Sergei Prokofiev: Sinfóníurnar 1-7, ásamt Rússneskum forleik og Skýþískri svítu. Fílharmóníusveit Lundúna; Sinfóníuhljómsveit Lundúna (sinf. nr. 1, 5 & 7). Stjórnandi: Walter Weller. London 430 782-2. Upptaka: ADD, London, 1974-77. Útgáfuár þessarar útgáfu: 1996. Heildarlengd (4 diskar): 4.49:08. Verð (Skífan): 4.999 kr.
FRÍÐA OG DÝRIÐ TÓNLIST Sígildir diskar PROKOFIEV Sergei Prokofiev: Sinfóníurnar 1-7, ásamt Rússneskum forleik og Skýþískri svítu. Fílharmóníusveit Lundúna; Sinfóníuhljómsveit Lundúna (sinf. nr. 1, 5 & 7). Stjórnandi: Walter Weller. London 430 782-2. Upptaka: ADD, London, 1974-77. Útgáfuár þessarar útgáfu: 1996. Heildarlengd (4 diskar): 4.49:08. Verð (Skífan): 4.999 kr. GÁRUNGI sagði einhvern tíma um Sergei Prokofiev (1891-1953), að sjaldan hafi fossað annar eins flaumur af lagrænni hljómsveitarfegurð úr jafn ljótum haus. Hann reit einhverja eftirminnilegustu balletttónlist á 20. öld (Rómeó og Júlía, Öskubusku), og varla er til það tónfirrtur maður að hafi ekki einhvern tíma heyrt a.m.k. glefsu úr Pétri og úlfinum. Það er ekki bara fjöldi viðfangsefna Prokofievs úr þjóðsögum og ævintýrum sem setja seiðmagnaðan svip ævintýrsins á margar afurðir hans, heldur líka óvenjulitrík og frumleg orkestrun og dálæti hans á óvæntri og jafnvel skringilegri "hljómavindu" (eða "prógressjónum"), sem fylgja grunnlögmáli fabúlunnar: hér getur allt gerzt! Nægir að minna á stef Péturs í Pétri og úlfinum, sem eftir aðeins fjóra takta í C-dúr vippar sér skyndilega 120 til vinstri á fimmundarhringnum í As-dúr, en nær að rata heim rétt í tæka tíð áður en tóntegundaferðalagi þessa litla 16 takta stefs lýkur. Um frísklega orkestrun Prokofievs mætti t.d. nefna Sleðaferðina (Troika) alkunnu úr svítunni af Kije lautinanti, þar sem þjóðlagakennt stefið er málað sérlega örvandi hljómsveitarlitum, svo hlustandanum finnst hann vera staddur á fljúgandi teppi. Orkestrunargaldra Prokofievs má eflaust að hluta rekja til færra kennara eins og Ljadov, Gliere og Rimsky-Korsakov. En bæði yndi hans af álfkonufegurð og urrandi grótesku hlið við hlið - dulítið í anda Fríðu og dýrsins - og tilhneigingin til hljómrænna undanbragða, sem kemur svo skýrt fram í að öðru leyti hefðbundnum tónölum stíl hans, eru vísast sér-prokofievsk. Sonur hans á að hafa orðað það þannig, að "fyrst semur pabbi venjulega tónlist. Síðan prokofievar hann hana". Reyndar skrifaði Prokofiev, sem frá lokum fyrri heimsstyrjaldar dvaldist erlendis - lengst af í París - framan af ekki eingöngu innan hefðbundnu vébanda dúrs og molls. Í Parísarútlegðinni gat hann sleppt sér áhyggjulaus, og það gerði hann m.a. í verkum eins og 2. píanókonsertnum (1913), sem gagnrýnandi nokkur nefndi "kattarbreim í bakgarði" og í ballettnum Ala og Lolly (Skýþíska svítan) ári síðar. Líkt og Vorblót Stravinskys ári áður var ballettinn saminn fyrir Parísarhóp Djaghilevs og í sama "barbaríska" anda, enda reið einskonar frumstæðishyggja húsum í Vestur-Evrópu í kjölfar heimssýningarinnar í París um aldamótin og áhrifanna frá myndlist þriðja heimsins. Skýþíska svítan og hin hvassa "kúbíska" 2. sinfónía (1925) eru dæmi um þetta villta tímabil tónskáldsins, sem nú er kunnast fyrir nýklassísku verk sín, þ.m.t. síðustu sinfóníurnar fimm - auk auðvitað Klassísku sinfóníunnar (nr. 1., 1916), en hún virðist í bland hafa verið ætluð til að koma nettilega á óvart - miðað við ótuktarorð höfundar, er þótti þegar í tónlistarskóla óstýrilátur í rithætti. Settlegra hljóð kom í strokkinn eftir að Prokofiev sneri aftur heim 1936. Þá var sokkabandsskeiði sósíalismans lokið, tök valdhafa á listamönnum stórum hert, og tónskáldum gert að laga sig að forsendum alþýðu. Prokofiev fékk þó fyrst að kenna á ónáð menningarvarðhunda Stalíns fyrir alvöru 1948, þegar hann, ásamt Sjostakovitsj og fjöldi annarra sovézkra tónskálda, fékk á sig paríustimpil flokksins fyrir "formalisma". Of langt mál væri að fara ofan í sérkenni hljómkviða Prokofievs. Hver þeirra á sér ólíka tilurðarsögu - nr. 3 (1928) er t.a.m. unnin úr óperu, nr. 4 (1929/1946) úr ballettverki, og nr. 7 (1952) var samin fyrir æskuhljómsveit - en þrátt fyrir gríðarlega fjölbreytni eru fingraför Prokofievs alls staðar auðsæ. Walter Weller er kannski ekki meðal þekktustu túlkenda rússneska meistarans, en þó að stjórnendur eins og Abbado og Järvi geti stundum verið snarpari, svíkja skýr handtök Wellers engan, og strengjasveitarmeðferð hans er í sérklassa, sem og almenn spilamennska LSO og Lundúnafílharmóníunnar. Yfirfærðu upptökurnar frá 8. áratug eru fínar, burtséð frá örlitlu suði á hljóðlátustu stöðum við fullan magnarastyrk. Bæklingspistlahöfundarnir fimm eru óvenjuvel að sér um viðfangsefnin, og miðað við fremur hagstætt verð er í heild óhætt að mæla með þessum ágæta sinfóníupakka frá London/Decca Collector's Edition. PURCELL Henry Purcell: Dídó og Eneas. Líbrettó eftir Nahum Tate. Anne Sofie von Otter (Dídó), Stephen Varcoe (Eneas), Lynne Dawson (Belinda), Nigel Rogers (seiðkerling/farmaður); Elisbeth Priday & Carol Hall (nornir), Sarah Leonard (kona), Kym Amps (andi). Kór og hljómsveit The English Concert u. stj. Trevors Pinnocks frá sembalnum. Archiv 427 624-2. Upptaka: DDD, Henry Wood Hall, London, 7/1988. Útgáfuár: 1989. Lengd: 53:56. Verð (Skífan): 2.999 kr. ENN er margt á huldu um einu alsungnu óperu Henrys Purcells (1659-95) um döpur örlög Karþagódrottningar, sem frumflutt var í heimavistarskóla Josiah Priests "fyrir ungar hefðarkonur" í Chelsea 1689. Það þykir t.d. með ólíkindum, að verk eftir þáverandi virtasta tónskáld Breta við texta eftir síðar lárviðarskáld þeirra skyldi ekki hafa verið flutt við hirð hins nýkrýnda Vilhjálms III af Óraníu, enda þykjast sérfræðingar geta fundið ýmsar allegórískar tilhöfðanir í verkinu til Vilhjálms og Maríu drottningar. Af framansögðu leiðir einnig, að karlahlutverk hljóta upphaflega að hafa verið fleiri en kemur fram af elztu varðveittu handritsútgáfunni, enda má spyrja hvernig stúlknafansinn í Chelsea hafi getað fyllt tenór- og bassaraddir kórsins, auk hlutverks Eneasar, farmannsins og hugsanlega fleiri. Um það er ítarlega fjallað í fróðlegum disksbæklingi þessarar myndarlegu þriggja alda afmælisútgáfu frá 1989. En mestu skiptir auðvitað flutningurinn, og hann er hvað kór og hljómsveit varðar frábær. Sama má segja um flesta einsöngvarana, nema hvað Stephen Varcoe í fremur óþakklátu hlutverki Eneasar hreif mig ekki alla leið upp úr skónum, og seiðskratti Nigels Rogers er heldur litlaus. Lynne Dawson er hins vegar yndisleg Belinda, og þó að Sofie von Otter mætti kannski vera aðeins dramatískari, fer hún vel með hlutverk Dídóar, burtséð frá örlitíð óskýrum framburði. Þar fyrir utan er gott að losna við hefðbundna viðrinaskræki í þórðargleði nornanna (Elisabeth Priday, Carol Hall), og í heild er upprunatúlkun Pinnocks næm og merkilega tiktúrulítil. Hljóðritunin er, eins og vænta má af Archiv-liðinu, fyrsta flokks. Það var tími til kominn að fjalla um e.t.v. mesta meistaraverk enskrar barokkóperu, þótt stutt sé, því þó að ítalskar óperur Händels séu viðameiri, hefur Dídó og Eneas tvímælalaust vinninginn í dramatískri hnitmiðun. Fyrir utan frægan harmsöng Dídóar í lokin setur hinn ferski heildarsvipur af brimsöltu sjávarroki sem svífur yfir Miðjarðarhafi sögusviðsins (les: Ermarsund) í dönsum og kórum óafmáanlegt mark sitt á hvern sem hlustar á þennan brezka gimstein. Ríkarður Ö. Pálsson