Midway gaf nýlega út nýjasta hönnunarverk Crystal Dynamics, Gex64 - Enter The Gecko, sem er ætlað að keppa við vinsælustu ævintýraleiki Nintendo 64, Banjo Kazooie og Mario 64. ÞEGAR Gex kom út fyrir PlayStation voru menn sammála um að Crystal Dynamics hefði tekist afar vel að búa til leik sem nýtti PlayStation-tölvuna afar vel og skemmtilega.
Allt má sleikja LEIKIR Gex64 - Enter The Gecko Midway gaf nýlega út nýjasta hönnunarverk Crystal Dynamics, Gex64 - Enter The Gecko, sem er ætlað að keppa við vinsælustu ævintýraleiki Nintendo 64, Banjo Kazooie og Mario 64. ÞEGAR Gex kom út fyrir PlayStation voru menn sammála um að Crystal Dynamics hefði tekist afar vel að búa til leik sem nýtti PlayStation-tölvuna afar vel og skemmtilega. Þegar Nintendo 64 útgáfan kom svo út bjuggust menn við mikið bættum leik og mun flottari grafík ásamt fleiri borðum. Í stað þess hefur leikurinn valdið vonbrigðum um allan heim og PlayStation útgáfan almennt álitin mun betri. Leikurinn státar af rödd skemmtikraftsinns Dana Gould sem Gex, eðlunni sem er söguhetja leiksins. Þó Dana Gould sé án vafa frábær skemmtikraftur í þáttum og á sviði er hann hreint út sagt ömurlegur í þessum leik. Brandararnir sem einkenna leikinn eru ekki nema um 30 talsins og getur spilari átt von á að heyra sama brandarann um tíu til fimmtán sinnum í sama borðinu. Greinarhöfundi fannst brandarinn Hei, hefur einhver séð systur hans Fox Mulder? ekki mjög fyndinn, hvorki í fyrsta né fimmtugasta skiptið. Í PlayStation útgáfunni þurfti að setja talsvert af umhverfinu í þoku svo leikurinn myndi ekki hægja mikið á sér. Þessi þoka var þó yfirleitt frekar langt í burtu frá eðlunni og olli spilendum ekki miklum óþægindum. Í Nintendo 64 útgáfunni er mun meira af þoku og í þokkabót hægir leikurinn á sér í næstum hvert einasta skipti sem eðlan gengur inn í nýtt herbergi eða beygir fyrir horn. Stjórntæki leiksins eru afar óþægileg í notkun og samræmast sjónarhornum leiksins afar illa þó hægt sé að stilla þau. Til að ganga yfir mjóa brú til dæmis þarf mikla æfingu og ólíklegt er að spilari nái því í fyrstu tilraun. Borðin í Gex eru tuttugu og fjögur og byggð upp á svipaðan hátt og í Banjo Kazooie. Spilari þarf að klára ákveðin verkefni og þarf oft að fara oftar en tvisvar eða þrisvar til að komast í nýtt borð. Borðin eru næstum öll byggð á frægum leikjum, teiknimyndum og bíómyndum, sem dæmi má nefni Kalla kanínu (veiðimaðurinn er þar líka) og Titanic. Gex er afar skemmtilegur karakter í sjálfu sér og er eiginlega skömm að hann skuli vera fastur í svona leiðinlegum leik. Hann getur gert 125 hreyfingar og má þar á meðal nefna stökk-karate spörk, notað tunguna til að vippa sér upp á syllur og klifrað upp veggi. Að klifra upp veggi er þó aðeins hægt í sumum borðunum eins og margar aðrar hreyfingar, sem er eiginlega synd, því það er það skemmtilegasta í öllum leiknum fyrir utan það að einnig er hægt að sleikja allt. Gex64 - Enter The Gecko er leikur sem gæti verið mun betri. Ef einhver á PlayStation og Nintendo 64, borgar sig að kaupa PlayStation útgáfuna. Þeir sem eiga bara Nintendo ættu að byrja á að leigja hann. Ingvi Matthías Árnason