ÍRSKA leikritaskáldinu Brian Friel var fagnað vel við hátíðlega athöfn sem haldin var í Abbey- leikhúsinu í Dublin fyrir skömmu en Friel varð sjötugur fyrr á þessu ári. Kynnti rithöfundurinn og bókmenntafræðingurinn Seamus Deane þá hátíðardagskrá, sem efnt er til í tilefni afmælisins, og sem vara mun allt fram í ágúst.
Hátíðardagskrá í tilefni sjötugsafmælis írska leiklistarskáldsins Brians Friels Þykir fremsta

núlifandi

leiklistarskáld Íra

ÍRSKA leikritaskáldinu Brian Friel var fagnað vel við hátíðlega athöfn sem haldin var í Abbey- leikhúsinu í Dublin fyrir skömmu en Friel varð sjötugur fyrr á þessu ári. Kynnti rithöfundurinn og bókmenntafræðingurinn Seamus Deane þá hátíðardagskrá, sem efnt er til í tilefni afmælisins, og sem vara mun allt fram í ágúst. Sett verða upp helstu leikrit Friels, lesið verður upp úr verkum hans og efnt til ýmissa annarra viðburða.

Friel er þekktasta núlifandi leikritaskáld Íra en hann fæddist í bænum Omagh á Norður- Írlandi og hefur ástandið á N- Írlandi ávallt verið honum nokkuð hugleikið, þótt hann hafi reyndar í verkum sínum tekist á við ýmisleg sammannleg einkenni.

Friel vakti fyrst athygli á sér árið 1964 með leikritinu Philadelphia, Here I Come sem fjallar um angist og vandamál ungs Íra sem flytjast vill búferlum til Bandaríkjanna, eins og svo algengt var um Íra fyrr á þessari öld.

Angistin og mannleg vandamál er reyndar eitt af helstu viðfangsefnum Friels og leikritið Freedom of the City , frá árinu 1974, byggði hann m.a. á atburðum "blóðuga sunnudags" í Derry árið 1972, þegar breskir hermenn skutu til bana þrettán óbreytta borgara, eftir að kaþólikkar höfðu efnt til mótmælagöngu í borginni.

Önnur helstu verk Friels Volunteers , frá árinu 1975, og Translations frá árinu 1980, fjalla ekki með beinum hætti um vandamál N-Írlands en í báðum má þó finna undirtóna sem skírskota til ástandsins. Er það álit margra fræðimanna að síðartalda leikritið sé hans besta.

Meðal annarra leikrita má nefna eitt af þeim nýrri, Dancing at Lughnasa frá árinu 1990, sem í fyrra var kvikmyndað og fór leikkonan Meryl Streep með aðalhlutverkið í kvikmyndaútgáfunni. Eins og svo mörg önnur gerist það í þorpinu Ballybeg í Donegal-sýslu, þorpi sem Friel bjó til í upphafi ferils síns og hefur gjarnan nýtt sem baksvið fyrir þau átök nútíma og fortíðar, framfara og afturhalds eða samheldni og þjóðfélagslegs niðurbrots sem svo mjög einkenna verk hans.

Friel er sagður ekki mjög gefinn fyrir athygli fjölmiðlanna og hefur kosið að helga líf sitt leikhúsinu. Verk hans þykja þó standa fyllilega fyrir sínu, og vel það, og þykir Friel-leiklistarhátíðin einn helsti viðburður í írsku menningarlífi á þessu ári.