VIÐ ERUM sagna þjóð og nútíma sögumaður notar GSM-símann til að ausa úr og í sagnabrunninn. Í myndrænum heimi draumsins er hið sagða orð frekar fáheyrt, nema sem upphrópunar- og viðvörunarorð, en á móti eru vísur áberandi í draumum manna gegnum tíðina. Þar er um að ræða stökur til ábendingar, álögukviðlinga eða ljóðrænan fróðleik um draummanninn sem birtist og vilja hans til dreymandans.
Draumvísa DRAUMSTAFIR Kristjáns Frímanns

VIÐ ERUM sagna þjóð og nútíma sögumaður notar GSM-símann til að ausa úr og í sagnabrunninn. Í myndrænum heimi draumsins er hið sagða orð frekar fáheyrt, nema sem upphrópunar- og viðvörunarorð, en á móti eru vísur áberandi í draumum manna gegnum tíðina. Þar er um að ræða stökur til ábendingar, álögukviðlinga eða ljóðrænan fróðleik um draummanninn sem birtist og vilja hans til dreymandans. Þarna skarast raunveruleikinn með draumnum, því vísan sem dreymd er kemur líkt og GSM-röddin á öldum ljósvakans frá öðrum enda tímans sem sögn um eitthvað ákveðið. Þegar ég eyddi löngum nóttum árið 1991 við samningu draumabókar og átti einn hnút óhnýttan að ljúka henni, kom í draumi til mín maður ljós yfirlitum, klæddur mórauðum fötum og flutti mér þessa vísu með handapati miklu en hvarf svo: Forlög koma ofan að örlög kring um sveima álögin úr illum stað en ólög fæðast heima. Vísan fannst mér draga saman hugmynd mína um bókina í fjórar línur og birti ég hana því í bókinni undir mínu nafni. Löngu seinna var mér bent á það af frómum manni að vísan væri nauðalík vísu eftir Pál Ólafsson. Hvort þarna var um fjarhrif draumsins að ræða og Páll hafi komið sjálfur til mín með vísuna mér til fulltingis, skal ég ekki sverja fyrir en hitt er víst að GSM- tækni draumsins fer létt með að ná sambandi milli heima, yfir geima og í annað tímatal. Draumar "lillu" Það eru draumar sem hafa valdið mér hugarangri. Sá fyrsti; ég er stödd í Mjódd ásamt vinkonu minni og eru með okkur börn okkar sem bæði eru á áttunda ári. Mér verður litið upp, í áttina að Fellunum og meðan ég horfi kemur flóðbylgja sem ber hátt við himin og stefnir niður brekkuna. Mín fyrsta hugsun er sú að forða okkur, en ekki inn í verslanirnar því þar eru svo stórir gluggar með gleri sem örugglega muni brotna og slasa okkur, heldur förum við inn í hús sem stóð þar nærri. Þetta var eldra hús klætt gulri klæðningu að utan. Við förum inn og var þar fullorðin kona sem ég þekkti ekki en hún var afar vinsamleg. Við sluppum öll ósködduð. Draumur nr. tvö. Ég er stödd í fjöru, fyrir aftan mig nær landi eru lágir klettar en fyrir utan nokkur sker sem láta þó frekar lítið yfir sér. Þá sé ég að flóðalda er á leið til lands og fer hækkandi eftir því sem nær dregur. Ég ákveð að vaða útí og fara upp með flóðbylgjunni frekar en að verða undir henni og finn hvernig hún hefur mig upp og ég horfi niður á húsin eins og smákubba á ströndinni, eins á fólk á hlaupum. Ég berst með flóðinu upp eftir ströndinni og inn á landið þar til hún fjarar út og finnst mér ég ganga þurrum fótum í land. Draumur nr. þrjú. Ég var stödd á æskuheimili mínu, sem ég síðar keypti af foreldrum mínum en hef selt og bý nú sjálf í öðrum landshluta. Ég man þann draum ekki eins skýrt og hina nema það var óveður og þakið byrjaði að leka. Lekinn óx jafnt og þétt og veðrið versnaði. Það byrjaði að fjúka af þakinu og allt skalf og nötraði. Síðan fór allt að fjúka. Það var kominn dagur og veðrið var gengið yfir. Ég var að skoða verksumerki og voru aðeins uppistandandi útveggir og þakið var horfið, ekkert var eftir nema rusl og þótti mér verst að leikföng dóttur minnar virtust vera týnd, en mundi þá eftir að við höfðum sett mikið af dótinu hennar í kassa og sett í geymslu. (Í raunveruleikanum.) Ég gekk í kringum húsið og niður í fjöru og var að finna ýmislegt sem mér þótti fengur í, bæði leikföng og fatnað en fann ekki fyrir neinum söknuði yfir að eitthvað hefði glatast og var mjög ánægð að finna fjólubláa peysu sem dóttir mín átti þegar hún var minni. Í draumunum fann ég hvorki fyrir hræðslu né annarri vanlíðan, heldur hugsaði ég mjög rökrétt sbr. að fara ekki inn í búðirnar og að fara frekar útí en að lenda undir en að lenda undir öldunni frá hafi. Ráðning Við fyrstu sýn mætti ætla að draumarnir tengdust öðrum draumum sem spá fyrir um vá náttúruhamfara í byrjun 21. aldar en þegar rýnt er í draumana og táknin kemur annað í ljós. Hér er kastljósinu beint að þér og miklu uppgjöri sem virðist í nánd. Fyrsti draumurinn gefur í skyn að upphaf þess komi á einhvern hátt ofan frá (flóðaldan kom að ofan). Þá talar draumurinn um að þú sért vel undirbúin (gamla húsið með gulu klæðningunni en litur klæðningarinnar gefur í skyn að þú sért vel í stakk búin fyrir átök) fyrir það sem koma skal og öðlist við það djúpstæða og góða (gamla konan vinsamlega) reynslu. Í draumi tvö virðist þú stödd í miðju uppgjörinu og þar sem þú ert vel undirbúin fyrir átökin ferðu yfir þau (þú ferð upp með flóðbylgjunni), frekar en gegnum og því sýnist sú aðgerð þér létt (gengur þurrum fótum í land). Þriðji draumurinn lýsir svo eftirmála uppgjörsins. Þar er gefið í skyn að þrátt fyrir létta göngu gegnum/yfir málið, hafi það reynt allverulega á andlegt þrek þitt (þakið var horfið) og þú þurfir tíma til að safna þér saman (fjólubláa peysan er tákn um trúna á sjálfan sig) áður en þú ályktar rökrétt um næstu skref.

Þeir lesendur sem vilja fá drauma sína birta og ráðna sendi þá með fullu nafni, fæðingardegi og ári ásamt heimilisfangi og dulnefni til birtingar til:

Draumstafir

Morgunblaðið

Kringlunni 1

103 Reykjavík

Einnig má senda bréfin á netfang: krifri Þ xnet.isMynd/Kristján Kristjánsson FORLÖG koma ofan að.