskiptavininn að ganga þar um til að virða varninginn fyrir sér. Þess gerist þó vart þörf því flestar eru verslanir þessar opnar út á götu og sérhæfa sig oftast í einhverri ákveðinni vörutegund þannig að það sést yfirleitt langar leiðir hvort um er að ræða sérverslun fyrir handtöskur eða rafmagnstæki. Ef fólk svo kærir sig ekki um að kaupa rafmagnstæki sem sjaldnast standast nútímalegar kröfur flestra Evrópubúa þarf ekki að ganga nema í nokkrar mínútur til að finna verslunargötu í anda annarra hátískuborga álfunnar.

Í þeim borgum Frakklands þar sem myndast hafa samfélög innflytjenda frá Norður- Afríku, hvort sem um er að ræða París, Marseille eða aðrar borgir, er það þekkt fyrirbrigði að innan þessara samfélaga hafa myndast allsérstakar mállýskur. Þetta er auðvitað segin saga hvar sem er í heiminum þegar innflytjendur leitast við að bindast böndum innbyrðis og styrkja eigin sjálfsímynd í nýju samfélagi sem er gjörólíkt hinu gamla. Fátt bindur þjóðir betur saman en tungan og þegar þjóðarbrot sem á sér sameiginlega tungu þarf að tileinka sér tungumál nýja heimalandsins verður oft til eins konar bastarður, nýtt tungumál. Hér er ekki átt við blöndu móðurmáls og opinbers tungumáls í nýju landi heldur eins konar afbökun á nýja málinu sem innflytjendur hafa þurft að læra. Til að styrkja samkennd sín á milli talar hinn nýji þjóðfélagshópur sérstakt afbrigði af frönsku í leit að sérstöðu. Hið nýja slangur breiðist auðveldlega út meðal ungs fólks um allt Frakkland því að vinsælustu dægurtónlistarmenn landsins eru oftar en ekki rapptónlistarmenn sem nota slangið óspart. Þetta minnir óneitanlga á þróunina í Bandaríkjunum en þar er slangið þó ekki eins furðulegrar náttúru og það er í Frakklandi. Í Bandaríkjunum er þetta aðeins spurning um sérstaka orðanotkun, framburð og setningamyndun en þegar litið er á franskt slangur má sjá að þar er ráðist að orðunum sjálfum. Einfaldasta dæmið um þetta er að menn taka orð og afbaka þau; í Marseille tala menn um ,meuf" ekki ,femme", sem þýðir kona, þegar þeir tala um að ,færa sig" þá er ekki sagt ,on bouge", eins og stundum tíðkast, heldur ,on gebou" og svo má áfram telja. Borgarskipulagið í Marseille er nokkuð sérstakt og tekur það að miklu leyti mið af þeirri stjórnlausu íbúafjölgun sem minnst var á hér að ofan. Þegar komið er út í úthverfin, í suð- vestur hluta borgarinnar, er eins og þar hafi ekkert verið skipulagt, gömlum og nýjum húsum er hrært saman í einhvers konar görótta gatnaflækju sem engin leið er að rata um. Tröllauknar tuttugustu aldar félagsíbúðablokkir gnæfa yfir minni íbúðarhúsum frá fyrri tímum, hálfniðurníddum, og ógerningur er að sjá nokkurt samhengi út úr hryggðarmyndinni. Þeir íbúar borgarinnar sem hafa verið svo ólánssamir að hreppa íbúðarholu á neðstu hæðum sumra blokkanna þurfa að sætta sig við að líta aldrei dagsins ljós, að minnsta kosti á meðan dvalið er í íbúðinni, vegna þess að brú fyrir veg eða járnbrautarteina hefur verið byggt yfir höfðum þeirra í vart meir en armslengd frá íbúðarhúsinu. Þó er forvitnilegt að virða þetta fyrir sér þegar maður keyrir hraðbrautina sem liggur inn í borgina úr norð-vestri en rétt við veginn hefur verið komið fyrir stóru skilti sem fer ekki fram hjá forvitnum aðkomumönnum, þar stendur ritað stórum stöfum: "Kristur dó fyrir syndir vorar".

Þegar svo komið er inn í miðbæinn að aðalgötunni, sem menn notast jafnan við til að greina fátækrahverfin frá þeim ríkari og nefnist Canebiere, blasa svo við fagurskreytt 18. aldar stórhýsi sem eru Óperan, Ráðhúsið og aðrar opinberar byggingar. Allt myndar þar fagran samhljóm, höfnin, gömlu klaustrin sitthvorum megin við hana, kastalinn úti á Viðareyju og uppi á Varðbergi tróna hin heilögu mæðgin, gullslegin, öllum til blessunar. Sunnan Canebiere-götu er svo að finna hin ,fínni" hverfi borgarinnar. þar er að finna öllu meira samhengi og er það þá helst á þá leið að þar sést áletrað á íbúðarhúsin nafn þess arkítekts sem hannaði það og þannig er fólki gert kleift að átta sig á samfélagsstöðu ábúenda.

Marseille er okkar stolt

Eitt er það sem sameinar Marseillebúa fremur en annað, hvort sem þeir eru ríkir eða fátækir, innfæddir eða aðfluttir og það er knattpyrnufélag staðarins, Olympique de Marseille, stolt borgarbúa. Í hundrað ára sögu félagsins hefur það löngum verið í fremstu röð og alið af sér marga helstu snillinga franskrar knattspyrnu. Einn sá frægasti í heiminum í dag, Zinedine Zedane, er borinn og barnfæddur Marseillebúi þótt ekki leiki hann með sínu gamla félagi í dag.

Málum er svo háttað í Marseille, sem og í öllum miklum knattspyrnuborgum heims, að þar má nánast telja knattspyrnunna til trúarbragða. Dæmi eru um að menn hafa látið húðflúra merki félagsins á bak sér, svo þekur hvern blett, og fara á völlinn berir að ofan sama hvernig vindar blása, til að sanna trú sína. Þegar heimsmeistaramótið í knattspyrnu fór fram í Frakklandi á síðastliðnu ári mátti sjá áletrað út um allan bæ slagorðið: ,Fiers d'etre Marseillais", eða ,Marseille er okkar stolt". þarna er að sjálfsögðu átt við hvort tveggja í senn, knattspyrnufélagið og heimaborgina, og enn getur að líta þetta slagorð út um allt og fer vel á því þar sem bæði eiga þau afmæli í ár, knattspyrnufélagið verður 100 ára en borgin 2600 ára.

Heimild: Contrucci, Jean & Duch?ne, Roger. 1998. Marseille. Fayard.

Höfundurinn er námsmaður í Frakklandi.MIÐBORG Marseilles og kirkjan Notre- Dame dela Garde.

BÁTAHÖFNIN í Marseilles er ein sú stærsta við Miðjarðarhafið.

MANNLÍFIÐ blómstrar á útiveitingastöðum og þjóðernin eru mörg því borgin hefur orðið að taka við holskeflum af innflytjendum.

SKUGGALEGT um að litast í Arabahverfinu. Marseilles hefur haft slæmt orð á sér fyrir glæpi og eiturlyf.