SÆNSKA leikkonan Greta Garbo, er þráði fátt meira en einveru og að vera látin í friði í lifanda lífi, mun bráðlega fá ósk sína uppfyllta er aska hennar verður flutt til Stokkhólms, níu árum eftir andlát hennar í New York. Askan verður jarðsett þann 17. júní í fallegum skógivöxnum kirkjugarði í Stokkhólmi við hlið foreldra leikkonunnar og yngri systur.
Gyðjan Greta Garbo Goðsögn í

lifanda lífi

SÆNSKA leikkonan Greta Garbo, er þráði fátt meira en einveru og að vera látin í friði í lifanda lífi, mun bráðlega fá ósk sína uppfyllta er aska hennar verður flutt til Stokkhólms, níu árum eftir andlát hennar í New York. Askan verður jarðsett þann 17. júní í fallegum skógivöxnum kirkjugarði í Stokkhólmi við hlið foreldra leikkonunnar og yngri systur. Grey Reisfield, frænka Gretu og einkaerfingi, ákvað eftir áralanga óvissu að flytja jarðneskar leifar hennar til Svíþjóðar. "Við vorum vinkonur í 60 ár en ræddum aldrei hvar hún vildi verða jörðuð," sagði Grey. "Hún dáði Svíþjóð og talaði oft um að fara aftur þangað og dvelja úti í náttúrunni og það er einmitt það sem hún fær nú."

Frá fátækt til frægðar

Greta ólst upp í fátækt en sló í gegn á fyrsta og öðrum áratug aldarinnar og varð ein þekktasta leikkona heims. Hún kom öllum aðdáendum sínum í opna skjöldu er hún árið 1941, þá 36 ára að aldri, dró sig í hlé frá sviðsljósinu á hátindi frægðarinnar. Eftir það bjó hún ein í stóru húsi á Manhattan og hitti aðeins sína nánustu vini. En frægðarljómi hennar hélt áfram að skína um allan heim. Hún tók upp dulnefnið Harriet Brown og fór aldrei út úr húsi án sólgleraugna, en talið er að hún hafi þjáðst af nýrnabilun.

Greta Garbo, sem hét upphaflega Gustafsson, var 84 ára er hún lést en hún hóf feril sinn sem fyrirsæta á unglingsárum. Árið 1922 fór hún í Leiklistarskóla Svíþjóðar og lék í nokkrum uppfærslum í Leikhúsi Stokkhólms. Leikstjórinn Mauritz Stiller tók hana upp á arma sína og er hann flutti til Hollywood fylgdi hún honum í leit að frægð og frama.

"Það merkilegasta við feril hennar er að hún varð lifandi goðsögn jafnvel þótt hún væri ekki í sviðsljósinu nema rétt hálfa ævina," segir Jan-Erik Billinger formaður kvikmyndasögudeildar sænsku kvikmyndastofnunarinnar. "Útlit hennar virtist segja meira en flest orð."

GRETA Garbo átti mikilli velgengni að fagna á sínum stutta leiklistarferli.