Andrés Björnsson, Bjarni Freyr Ágústsson, Birkir Freyr Matthíasson, Ásgeir Steingrímsson og Eiríkur Orri Ólafsson, trompetar; Oddur Björnsson, Sigurður Þorbergsson, Björn R. Einarsson og David Bobroff, básúnur; Sigurður Flosason, Stefán S.

Ellington

í Iðnó TÓNLIST

Iðnó

STÓRSVEIT

REYKJAVÍKUR

Andrés Björnsson, Bjarni Freyr Ágústsson, Birkir Freyr Matthíasson, Ásgeir Steingrímsson og Eiríkur Orri Ólafsson, trompetar; Oddur Björnsson, Sigurður Þorbergsson, Björn R. Einarsson og David Bobroff, básúnur; Sigurður Flosason, Stefán S. Stefánsson, Ólafur Jónsson, Jóel Pálsson og Davíð Þór Jónsson, saxófónar; Ástvaldur Traustason, píanó, Eðvarð Lárusson, gítar, Gunnar Hrafnsson, bassi, og Jóhann Hjörleifsson, trommur. Stjórnandi Greg Hopkins, sem jafnframt lék á trompet og flygilhorn. Verk eftir Greg Hopkins, Duke Ellington og fleiri í útsetningum Hopkins. Miðvikudagskvöld 19. maí. ÞAÐ er ekki hægt að segja annað en að Stórsveit Reykjavíkur hafi staðið í ströngu þennan vetur. Þrír erlendir gestastjórnendur: Frank Foster, Ole Kock Hansen og Greg Hopkins, auk þess sem Sæbjörn Jónsson stjórnaði tvennum tónleikum og Stefán S. Stefánsson einum. Sérhver stjórnandi setur sinn svip á hljómsveitina og ekki voru tónleikarnir sem Greg Hopkins stjórnaði sístir tónleika vetrarins. Þeir voru satt að segja þrusugóðir þó að ýmsir af fastaspilurum sveitarinnar hafi verið forfallaðir þetta kvöld.

Greg Hopkins er fínn trompetleikari, ágætur útsetjari og fantastjórnandi. Hann hefur líka heldur betur gengið í gegnum harðan stórsveitarskóla - bæði leikið með Woody Herman og Buddy Rich og fyrir Buddy útsetti hann mikið. Fyrstu kynni mín af Greg var skífa Buddys: The Roar of 74 þarsem Greg útsetti eigin lög og In a Sentimental Mood Ellingtons. Greg hóf tónleikana á fullum dampi með minningarópus sínum um Clifford Brown: This one for Brown. Sveiflubopp þarsem Greg blés ágætan trompetsóló í anda Browns og Flosason skreytti sóló sinn með Bostic. Verkið samdi Greg fyrir 25 árum og hljómsveitin var í Buddy Rich stuðinu. Það breyttist snarlega í næsta verki: Okowanko eftir Greg. Það upphófst mjög ellingtonískt - hljómaði einsog kafli í einhverri afrósvítu hans. Bassaklarinett Sigurðar Flosasonar setti carneyskan blæ á sveitina og Greg blés í flýgilhorn. Þá fór nú Ellington að hverfa og var allur um það leyti sem Eðvarð Lárusson lauk ágætum gítarsóló sínum. Næst var útsetning Hopkins á Body and Soul eftir Johnny Green og var Jóel Pálsson þar í aðalhlutverki, enda útsetningin tileinkuð John Coltrane, sem kom laginu af Hawkins-kortinu með hljóðritun sinni 1960. Jóel blés sóló sinn firnavel og var trúr Coltrane framanaf en undir lokin vísaði hann veginn aftur með léttum trillum og mjúkum titring. Þá kom ballaða eftir Randy Brecker: Susino þarsem Ólafur Jónsson blés fallegan mjúkboppaðan sóló. Síðan gerðist ekkert merkilegt fyrir utan hlé nema hvað gaman var að heyra Björn R. blása sóló í heldur litlausri útsetningu á heldur djasslausum Berlin-söngvadansi. Eftir hlé var tónlistin helguð Ellington. Bandið lék kafla úr Shakespeare-svítu Ellingtons og Strayhorns: Such Sweet Thunder frá 1957 og Far East svítunni er skrifuð var áratug síðar. Svo var Ellington-kaflanum lokið með Cottontail, glansnúmerinu sem Ellington skrifaði fyrir Ben Webster 1940. Stórsveitin hljómaði ótrúlega vel í þáttunum úr Far East svítunni, það brá meirað segja fyrir ellingtonískum tónalitum. Blúsinn var þéttur og Oddur Björnsson í hlutverki Lawrence Brown í Amad-dansinum, og síðan kom hápunktur tónleikanna, stórkostleg túlkun Sigurðar Flosasonar á sóló Johnny Hodges í Isfahan. Það var ekki síðri túlkun en þegar Jesper Thilo túlkaði sóló Hodges í Day Dream með Stórsveit danska útvarpsins undir stjórn Thad Jones. Cotton Tail var dálítið útúr kortinu eftir það - þó ekki vantaði stuðið og Greg og Eðvarð Lárusson ættu góða sólóa áðuren kom að söxunum, sem blésu allir og gaman að heyra hversu vel ungliðinn Davíð Þór stóð sig í hópi kappanna þaulreyndu. Skemmtilegastur var þó saxkaflinn sem Duke skrifaði eftir Webster og strákarnir blésu saman með glans. Auðvitað varð sveitin að leika aukalag og var það kynningarlag Tommy Dorseys: I'm Gettin' Sentimental Over You og flýgilhorn Hopkins í stað flauelsmjúkrar básúnu Tommys. Góð lok á fínum tónleikum sem sýndu enn og sönnuðu að Stórsveit Reykjavíkur vex við hvert verkefni er hún glímir við og hrynsveitin er í framför. Vernharður Linnet