Forseti Íslands í Hrísey og Grímsey við lok opinberrar heimsóknar sinnar Þurfum að veita börnunum fyrr greiðan aðgang að skólunum OPINBERRI heimsókn forseta Íslands, herra Ólafs Ragnars Grímssonar, til Eyjafjarðar, lauk í gærkvöldi með hátíðarsamkomu í Grímsey.
Forseti Íslands í Hrísey og Grímsey við lok opinberrar heimsóknar sinnar Þurfum að veita börnunum fyrr greiðan aðgang að skólunum

OPINBERRI heimsókn forseta Íslands, herra Ólafs Ragnars Grímssonar, til Eyjafjarðar, lauk í gærkvöldi með hátíðarsamkomu í Grímsey. Við það tækifæri afhenti forsetinn Grímseyingunum Þorleifi Hjalta Alfreðssyni 11 ára og Sunnu Sæmundsdóttur 9 ára viðurkenningu sem ber heitið Hvatning forseta Íslands til ungra Íslendinga, en alls fékk 21 ungmenni slíka viðurkenningu á ferð forsetans um Eyjafjörð.

Forsetinn hóf daginn í gær í Hrísey þar sem hann heimsótti m.a. Grunnskólann í Hrísey, 36 nemenda skóla, sem lýtur stjórn Rutar Indriðadóttur skólastjóra. Tóku börnin honum fagnandi, sungu fyrir forseta sinn og leystu hann út með gjöf, sem hann endurgalt.

Hafði forsetinn á orði í ræðum sínum á ferðalaginu og í samtali við Morgunblaðið að tvær fimm ára stúlkur sem unnu stærðfræðidæmi í bækur sínar fyrir utan eina kennslustofuna myndu verða lengi í huga sér að lokinni heimsókn þessari.

Vildu líka komast í skólann

"Þessar tvær stelpur vildu komast í skólann því þær vildu líka læra," sagði forsetinn. "Þótt lögin og reglurnar segi að það sé nánast bannað, þá fengu þær, af því að þær eru hluti af þessu litla samfélagi að koma í skólann. Þær sögðu mér að þær væru að verða læsar og þess vegna vaknar sú spurning hvort það séu bara fimm ára stelpur í Hrísey sem eiga að fá að læra. Af hverju fá ekki fimm ára krakkar um allt land að læra ef þau hafa áhuga á því og getu til að gera það? Erum við ekki að binda skólakerfið allt of mikið í fastar skorður og segja með einhverjum fyrirmælum hvað á að kenna einhverjum aldursflokkum í stað þess að galopna menntakerfið í samvinnu stjórnvalda, foreldra og heimila til þess að láta reyna á börnin sjálf og vilja þeirra til þess að læra? Mér finnst að þessar tvær litlu stelpur í Hrísey verði mér umhugsun og hvatning til þess að hvetja til umræðu um það að nú þurfum við Íslendingar allir með opnum huga að skoða okkar skólakerfi, veita börnunum fyrr greiðan aðgang að skólunum og virkja þessar miklu auðlindir sem eru í krökkunum, sem þau eru þegar farin að virkja í gegnum tölvurnar."

Morgunblaðið/Þorkell BJARNI Magnússon oddviti Grímseyinga leiddi forsetann um Grímsey og fræddi hann um sögu og staðhætti eyjarinnar, áður en gengið var til veislu þar sem boðið var upp á svartfugl og svartfuglsegg.

BJALLAN, sem er við kirkjugarðinn í Hrísey, er frá árinu 1725 og er ein fárra gamalla minja í eynni.