ASÍURÍKIN, sem á undanförnum misserum hafa átt við verstu efnahagsörðugleikana að stríða, eru nú komin yfir versta hjalla kreppunnar, en þurfa þó að sjá til þess að umbætur haldi áfram til að tryggja stöðugan hagvöxt. Þetta sagði Michel Camdessus, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF), á fundi með seðlabankastjórum ríkja Suðaustur-Asíu í Seoul í fyrradag.

Betur horfir um

hag Asíuríkja

Washington, Seoul. AFP, AP.

ASÍURÍKIN, sem á undanförnum misserum hafa átt við verstu efnahagsörðugleikana að stríða, eru nú komin yfir versta hjalla kreppunnar, en þurfa þó að sjá til þess að umbætur haldi áfram til að tryggja stöðugan hagvöxt. Þetta sagði Michel Camdessus, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF), á fundi með seðlabankastjórum ríkja Suðaustur-Asíu í Seoul í fyrradag.

"Enn er mikið verk óunnið við að styrkja uppbyggingu hagkerfa þessara ríkja, áður en við getum verið vissir um að sannarlega stöðugur efnahagsbati hafi náðst," sagði Camdessus í ávarpi við upphaf fundarins.

Greinilegust séu merkin um að efnahagslífið sé komið á rétta braut í Suður-Kóreu, á Filippseyjum og smátt og smátt einnig í Tælandi og Malasíu. Lítið eitt lengra sé í land í Indónesíu ­ þar hafi tekið lengri tíma að koma fjármálunum á lygnan sjó ­ en þess megi vænta að strax síðar á þessu ári megi einnig þar sjá batamerki á efnahagslífinu.

Camdessus sagði fáa sem til þekktu efast um að í Asíuríkjunum væru eftir sem áður miklir vaxtarmöguleikar fyrir hendi. "En ég myndi ætla að það sem er í uppsiglingu sé ekki bara endurkoma þess sem áður hefur sýnt sig skila árangri, heldur ný og betri gerð hagvaxtar, sem á sér öflugar rætur í hinum einstaklega sterku hefðum og gildum asískrar menningar," sagði hann.

Greenspan hvetur til umbóta á alþjóðafjármálakerfinu

Auk Camdessus lagði annar þungavigtarmaður í alþjóðafjármálum sitt lóð á vogarskálarnar til að auka mönnum bjartsýni á að horfurnar hafi heldur batnað frá því í fyrra, þegar tal um nýja heimskreppu fór eins og eldur í sinu um heimsbyggðina. Alan Greenspan, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, hvatti til þess að ríkisstjórnir og áhrifamenn fjármálamarkaða heimsins samhæfðu aðgerðir sínar betur í því skyni að styrkja stoðir hins alþjóðlega efnahagskerfis. Hann varaði aftur á móti við því að það gæti tekið drjúgan tíma að gera þær umbætur sem nauðsynlegar væru á alþjóðlega fjármálakerfinu.

Á fundi með bankamálanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings sagði Greenspan að viðbrögð við kreppukollsteypunni sem fór af stað í Asíu í hitteðfyrra og breiddist síðan út til Rússlands og Suður-Ameríku, hefðu í of miklum mæli einkennzt af skyndilausnum. "Það er nauðsynlegt að þessar lausnir stangist ekki á við hina víðtækari sýn okkar á það hvernig við viljum að hið alþjóðlega fjármálakerfi virki á nýrri öld," sagði Greenspan.