EVRÓPUDÓMSTÓLLINN hefur kveðið upp þann dóm, að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) hafi gert rétt með því að reka brezkan hagfræðing úr starfi, sem skrifað hafði bók þar sem myntbandalag ESB var gert tortryggilegt.
Evrópudómstóllinn dæmir í máli Bernards Connollys

Brottrekstur réttmætur

Lúxemborg. Reuters.

EVRÓPUDÓMSTÓLLINN hefur kveðið upp þann dóm, að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) hafi gert rétt með því að reka brezkan hagfræðing úr starfi, sem skrifað hafði bók þar sem myntbandalag ESB var gert tortryggilegt.

Bernard Connolly olli miklum úlfaþyt árið 1995, þegar bók hans "The Rotten Heart of Europe: The Dirty War for Europe's Money" (Hið spillta hjarta Evrópu ­ Óhreina stríðið um Evrópumyntina) kom út. Á þessum tíma var hann af persónlegum ástæðum í leyfi frá starfi sínu sem yfirmaður á þeirri deild framkvæmdastjórnarinnar, sem sá um undirbúning Efnahags- og myntbandalags Evrópu (EMU). Meðal þess sem Connolly hélt fram í bókinni var að EMU myndi hrinda af stað valdastríði milli Frakklands og Þýzkalands og leiða til alvarlegs óstöðugleika í fjármálum og stjórnmálum álfunnar.

Strax eftir útkomu bókarinnar skipaði framkvæmdastjórnin Connolly í leyfi frá störfum í óákveðinn tíma en rak hann svo. Í október 1996 fór hann þess á leit við undirrétt Evrópudómstólsins að brottreksturinn yrði ógiltur. Á miðvikudag kvað síðan rétturinn upp þann dóm að framkvæmdastjórnin hefði mátt reka hann þar sem hann bar bókarbirtinguna ekki undir vinnuveitanda sinn.