LEIKIÐ verður til úrslita í ensku bikarkeppninni í knattspyrnu í dag, elstu útsláttarkeppni heims. Wembley-leikvangurinn í Lundúnum er að venju vettvangur þessa stærsta leiks ársins í ensku knattspyrnunni og að þessu sinni mætast Manchester United og Newcastle.
Úrslitaleikur ensku bikarkeppninnar verður í dag á Wembley

Sagan á bandi

"Rauðu djöflanna"

LEIKIÐ verður til úrslita í ensku bikarkeppninni í knattspyrnu í dag, elstu útsláttarkeppni heims. Wembley-leikvangurinn í Lundúnum er að venju vettvangur þessa stærsta leiks ársins í ensku knattspyrnunni og að þessu sinni mætast Manchester United og Newcastle.

Nýkrýndir Englandsmeistarar frá Manchester ­ "Rauðu jöflarnir" eins og þeir eru kallaðir þar í bæ, keppa sem kunnugt er á þrennum vígstöðvum og fyrsti titillinn komst í höfn um síðustu helgi. Annar gæti bæst við í dag og sá þriðji í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á Camp Nou í Barcelona gegn Þýskalandsmeisturum Bayern M¨unchen á miðvikudag. Leikmenn Newcastle eru þó eflaust staðráðnir í að stela senunni á þjóðarleikvangi Englendinga og taka bikarinn ­ þar kemur til góða reynsla knattspyrnustjórans Ruuds Gullits, sem gerði Chelsea að bikarmeisturum fyrir tveimur árum.

Manchester United hefur nú ekki beðið ósigur í 31 leik og hefur leikið skínandi vel upp á síðkastið. Aukinheldur er sagan heldur á þeirra bandi ­ því svo er að sjá að Newcastle hafi gleymt því hvernig er að vinna titla!

Síðasti sigur Newcastle var í framlengingu í undanúrslitum bikarsins gegn Tottenham 11. apríl sl. Síðan hefur liðinu gengið flest í mót, annaðhvort gert jafntefli eða hreinlega tapað, og hlaut aðeins fjögur stig af 18 mögulegum í sex síðustu leikjum sínum.

Sparað sig fyrir átökin

Ruud Gullit, hinn hollenski stjóri Newcastle, segir þó að ekki megi draga of miklar ályktanir af slöku gengi sinna manna upp á síðkastið, þeir hafi einfaldlega haft hugann um of við bikarúrslitin og hreinlega verið að "spara" sig fyrir þau átök. "Á síðustu vikum hafa leikmenn mínir sparað sig í leikjum. Nú verða þeir hins vegar að sýna sitt rétta andlit gegn Man. Utd. Þeir verða að vera eins og rakettur um allan völl, því annars skil ég ekki hvað þeir hafa verið að spara sig fyrir," segir Gullit.

Alex Ferguson, stjóri Man. Utd. og nýkjörinn stjóri ársins í ensku knattspyrnunni, á ekki við slík sparnaðarvandamál að glíma. Stíf dagskrá undanfarna mánuði hefur haldið öllum við efnið og mikill fjöldi leikja hefur tekið sinn toll. Fyrir vikið verða nokkrir sterkir leikmenn fjarri góðu gamni hjá Man. Utd. í dag og raunar gildir það einnig um Newcastle-liðið.

Þar á bæ hafa menn harma að hefna í bikarnum, því Newcastle komst einnig í úrslit í fyrra og tapaði þá fyrir Arsenal í óspennandi úrslitaleik, 2:0. Nýkjörnir Englandsmeistararnir voru þá miklu betri og spurningin er hvort ekki verði hið sama upp á teningnum nú.

Hvað gerir Shearer?

Helsta von Newcastle felst í fyrirliðanum og markahróknum Alan Shearer. Hann skoraði fimm mörk á leið liðsins í úrslitin í bikarnum, þar á meðal bæði mörkin í framlengingunni gegn Tottenham, hið fyrra úr vítaspyrnu og það seinna með sannkölluðu þrumuskoti efst upp í markhornið. Hann telur að velgengni Manchestermanna í vetur hjálpi þeim lítið þegar flautað verður til leiks í dag.

"Bikarúrslitaleikurinn er allt annar handleggur og þar skiptir dagsformið öllu máli og allt getur gerst, eins og berlega hefur komið í ljós á undanförnum árum. Við erum fullir sjálfstrausts og teljum okkur geta sigrað Man. Utd. Við erum staðráðnir í að vinna ­ þyrstir í sigur handa stuðningsmönnunum sem sýnt hafa mikla þolinmæði og staðið með okkur gegnum þykkt og þunnt. Nú eiga þeir skilið að fá að fagna," segir hann.

Shearer verður án hins hávaxna Skota, Duncans Fergusons, í leiknum þar eð hann er meiddur. Því er líklegt að Gullit bregði á það ráð að láta Georgíumanninn hárafáa, Temuri Ketsbaia, leika með enska fyrirliðanum í framlínunni. Þeir félagar eiga að gera heiðarlega tilraun til að hrekkja Peter Smeichel og félaga í Man. Utd. og vinna fyrsta titil Newcastle frá árinu 1955.

Sagan með Manchester

Á því tímabili ­ 44 árum ­ hefur lið Manchester United unnið nítján titla, þar af sjö bikarmeistaratitla og tvo deildabikartitla. Það er því freistandi að áætla að tíundi bikartitilinn bætist við í dag. Það yrði þá í þriðja sinn á sex árum að liðið sigri bæði í deild og bikar. Það er auðvitað stórkostlegur árangur.

Þeir félagar í fremstu víglínu liðsins, Dwight Yorke og Andy Cole, hafa farið mikinn á leiktíðinni og skorað fjölmörg mörk í öllum regnbogans litum. Að auki hafa útherjarnir Ryan Giggs og ekki síður David Beckham vakið aðdáun fyrir vasklega framgöngu og glæsileg mörk. Raunar er valinn maður í hverju rúmi hjá Manchester-liðinu og breytir litlu þótt varnarmennirnir Dennis Irwin (leikbann) og Jaap Stam (meiðsli) geti ekki verið með.

Gullit hyggst taka nokkra áhættu og setja franska varnarmanninn Laurent Charvet beint í byrjunarliðið, en hann hefur ekkert leikið í langan tíma vegna meiðsla. Hið sama er að segja af markverðinum Steve Harper, sem er líklegur til að standa á milli marksúlnanna í stað írska landsliðsmarkvarðarins Shay Givens.

Líklegt verður að telja að Phil Neville fylli skarð Irwins í bakverðinum. Forráðamenn United hafa raunar sagt að Stam verði látinn gangast undir síðbúna læknisskoðun í morgunsárið og eftir það verði tekin ákvörðun um hvort hann muni leika. David May er líklegur til að fylgjast náið með þeirri skoðun, þar eð hann fær eflaust tækifæri í fjarveru Hollendingsins tröllvaxna.

Spennandi og skemmtilegt

Saga ensku bikarkeppninnar er uppfull af óvæntum úrslitum og oft hefur Golíat þurft að lúta í haldi fyrir Davíð litla. Ekki er líklegt að Newcastle verði spilað sundur og saman, eins og gegn Arsenal í fyrra, en ekki er heldur líklegt að þeir nái einhverjum yfirburðum í leik sínum gegn einu besta liði fyrr og síðar í enskri knattspyrnusögu.

Manchester United hefur sigrað Newcastle United í þau tvö skipti sem liðin hafa áður mæst í bikarkeppninni, fyrst 1909 og svo 1990. Í bæði skiptin komst Man. Utd. alla leið og hampaði bikarnum. Spurningin er hvort það gerist einnig í dag. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 og hefst kl. 14.

Líkleg byrjunarlið:

Manchester United: Peter Schmeichel; Philip Neville, Jaap Stam / David May, Ronny Johnsen, Gary Neville; David Beckham, Paul Scholes / Nicky Butt, Roy Keane, Ryan Giggs; Dwight Yorke, Andy Cole.

Newcastle United: Steve Harper; Andy Griffin, Laurent Charvet, Nikos Dabizas, Didier Domi; Nolberto Solano, Gary Speed, Dietmar Hamann, Robert Lee; Temuri Ketsbaia, Alan Shearer.

Dómari: Peter Jones.

Björn Ingi

Hrafnsson

tók saman

Reuters EINN öflugustui sóknardúett Evrópu, leikmenn sem hjóta þess mest að leika á varnarmenn og hrella markverði ­ markahrókarnir Andy Cole og Dwight York hafa dansað ófá sigurdansa í vetur um víðan völl.