IGOR Ívanov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði í gær að loknum fundi með George Papandreou, utanríkisráðherra Grikklands og Carl Bildt, sérlegum erindreka Sameinuðu þjóðanna (SÞ) í friðarumleitunum í Júgóslavíu, að vikur væru í að samkomulag næðist í Kosovo- deilunni ef Atlantshafsbandalagið (NATO) léti ekki af hluta af kröfum sínum.
Fulltrúar Rússa og Vesturlanda ræða Kosovo-deiluna

Ivanov segir vikur í samkomulag

Bonn, Brussel, Moskvu, Aþena, Helsinki. Reuters, AP, AFP.

IGOR Ívanov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði í gær að loknum fundi með George Papandreou, utanríkisráðherra Grikklands og Carl Bildt, sérlegum erindreka Sameinuðu þjóðanna (SÞ) í friðarumleitunum í Júgóslavíu, að vikur væru í að samkomulag næðist í Kosovo- deilunni ef Atlantshafsbandalagið (NATO) léti ekki af hluta af kröfum sínum.

Samningaviðræður héldu áfram í gær, án þess þó að haldbærar niðurstöður hafi náðst. Talsmenn NATO vísuðu á bug þeim orðrómi að til stæði að gera hlé á loftárásunum, en Joschka Fischer, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði í gær að í ljósi þeirra mistaka sem NATO hefði gert í loftárásunum, þar sem þær hefðu ekki einungis hæft hernaðarlega mikilvæg skotmörk, væri brýnt að bandalagið endurskoðaði áætlanir sínar um loftárásir. Aðspurður um ummæli Fischers sagði Jamie Shea, talsmaður NATO, bandalaginu ekki hafa borist neinar beiðnir þar að lútandi.

Ígor Ivanov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði vikur í að samkomulag næðist í deilunni, létu Vesturlönd ekki af kröfunni um að alþjóðlegt friðargæslulið yrði starfrækt í Kosovo-héraði eftir að friður kæmist á. Einnig væru kröfur NATO um að serbneskar hersveitir færu frá héraðinu friðarsamningum til trafala.

Rússnesk og júgóslavnesk stjórnvöld sögðu brýnast að NATO hætti loftárásum sínum á Júgóslavíu, drægi herlið sitt frá nærliggjandi landamærum og hleypti Slobodan Milosevic, forseta Júgóslavíu, að samningaborðinu. Nebojsa Vujovic, talsmaður júgóslavneska utanríkisráðuneytisins sagði stjórn Milosevic vera tilbúna til friðarviðræðna og að Serbar hefðu nú þegar dregið fjölda hermanna til baka frá Kosovo.

NATO og ríkisstjórn Albaníu ítrekuðu hins vegar í gær, að Milosevic yrði að ganga að þeim skilyrðum sem bandalagið hefði sett honum til að loftárásunum yrði hætt og friður kæmist á í Júgóslavíu.

Milosevic ekki í samningahugleiðingum

Strobe Talbott, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, Martti Ahtisaari, forseti Finnlands og Viktor Tsjernomyrdín, sérlegur erindreki Rússlandsstjórnar í málefnum Júgóslavíu, ræddu saman um hugsanlega lausn á Kosovo-deilunni í Moskvu í gær. Ekki náðist samkomulag í viðræðunum en Talbott sagði þær hafa verið "nægilega uppbyggjandi" til að viðræður geti haldið áfram í Moskvu í næstu viku.

Rússneskir embættismenn gagnrýndu Bandaríkjastjórn fyrir "þrjósku" í málinu og sögðu viðræður fulltrúa Vesturlanda við Tsjernomyrdín hafa aukið svartsýni á lausn á deilunni og ljóst að friðarviðræður í Rússlandi að undanförnu hefðu ekki borið árangur.

Við komu sína til Finnlands í gær sagðist Ahtisaari ekki telja Milosevic á þeim buxunum að samþykkja friðartillögur NATO. Ahtisaari sagðist mundu hitta Kofi Annan, framkvæmdastjóra SÞ, í Stokkhólmi í dag til að ræða frekari leiðir til lausnar á Kosovo-deilunni.

Lítill árangur náðist á fundi G-8 hópsins, samtaka sjö helstu iðnríkja heims auk Rússlands, um lausn á Kosovo-deilunni í Bonn í gær. Guenter Pleuger hjá þýska utanríkisráðuneytinu sagði "jákvæð skref hafa verið stigin í samningaátt," en enn væru mikilvæg atriði sem ráðherrarnir væru ósammála um. Helst væri deilt um hvernig samhæfa ætti hvenær serbneskar hersveitir færu frá Kosovo, hvenær loftárásunum yrði hætt og alþjóðlegt friðargæslulið tæki til starfa í héraðinu til að tryggja flóttafólki örugga heimkomu.Nítján manns/24