VORIÐ er tími umhleypinga. Þótt við höldum upp á sumardaginn fyrsta, vita allir, að sumarið er enn ekki komið í alvöru. Við tölum um páskahret, hrafnahret, sumarmálahret, fardagahret, hvítasunnuhret og jónsmessuhret svo bara fáein séu nefnd.
BLÓM VIKUNNAR

Umsj. Sigríður Hjartar

nr. 406

HVÍTASUNNULILJA

(Narcissus poeticus)

VORIÐ er tími umhleypinga. Þótt við höldum upp á sumardaginn fyrsta, vita allir, að sumarið er enn ekki komið í alvöru. Við tölum um páskahret, hrafnahret, sumarmálahret, fardagahret, hvítasunnuhret og jónsmessuhret svo bara fáein séu nefnd. Nú hef ég kynnst nýju hreti, kosningahretinu, sem Blóm vikunnar varð illilega vart við og stóð því fyrir þrifum allan fyrri hluta maí, en öll hret styttir upp um síðir.

Komið er fram á Hvítasunnu og því ekki úr vegi að fjalla um blómjurt, sem er kennd við þessa hátíð. Hvítasunnuliljan er úr Narcissus- ættkvíslinni, sem hefur fengið nafnið hátíðalilja á íslensku, en algengast er þó að við köllum ættkvíslina bara páskaliljur, eftir þekktustu tegund ættkvíslarinnar. Heimkynni hátíðalilja eru löndin umhverfis Miðjarðarhafið og nafnið Narcissus er fengið úr grísku goðafræðinni. Narkissos var einn af goðunum, ungur og fagur. Hann taldi enga konu sér samboðna og hafnaði meira að segja fjallagyðjunni Echo, sem dó þess vegna af harmi. Í refsingarskyni kröfðust goðin þess að hann drykki af lind einni. Þegar hann sá spegilmynd sína í henni varð hann svo hrifinn að hann gat ekki slitið sig frá henni og dó á lindarbakkanum og breyttist í blóm. Sagan er góð en nafnið þó líklega tengdara orðinu narkad, að deyfa eða svæfa. Páskaliljur voru tengdar svefni eða dauða og sveigar þeirra hafa fundist í fornegypskum grafhvelfingum.

Hátíðaliljutegundir eru fjölmargar og þær blandast ýmislega saman úti í náttúrunni. Eins hafa ræktunarmenn leikið sér að því að víxla þeim saman á ýmsan hátt og fá þannig fram ótal afbrigði. Sameiginlegt einkenni hátíðalilja er þó að blöðin eru heilrennd og venjulega graslaga og blómin standa oftast ein á stöngulendanum, þótt undantekning finnist á því. Þau eru allstór, blómhlífarblöðin eru sex og standa oftast beint út eða geta verið mismikið aftursveigð en upp úr miðju blóminu vex hjákróna eða trekt, sem er misstór og misopin, en lögun þessarar hjákrónu er mikið notuð við flokkun hátíðalilja. Grasafræðingar tala oftast um 12 flokka, þar sem tólfti flokkurinn er hálfgerð ruslakista, rúmar það sem ekki kemst í hina 11.

Í huga flestra er guli liturinn ófrávíkjanlega tengdur páskaliljunum, en blómin geta þó verið í ýmsum tónum frá hvítu upp í rauðgult. Eins geta verið margir litir í sama blóminu, blómhlífin í öðrum lit en lúðurinn og hann jafnvel marglitur. Blómgunartími hátíðalilja er mjög misjafn, eins og íslensku nöfnin gefa til kynna, febrúarlilja, skírdagslilja, páskalilja, hvítasunnulilja, jónsmessulilja, þannig að Narcissustegundir geta verið í blóma í garðinum frá því snemma vors fram á mitt sumar og eins má hafa áhrif á blómgunartímann með vali á vaxtarstað.

Hvítasunnuliljan, Narcissus poeticus, blómstrar nokkuð seint eða venjulega um mánaðarmótin maí- júní. Hún er öll fíngerðari og grennri en páskaliljurnar. Einkenni hvítasunnulilju er að blómblöðin eru hreinhvít og hjákrónan er stutt og í öðrum lit. Hvítasunnulilja er nálægt því 40 sm á hæð. Ýmsar sortir hafa verið prófaðar á Íslandi og hafa flestar reynst vel, en sú sem félögum í Garðyrkjufélaginu hefur reynst allra best er sortin "Actaea". Hún er fannahvít á litinn með mjög stutta, bollalaga hjákrónu sem er sítrónugul á lit með rauðgulri bryddingu en botn hennar er dökkgrænn. Hvítasunnuliljan er fyllilega harðgerð hér eins og flestar tegundir hátíðalilja. Meira að segja litlu páskaliljurnar, sem eru seldar í pottum um páaskahátíðina má setja út í garðinn þegar vorar. Þegar blómin visna eru þau fjarlægð, en blöðin verða að standa áfram þangað til þau fara að sölna, þá getur myndast góður laukur, sem þroskar blóm að vori. Narcissus-laukar eru lagðir í moldu á haustin, venjulega þannig að 10-15 sm mold sé yfir þeim. Þeim fjölgar hratt, þannig að óþarfi er að setja marga lauka saman. Með tímanum dregur stundum úr blómgun. Þá er gott að grafa laukana upp og dreifa þeim betur.

S.Hj.

Hvítasunnulilja