Ásta Sigrún Guðjónsdóttir Mig langar með nokkrum orðum að kveðja ömmu mína og nöfnu Ástu Sigrúnu Guðjónsdóttur frá Kirkjufelli í Vestmannaeyjum.

Á langri ævi upplifir fólk svo margt og hún amma mín lifði svo sannarlega langa og viðburðaríka ævi. Það var alltaf svo gaman að fara í heimsókn til hennar og oftar en ekki fóru umræðurnar að snúast um gamla tíma. Hún amma hafði unun af því að segja frá því þegar að hún var ung kona, og gat maður alveg gleymt sér í þeim frásögnum. Hún eyddi einnig löngum tíma í að bera saman hlutina eins og þeir voru í "gamla daga" og svo nútímann sem við lifum í. Þegar ég varð ófrísk að drengnum mínum þá fylgdist hún spennt með og hún talaði mikið um það hvað við hefðum það gott í dag þessir ungu foreldrar, fengjum 6 mánaða orlof á launum, en sjálf átti hún 13 börn og "fékk ekki krónu fyrir".

Okkur barnabörnunum var hún amma alltaf góð og þegar ég var lítil stelpa, þá ber hæst í minningunni gjafir með vettlingum sem hún prjónaði sjálf og kannski smá nammi með.

Amma var afskaplega ákveðin kona og hafði skoðanir á öllum hlutum sem hún lét óspart í ljósi. Hún hafði brennandi áhuga á fótbolta og fylgdist alltaf með sínu liði ÍBV þegar þeir voru að spila enda hefur hún sjálf um ævina lagt til eitthvað af efniviðnum í það lið, og þegar einhver spurði hana hvort hún væri virkilega ennþá að fylgjast með fótboltanum komin á 94. aldursár, þá svaraði sú gamla að bragði "ég vissi ekki að það væri neitt aldurstakmark". Þetta þótti okkur alveg dýrlegt svar, enda var það mjög einkennandi fyrir hana, snögg uppá lagið og svaraði alltaf fyrir sig.

Ég held ég láti staðar numið hér því að eflaust gæti ég endalaust haldið áfram að skrifa um þessa merku konu. Það verður skrítið að hafa ekki hana ömmu mína hjá mér í framtíðinni því að hún hefur verið svo stór þáttur í lífi okkar lengi, en ég er viss um að nú er hún í stórum hópi ástvina sem farnir eru yfir móðuna miklu.

Mig langar að kveðja elsku ömmu mína með þessum ljóðlínum.

Eitt sinn verða allir menn að deyja.

Eftir bjartan daginn kemur nótt.

Ég harma það, en samt ég verð að segja

að sumarið líður alltof fljótt.

(Vilhjálmur Vilhjálmsson) Hvíl þú í friði, elsku amma mín, þín

Ásta Sigrún Gunnarsdóttir.