MAX Fischer er nemandi í Rushmore skólanum og er allt í öllu í félagslífi nemenda. Það er verst að hann er líka einn versti námsmaðurinn í skólanum og á yfir höfði sér brottrekstur af því hann stenst ekki kröfurnar. Hann verður ástfanginn af kennara í yngsta bekk í skólanum og ætlar að vinna hjarta hennar með því að reisa sædýrasafn á skólalóðinni henni til heiðurs.
KVIKMYNDIR/Bíóborgin hefur tekið til sýninga gamanmyndina Rushmore með Bill Murray og Jason Schwartzman í aðalhlutverkum.

Sædýrasafn á skólalóðina

MAX Fischer er nemandi í Rushmore skólanum og er allt í öllu í félagslífi nemenda. Það er verst að hann er líka einn versti námsmaðurinn í skólanum og á yfir höfði sér brottrekstur af því hann stenst ekki kröfurnar. Hann verður ástfanginn af kennara í yngsta bekk í skólanum og ætlar að vinna hjarta hennar með því að reisa sædýrasafn á skólalóðinni henni til heiðurs. Hann gengur á fund eins helsta velunnara skólans, milljónamæringsins Blume (Bill Murray) og biður hann um stuðning. Blume og Max verða vinir en svo hleypur snurða á þráðinn. Max er rekinn úr skóla fyrir að reyna að reisa sædýrasafn á hornaboltavelli skólans og Blume verður líka ástfanginn af kennaranum, og þá skellur á stríð milli þeirra þar sem Max reynir allt sem hann getur til að sigrast á þessum fyrrverandi vini sínum.

Þetta er önnur gamanmynd leikstjórans Wes Anderson. Hann gerði áður Bottle Rocket og eins og þá skrifar hann handritið með Owen Wilson.

Owen lýsir söguhetjunni Max á þennan hátt: "Mér fellur vel við fólk sem fær eitthvað á heilann. Til dæmis hef ég ekki áhuga á skák en ég hef áhuga á Bobby Fischer af því að hann er með skák á heilanum. Það er eitthvað fyndið við svona fólk, sem hefur sjálft ekki tilfinningu fyrir því hvað það er skrítið.

Wes Anderson segir: "Max vill vera álitinn sérfræðingur í öllu mögulegu. Hann vill stjórna öllu. Og hann lætur það ekki aftra sér eða draga úr metnaðinum að hann er ekkert sérstaklega hæfileikaríkur á flestum sviðum."

Í aðalhlutverki myndarinnar er nýliðinn Jason Schwartzman sem varð fyrir valinu eftir 9 mánaða leit þar sem 1.800 umsækjendur komu til greina. Bill Murray, stórstjarna og leikari úr mörgum ógleymanlegum gamanmyndum, varð svo fyrir valinu í hlutverk Blume. Bill Murray segir um sinn mann, Blume: "Blume er maður sem á fullt af peningum en fer að kynnast einfaldara lífi eftir að hann eignast þennan skólastrák að vini." Um vinnuna við myndina segir Bill. "Þetta minnti mig á fyrstu myndirnar mínar þegar fólk gat slappað af og var ekki svona stressaað út af öllu."

Jason Schwartzman sem er óreyndur leikari segir um framtíð sína í þessum bransa: "Fyrir Rushmore var líf mitt mun einfaldara. Ég gekk í skóla og spilaði í hljómsveit. Nú er ég kominn í kvikmynd." Schwartzman er trommuleikari í hljómsveitinni Phantom Planet, sem er með hljómplötusamning hjá Geffen og lauk við fyrstu plötu sína rétt áður en tökur kvikmyndarinnar hófust. Schwartzman, sem útskrifaðist úr framhaldsskóla í fyrra, segir að tónlistin muni áfram hafa forgang hjá sér.

MAX er ekkert sérstaklega hæfileikaríkur en er samt allt í öllu í félagslífinu í skólanum.

BLUME veit ekki aura sinna tal.