INDÓNESÍSKIR hermenn skutu viðvörunarskotum upp í loftið og beittu táragasi til að dreifa námsmönnum, sem reyndu að ráðast inn í þinghúsið í Jakarta á mótmælagöngu í gær í tilefni þess að ár er liðið frá því Suharto forseti sagði af sér.
Falls Suhartos minnst með mótmælum

Lögregla tvístrar námsmönnum

Jakarta. Reuters.

INDÓNESÍSKIR hermenn skutu viðvörunarskotum upp í loftið og beittu táragasi til að dreifa námsmönnum, sem reyndu að ráðast inn í þinghúsið í Jakarta á mótmælagöngu í gær í tilefni þess að ár er liðið frá því Suharto forseti sagði af sér.

Þetta eru mestu átökin sem orðið hafa í indónesísku höfuðborginni í þrjá mánuði og margir óttast að mannskæðar óeirðir blossi upp í landinu fyrir þingkosningarnar sem ráðgerðar eru 7. næsta mánaðar.

Um 3.000 námsmenn voru við þinghúsið og söfnuðust þar aftur saman eftir að hermennirnir skutu viðvörunarskotunum. Að minnsta kosti þrír lögreglumenn og nokkrir námsmenn særðust í átökunum. Námsmennirnir hættu mótmælunum síðar um daginn.

Suharto sagði af sér fyrir ári vegna mótmælaaðgerða námsmanna og stuðningsmanna þeirra víða um landið í kjölfar mestu efnahagskreppu Indónesíu í marga áratugi. Hartnær 1.200 manns biðu bana í óeirðum í höfuðborginni einni.

Tugþúsundir námsmanna lögðu þinghúsið undir sig fyrir rúmu ári til að krefjast afsagnar Suhartos og mótmælunum linnti ekki fyrr en hann varð við kröfunni.

Reynwdu að ráðast inn í hús forsetans

Um hundrað námsmenn reyndu einnig í gær að ráðast inn á heimili eftirmanns Suhartos, B.J. Habibie, en tugir lögreglumanna stöðvuðu þá. Habibie var ekki í húsinu.

Efnt var til mótmæla víðar í Indónesíu og lögreglumenn beittu bareflum á um 300 námsmenn sem reyndu að ráðast inn í útvarpsstöð í borginni Bandung. Þeir sögðu að námsmennirnir hefðu reynt að útvarpa kröfum sínum um að Suharto yrði sóttur til saka fyrir spillingu.

Um 2.000 námsmenn gengu einnig að ýmsum opinberum byggingum í Surabaya, næststærstu borg landsins.