JÓN Adolf Guðjónsson, bankastjóri í Búnaðarbankanum, segir að ásakanir á hendur ríkisbönkunum um að þeir eigi sök á útlánaþenslunni komi sér á óvart og telur hann að hlutafjáraukningin á síðasta ári hafi verið fullkomlega eðlileg.
Jón Adolf Guðjónsson, bankastjóri Búnaðarbankans

"Bankarnir eiga ekki sök á þenslunni"

JÓN Adolf Guðjónsson, bankastjóri í Búnaðarbankanum, segir að ásakanir á hendur ríkisbönkunum um að þeir eigi sök á útlánaþenslunni komi sér á óvart og telur hann að hlutafjáraukningin á síðasta ári hafi verið fullkomlega eðlileg.

"Ég tel að ákvörðun ríkisstjórnarinnar hafi verið skynsamleg og sé ekkert að því að farið hafi verið út í að styrkja stöðu bankanna með þessum hætti," segir Jón.

Hann bendir sérstaklega á að aukin útlán til einstaklinga fari að langmestu leyti fram hjá bönkunum.

"Þessi lán, eins og til dæmis bílalán, eru hreinlega ekki í bankakerfinu og hjá Búnaðarbankanum hefur hlutur einstaklinga, þ.e. húsnæðis- og neyslulán, verið að minnka að undanförnu. Árið 1997 námu lán til einstklinga þannig 26,8% af heildarlánum bankans en voru komin niður í 23,3% af heild um síðustu áramót.

Spurningin er þá í hvað Búnaðarbankinn hefur verið að lána. Í fyrsta lagi hafa áherslur í starfseminni breyst nokkuð með tilkomu Verðbréfasviðs Búnaðarbankans. Nú tökum við þátt í útboðum fyrirtækja sem eru á Verðbréfaþinginu og lánum stórum fyrirtækjum sem ekki endilega eru viðskiptamenn okkar að öðru leyti. Þessi verðbréfakaup eru aðalskýringin á útlánaaukningu okkar á síðasta ári.

Önnur skýring er að á síðasta ári hafa fyrirtæki hér á landi mikið verið að endurfjármagna sig og við höfum tekið þátt í því eins og aðrir en þessi endurfjármögnun kemur að mestu leyti fram hjá fyrirtækjum í sjávarútvegi. Búnaðarbankinn hefur um skeið haft þá stefnu að auka hlutdeild sína í sjávarútvegi og var hlutur sjávarútvegsfyrirtækja þannig kominn upp í 15 prósent af heildarútlánum bankans í fyrra, hafði þá hækkað úr 12,7 prósent árið áður," sagði Jón Adolf.